fimmtudagur, mars 31, 2005

Fórnarlamb manns með andstæðuna við gráa fiðringinn.. Hvað heitir það?

Ég var að skoða batman.is um daginn. Það er alltaf ánægjulegt. Í þetta skiptið var þar linkur sem hét eitthvað á þessa leið: Lindsey Lohan talar inn á talhólfið hjá Paris Hilton, rosalegt. Við hliðina á stóð að maður yrði að hækka vel til að heyra þetta. Athygli minni var náð, ég játa það að ég er alltaf til í að heyra smá slúður þó svo að ég vilji auðvitað virða einkalíf annarra.
Ég smellti á linkinn, hækkaði í tölvunni og hlustaði. Þetta var afar ómerkilegt, ,,Lindsey Lohan" var að segja frá einhverjum gaur með stórt typpi... Ég lá með eyrað alveg upp við hátalarann og þá allt í einu heyrist klikkað hátt úr tölvunni: I'M WATCHING GAY PORN, I'M WATCHING GAY PORN, I'M WATCHING GAY PORN...." Litla hjartað mitt dó næstum því úr hræðslu. Þegar ég leit á skjáinn stóð með rauðum stöfum: ,,You've been punk'd!"

Hahaha...

Lof sé sjónvarpi

Ég ætla aldrei að missa af Desperate housewives aftur, þetta eru bestu þættirnir í sjónvarpi núna. Ég er svo spennt að vita hvað býr undir hjá öllu þessu fólki. Það er greinilega eitthvað mjög gruggugt við Paul, mann dánu konunnar, og einnig við Mike, sæta manninn. Ég er svo SPENNT!

ER var hryllilega sorglegt í gær. Ég horfði á upptöku með systur minni þegar ég kom heim í dag og ég missti mig næstum því. Úff úff, ekki gaman.

Þetta eru þó einu þættirnir sem ég mun binda mig yfir þangað til Krónikan byrjar aftur. Ó danska sjónvarpsefni...

sunnudagur, mars 27, 2005

Yfirleitt, en ekki núna

Yfirleitt þegar ég horfi á kvikmynd með mömmu er hún sofnuð eftir svona 40 mínútur og man sjaldan eftir neinu eftir þann tíma í myndinni. Í kvöld var þó ekki sá gállinn á henni. Vinkona hennar hringdi í hana og sagði henni að myndin sem þær hefðu hlegið svo mikið af þegar þær sáu hana væri í sjónvarpinu. Mamma hljóp inn í stofu og greip mig og systur mína hálfhlæjandi og sagði: ,,Þið verðið að sjá þessa mynd.. Hún er yndisleg, algjörlega yndisleg." Nú, við settumst náttúrulega niður og þá var þetta Bleiki pardusinn tvö. Allt í lagi.. Fyrsta atriðið sem við sáum er maður að rota annan mann með byssu.
Mamma: ,,Oh, þetta er svo yndisleg mynd!" Ég og systir mín horfðum á hvor aðra.
Svo sagði mamma: ,,Hahaha... Nú fer pyntingaratriðið að koma.. Hahaha"
Ég: ,,Ég vissi ekki að þú hefðir þessar kenndir mamma.. Pyntingar?"
Mamma: ,,Þessar eru bara svo fyndnar."
Ég var farin að búa mig undir það versta. Mamma var ennþá vakandi og hláturinn kraumaði í henni. Hún var alltaf að segja að hún vissi hvað kæmi næst, ég gat ekki annað en hlegið að henni, ég hef aldrei séð hana svona áður.

Ég verð nú samt að viðurkenna að pyntingaratriðið var mjög fyndið og reyndar myndin öll ef að því er að spyrja.

Ég mæli með..

..góðri pásu á milli lestrartarna. Ég er búin að finna hina fullkomnu pásu: Byrjað er á að koma sér vel fyrir í skrifborðsstólnum, rúminu, sófanum eða á öðrum þægilegum stað. Stóru heyrnartólin sem allir alvöru rokkpabbar eiga eru gripin, smellt í græjurnar og sett á hausinn. Þarnæst er ýtt á play, hækkað með miklum látum og valið sérlega gott lag.
Í dag mæli ég sérstaklega með Since I've been loving you með Led Zeppelin og Lilac Wine með Jeff Buckley.
Ekki spillir fyrir að Since I've been loving you, sem og flest Zeppelin lögin, eru þónokkrar mínútur og því er pásan ágætlega löng.

Þetta er skothelt.

laugardagur, mars 26, 2005

Æ nei!!

Það er ekkert gleðilegra eftir afar vel lukkaðan nætursvefn að vakna við vekjaraklukkuna og hugsa: Verkefni dagsins er Heimir Pálsson.

Ef einhvern langar að koma í heimsókn og lesa hana fyrir mig, jah eða bara lána mér súperglósur, þá býð ég hann hjartanlega velkominn. Mi casa, tu casa!

mánudagur, mars 21, 2005

Scheisseman

Ég fór í tvö tvítugsafmæli á laugardaginn. Það var gaman. Hún Una sem eitt sinn var svo lítil og saklaus og lék sér í playmo og hann Halli sem... er með mér í kór eiga afmæli með nokkurra daga millibili og hittu afmælin bæði á sama kvöldið.
Hjá Unu var boðið upp á dýrindis kjúklingarétt, brjálað salat og hrísgrjón. Namminamm. Eftir að hafa verið þar í smátíma brunaði ég svo í Hafnarfjörðinn þar sem gleðin hélt áfram hjá Halla.
Kvöldið endaði svo á því að ég fór heim, leið illa og fór að sofa. Þegar ég vaknaði í morgun gerði ég þá óþægilegu uppgötvun að ég hafði drukkið átta bjóra og tvö rauðvínsglös auk þess að smakka á bollu og hvítvíni. Þá var ég ekki lengur hissa á að mér skyldi hafa liðið illa.

En að öðru. Eftir að hafa sofið lítið sem ekkert í þrjár vikur, varla komið heim til mín og verið að deyja úr stressi er dagurinn loksins runninn upp. Við erum laus við Skólablaðið. Ég hélt að þessi dagur myndi aldrei koma. Ég fattaði hvað ástandið var orðið óeðlilegt hjá mér þegar ég fékk út úr þremur prófum sama daginn og fékk 2,4; 4 og 6,5. Þá var ég ýkt ánægð með 6,5 því ég hafði byrjað að læra klukkan ellefu kvöldið áður. Ussussuss...

Ég var að horfa á þáttinn Allt í drasli áðan og hef bara aldrei séð annað eins. Íbúð konunnar var gjörsamlega ógeðsleg. Allt myglað í eldhúsinu, blöð, föt, kassar, pottar, leirtau og allur fjandinn lá út um alla íbúð. Konan þurfti að klofa yfir draslið til að geta gengið um. Þegar Heiðar snyrtir spurði hana hvers vegna ástandið væri svona slæmt sagðist hún bara ekki hafa haft tíma til að taka til. Það hafði ekki verið gerð tilraun til tiltektar síðan í ágúst á síðasta ári. Svo fór hún að útskýra af hverju hún hefði ekki tíma: Hún var búin að vera að vinna svo rosalega mikið, fannst ástandið óeðlilegt en gat alltaf farið til nágrannans í mat og svo náttúrulega eignaðist hún barn fyrir jólin... Ég held ég hafi án gríns misst andlitið. Má þetta? Má hún ala upp barn í svona ógeði, barn sem er svo lítið að það skríður á gólfinu og borðar það sem það finnur? Ég er mjög hissa á að ekkert skuli hafa verið gert fyrr.

laugardagur, mars 12, 2005

Ruslakall?

Á fimmtudaginn var ég að ganga upp Laugaveginn, eins og ég geri svo oft, og tók þá eftir konu sem gekk á móti mér. Ég hafði oft séð hana áður og líklegast hafa flestir séð hana. Ég ætla samt að sleppa því að lýsa henni hér. Hún er ein af þeim sem kíkja ofan í ruslatunnurnar og taka þaðan verðmæti í formi flaskna.. Eða svo hélt ég. Hún tók upp kókflösku, sem ég hélt að hún ætlaði að setja í pokann sinn, opnaði hana, svo ég hélt að hún ætlaði að hella úr henni ógeðinu sem allir sleppa því að drekka, og DRAKK það. Ég veit það er ljótt að stara en ég komst ekki hjá því. Svo leit ég á pokann sem hún hélt á og sá að í honum var ekkert nema rusl. Þegar ég leit aftur á hana var hún að henda kókflöskunni aftur í ruslið og taka þaðan rusl í staðinn.
Þá fór ég aðeins að velta fyrir mér svona söfnunaráráttu. Flestir safnarar, til dæmis þeir sem safna servíettum og styttum, myndu ekki vilja fá algjörlega hvað sem er í safnið sitt, eins og skítuga servíettu eða brotna styttu, en ætli ruslasafnarar vilji alls ekki safna einhverju ákveðnu rusli?? Ætli það sé einhver sem harðneitar að safna Mars-bréfum og kúgast þegar hann sér svoleiðis en aftur á móti þegar hann sér skítuga bleyju þá sé það allt í lagi? Þetta þykir mér forvitnilegt að vita.

Af Fiðluballi

Síðan ég var 14 ára hafði mig langað á Fiðluballið. Á hverju ári sá maður mynd af dansandi menntskælingum í sínu fínasta pússi í Mogganum og hlakkaði til að verða stór.
Á fimmtudaginn varð ég semsagt stór. Það var ofsalega gaman að klæða sig upp í föt sem ég hugsa að ég muni aldrei klæðast aftur en múnderingin mín samanstóð af svörtum kjól sem var svo síður að ég sá ekki tærnar á mér, ekki einu sinni í hælum, og svörtum hönskum sem náðu upp á olnboga. Pilsið á kjólnum var fjórfalt...
Eftir að hafa dansað sjö dansa á danskorti og nokkra frjálsa var ballið búið og þá marseruðum við í kringum Tjörnina. Það var gaman að sjá fólk hægja á bílunum til að horfa á hersinguna. Eini gallinn var að í staðinn fyrir að labba á efri gangstéttinni á Fríkirkjuveginum þá fór fólk niður... Þá sá fólk okkur ekki úr bílunum.
Eftir þetta allt saman fórum við á Devito´s og þar spurði lítil stelpa með Breezer okkur hvort við værum að fara á ball.. Alveg eins og hún.