fimmtudagur, apríl 27, 2006

Sérviska

Ég borða alltaf neðri helminginn af rúnstykki fyrst. Ef ég reyni að bregða út af vananum þá tekur það virkilega á. Mér finnst rúnstykkið hreinlega ónýtt ef ég borða efri helminginn fyrst.

Þegar ég bursta tennurnar þá byrja ég alltaf í neðri góm. Alltaf. Tannburstinn neitar að fara fyrst í efri góm.

Ég tel atkvæði í flestum orðum og setningum sem ég heyri. Orð sem eru með oddatöluatkvæði eru skemmtileg því þá get ég endurtekið talninguna. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að útskýra þetta hérna. Allt of flókið.

Ég myndi aldrei byrja á því að fara í sokka þegar ég vakna á morgnana. Þeir koma síðast, þannig bara er það.

Samkvæmt snyrtifræði á víst maskarinn alltaf að fara á síðastur og púðrið fyrst. Ég set alltaf maskarann fyrst og púðrið seinast. Hitt virkar bara ekki.

Þegar ég hitti fólk sem ég þekki ekki þá bý ég til karakter út frá því í hvernig skóm það gengur.

Nethringurinn minn í réttri röð: Mbl.is, bloggið mitt, blogghringurinn, emailið, b2.is. Þegar eitthvað annað þarf að skoðast kemur það venjulega á eftir þessum hring.

Í sturtu þvæ ég alltaf hárið fyrst.

Þegar ég borða þá blanda ég venjulega ekki matartegundunum saman á gaffalinn. Þá missir hver matartegund sitt bragð. Ein tegund í einu takk fyrir.

Gamla sérviskan... Stórskemmtileg.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Vor

Laugardagur 22. apríl: 15° hiti og sól.

Fótbolti í garðinum. Leikið við kisu í sólskininu. Setið í hring við bál með pönnukökupönnur. Borðaðar pönnukökur. Legið í sólbaði.

Sunnudagur 23. apríl: 15° hiti, hálfskýjað og logn.

Hjólatúr í skóginum. Fótbolti og rugby í garðinum. Útibadminton sem breyttist í advance útgáfu af badminton, maður varð að fleygja sér á eftir flugunni í hvert skipti. Kanótúr, byrjaði á að kanóinn valt, ég þurfti að synda í land, hressandi. Kanótúr kláraður. Á endanum stukku næstum allir í vatnið í fötunum.

Trén eru byrjuð að taka vel við sér, grænir knúbbar komnir á allt. Grasið í garðinum er orðið fagurgrænt og lítil blóm prýða allan garðinn. Ég bíð spennt eftir að sjá garðinn í fullum skrúða. Það verður svo frábært. Ég elska þessa árstíð!

föstudagur, apríl 21, 2006

Ég er mjög hrifin af því...

...að geta skokkað út í súpermarkað (ekki að ég skokki, ég labba eða hjóla) og keypt kippu af Carlsberg á 33 danskar krónur. Koma svo með gripina upp í herbergi, skella þeim í plastpoka og hengja pokann út um gluggann, minn heimagerða ísskáp.
Ég ætla ekki að fara að pæla í áfengisaldri og sölu núna en mér er orðið það ljóst hér í Danmörku að þar sem áfengi er svo ódýrt og auðfáanlegt hér þá lítur fólk á áfengi svo allt öðrum augum en við Íslendingar gerum. Fyrir þeim er þetta gott, þeir súpa einn og einn öllara við og við, drekka vín með mat inni í miðri viku, þegar það á við, og njóta þess að smakka, ekki bara drekka sig pissfull eins og er svo algengt heima.

Æ, mig langar í vín- og bjórmenningu til Íslands. Þó hún sé aðeins byrjuð að aukast heima þá erum við svo ofboðslega frumstæð í þessum málum miðað við til dæmis Danina.

Þetta var föstudagspælingin. Þess má geta að á meðan ég skrifa þessa færslu sit ég uppi í herbergi með ískaldan Carlsberg sem fékk að kólna í plastpoka út um gluggann.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Ég var að frétta...

... að allir sem ætla að kaupa sér miða á Hróarskeldu, án efa skemmtun ársins, verða að fara að drífa í því. Það er nefnilega að verða uppselt. Ég hef afar áreiðanlega heimildir fyrir þessu, það var hún Zenta, heitkona mín sem ég mun ganga í það heilaga með 28. maí*, sem tilkynnti mér þetta. Hún er 23 ára og hefur farið hvorki meira né minna en 12 sinnum á hátíðina. Spáið í þetta! 12 sinnum, einu sinnu á ári í 12 ár. Fyrst hún hefur farið svona oft þá hlýtur þetta að vera peninganna virði. Heilhveitis, hvað ég hlakka til!

*Brúðkaupsdjókið fatta ég varla sjálf. Þetta var eitthvað með að út af því að ég er með lengri baugfingur en vísifingur þá er ég semsagt lesbísk. Allar sem eru með þannig hérna ætla að giftast... eða eitthvað. Ég er bara sæl og glöð að vera að fara að gifta mig, þó það sé í þykjó. Ég fæ pakka!

Fjandinn, þetta er of mikill einkahúmor til að vera fyndið hérna. Þetta kemur út eins og ég sé snargeðveik, að fara að giftast stelpu af því að ég er með lengri baugfingur en vísifingur.
Ég held ég segi bara góða nótt og láti þessa súru færslu standa. Góða nótt!

P.s. Svo þið finnið örugglega síðuna þar sem á að kaupa miðann ykkar, þá er slóðin: www.roskildefestival.dk. Je beibí jehehe.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Neh...

... ég nenni ekki að sjá þessa mynd. Gæinn er með svo asnalegt hár.

Þetta er ekki ólíklegt að heyra bráðum fyrir utan bíóhús út um allan heim. Þeir eru nefnilega orðnir hræddir um Da Vinci lykillinn muni floppa í bíó út af því að hárið á Tom Hanks er asnalegt. Bíógestir á forsýningu myndarinnar voru semsagt ekki nógu ánægðir með myndina út af hárinu á Tomma gamla.

Ég skil þetta ekki alveg. Erum við orðin svona afbrigðilega útlitssinnuð að við þolum ekki að horfa á tveggja tíma bíómynd bara út af því að okkur finnst hárið á aðalleikaranum asnalegt??

Æ, ég á eitthvað bágt með að skilja þetta. Ég ætla að sjá þessa mynd, mér fannst bókin svo skemmtileg. Hins vegar er hætt við að ég eigi eftir að stara mikið á hárið á Tomma sökum þessarar fréttar sem ég las. Að hárið á honum væri asnalegt.

Jamm, þetta var óþarfa færslan.

föstudagur, apríl 14, 2006

Páskahugvekja í bodi ljósku

Nú er ég í Holstebro heima hjá Louise vinkonu minni vegna breyttra páskaplana. Í stadinn fer ég til London yfir Eurovision helgina og svei mér thá ef ég hlakki ekki bara til!
Vid Louise erum búnar ad hafa thad rosa gott heima hjá foreldrum hennar, búnar ad borda nóg og nóg eftir, fara í bæinn í gær og hygge os. Thad er rosa gaman ad fá ad vera inni á heimili í nokkra daga, furdulegt hvad ég fattadi ekki fyrr en ég kom hingad hvad ég hef saknad thess ad vera inni á heimili. Borda vid matarbord med thremur manneskjum en ekki fimmtíu og thremur. Á morgun fer ég svo med í afmæli vinkonu Louise og á sunnudaginn heim til ömmu hennar og afa. Ég er aldeilis ad fá ad kynnast Dönum í sínu náttúrulega umhverfi í thessu páskafríi.

Í dag vorum vid í bíltúr og ég stoppadi sjálfa mig einni sekúndu ádur en ég spurdi: ,,Hver var eiginlega svona mikilvægur ad deyja?? Thad er flaggad í hálfa stöng alls stadar!"
Hjartad mitt stoppadi næstum thví yfir ad ég hafi ætlad ad spyrja ad thessu. Fyrirgefdu Jesús.

Gledilega páska allesammen, njótid thess ad borda, sofa og horfa á dvd. Thad ætla ég ad gera. Í Jesú nafni. Amen.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Skyndiákvarðanir...

...virka oft best til að leysa flækjur. Þess vegna er ég búin að sækja um á leikskólakennarabraut Kennaraháskóla Íslands. Þetta tók mig um 10 mínútur að ákveða eftir að ég hafði skoðað kennsluskrána og ég hef þessa fínu tilfinningu fyrir þessu. Alltaf að treysta hjartanu.
Svo er bara að bíða og sjá hvort ég komist inn! Vona það besta og krossa fingurna!

sunnudagur, apríl 09, 2006

Framtíðarómynd

Ég tók sjálfa mig á beinið í dag. Neyddi sjálfa mig til að setjast niður með blað og blýant og skrifa hvað ég hefði áhuga á að gera á næsta ári. Díses fokking kræst hvað ég er algjörlega úti að keyra!
Þetta er það sem ég skrifaði:
  • Spænska - Skemmtilegt og áhugavert fag. Get tekið 60 eininga nám og hefði þá meiri tíma fyrir söngnám og kannski víólu næsta vetur.
  • Íslenska - Áhugavert nám með mikla möguleika. Kannski svolítið þurrt. Ég brenn ekki fyrir því en finnst það samt heillandi.
  • Leikskólakennarinn - Virkilega spennandi. Ætti mjög vel við mig. Gefandi starf en að sjálfsögðu illa borgað.
  • Hjúkrun - Gamla planið var að fara í hjúkrunina. Núna er ég ekki viss. Ekki viss með áhugann í augnablikinu og efast um að ég myndi nenna klásus ef áhuginn er ekki fyrir hendi. En auðvitað er þetta spennandi fag og starf og ætti vel við mig.
Þetta eru semsagt bóklegu háskólafögin sem ég er að spá í. Einnig heillar mig að fá mér leikskólavinnu fram að áramótum og athuga hvort ég sé einhverju nær þá.
Ég er búin að sækja um söngnám í Nýja tónlistarskólanum og vona að ég komist að. Það væri svo gaman.
Svo er stefnan sett á Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, ef allt gengur vel með víóluna.
Draumurinn er svo leiklistarnám og hver veit nema maður reyni við inntökuprófin næsta vor.

Ég er að sturlast. Það eru allt of margir möguleikar. Ef þið lesendur góðir vilduð vera svo elskulegir að hjálpa mér örlítið. Segja kannski smá skoðun, hvað þið vitið um hvert nám, hvað ykkur dettur fyrst í hug að myndi henta mér. Bara svona, smá hjálp. Ég ræð ekki við þetta ein!

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Blúbbblúbb, titlar eru kjánalegir.

Í nokkuð langan tíma hef ég átt erfitt með að loka seðlaveskinu mínu. Ekki var það vegna of mikilla peninga, onei. Kvittanirnar voru farnar að taka svolítið óþarfa mikið pláss. Í gær ákvað ég svo að reyna að taka aðeins til í veskinu. Ég fór í gegnum kvittanirnar og komst að því að elsta kvittunin var ársgömul. Ég hef ekki tekið til í veskinu mínu í heilt ár. Jahá, ég er skussi. Veskjaskussi.
Ég skemmti mér í rauninni vel við að taka til í veskinu mínu. Ég komst nefnilega að því að ég mundi eftir flestum kaupunum. Þarna sá ég kaffibolla sem ég hafði keypt þegar ég dvaldi löngum stundum á Íþöku fyrir stúdentsprófið í sögu, bíómiða í miðjum stúdentsprófum (obbobbobb), rauða kortið sem leyfði mér svo að ferðast í strætó út á Kjalarnes á hverjum degi í næstum hálft ár, vínflöskur sem ég keypti fyrir matarboð sem ég hélt áður en ég fór til Kúbu og bjórar sem ég keypti á dimissio.
Sumarkaupin voru öll svo ánægjuleg. Ég mundi næstum eftir þeim öllum og mundi að það var bjart alltaf þegar ég keypti eitthvað. Já, ég er greinilega klikkuð að muna eftir debitkortafærslum allt að eitt ár aftur í tímann.
Besta færslan af þeim öllum hlýjaði mér allri að innan og ég upplifði stórkostlega tilfinningu aftur. Hún er frá Kaffitári upp á 38o kr. þann 23. maí 2005, kl. 8:53. Þessi kvittun er fyrir ristuðu brauði og mangótei um það bil hálftíma eftir að ég steig út úr munnlegu stærðfræðiprófi, stúdentsprófin voru að baki. Í fyrsta skipti í 5-6 vikur gat ég leyft mér með góðri samvisku að setjast inn á kaffihús með skáldsögu og hafa ekki áhyggjur af neinu. Ég man svo vel eftir þessari tilfinningu. Það var eins og allt yrði allt í einu bjart, sumarið var framundan og mér hafði tekist að klára stúdentsprófin.

Nú er næstum því eitt ár síðan og ég næ ennþá að kalla fram þessa tilfinningu. Það er gaman. Ég vona að allir mínir sjöttubekkjarvinir eigi eftir að upplifa þessa sömu tilfinningu.

Nú er hins vegar komið nóg af væmni.

Ég kom heim frá Englandi fyrir viku síðan. Ég skemmti mér konunglega á Englandi. Við dvöldum í Scarborough og ferðuðumst út frá Scarborough til York, Whitby, Robin Hood's bay og Lincoln. Allir þessir bæir eru ofboðslega fallegir og skemmtilegir og stútfullir af merkilegri sögu. Í Lincoln er gígantísk dómkirkja, byggð 1072, (þegar Íslendingar voru að gera hvað?) og inni í þessari kirkju er víst stór hluti af Da Vinci code tekin upp. Ógeðslega ýkt merkilegt.
Í York voru alls staðar menjar eftir víkingana. Leiðsögumaðurinn okkar talaði um dönsku sem málið sem allir hefðu talað á þessum tíma og ég setti upp besserwissasvipinn minn. Hann var örugglega bara að reyna að láta Danina finnast þeir merkilegir. Danabjánar maður. Eða kannski Íslendingabjáni? Æ, ég veit ekki.
Whitby var líka rosa fallegur, þar átti James Cook heima og við skoðuðum húsið hans.
Robin Hood's bay var sætasti bærinn, algjör dúkkubær byggður inni í litlum flóa, pínulítil hús allsstaðar.
Svo löbbuðum við Hadrian's wall, það var einhverskonar hernaðarvirki sem víkingarnir byggðu. Það var 6 km ganga um fallegt svæði. Það rigndi allan tímann en við létum okkur hafa það og skemmtum okkur konunglega. Fólk var nefnilega alltaf að detta í drullunni. Sjitt, hvað það var fyndið.

Daginn eftir að ég kom frá Englandi hitti ég svo mömmu og Bryndísi í Kaupmannahöfn. Við túristuðumst og gerðum alls konar skemmtilega hluti. Bryndís er búin að blogga um þessa stórskemmtilegu ferð svo ég leyfi ykkur að lesa það bara í staðinn.
Eftir frábæra helgi í Köben komum við svo saman hingað til Ry og höfðum það voðalega huggulegt. Fórum í hjólatúr að Himmelbjerget, horfðum á dvd, fórum í gönguferðir í vorveðrinu og nutum lífsins. Þetta voru alveg frábærir dagar og ég hlakka til að fá að hitta þær aftur í júlí.

Páskaplönin eru núna komin á hreint: LONDON BEIBÍ! Ragga mun taka á móti mér og við ætlum að hafa það svo gott saman um páskana. Ég hlakka til. Þessi ferð verður til þess að ég fer til Englands þrisvar sinnum á jafnmörgum mánuðum. Það er ýkt ógeðslega töff.

Eitt lítið pinkuponsu oggudoggu atriði fyrir þá sem hafa áhuga. Ég er búin að skipta um fag, hætt í náttúrutíma og komin í tónlistartíma aftur. Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja...