miðvikudagur, janúar 26, 2005

Anna fyndna

Í gær sagði Ómar mér að hann væri að fara að læra hjálp í viðlögum í læknisfræðinni. Ég söng þá fyrir hann viðlagið í Popplagi í g-dúr og spurði svo hvort hann kynni það í alvöru ekki. Svo fór ég að ímynda mér að prófessorarnir hefðu rosalegar áhyggjur af viðlagakunnáttu nemenda sinna og hefðu því ákveðið að bæta við námskeiði þar sem þeir kenndu krökkunum öll helstu viðlög í íslenskum dægurlögum. Ég hló með sjálfri mér.

laugardagur, janúar 15, 2005

Laugardagshugleiðingar

Jæja, þá er skólinn byrjaður af fullum krafti. Ótrúlegt en satt þá er þetta síðasta önnin mín í MR. Einhvernveginn finnst mér svakalega stutt síðan ég var að velja á milli MR og Kvennó. Ég sat í strætóskýli og var mikið að velta fyrir mér í hvorn skólann ég ætti nú að fara. Þar sem ég sat þar í þungum þönkum keyrði allt í einu risastór MR fóðurbíll framhjá mér og... PÚFF, ég ákvað að fara í MR.
Þó að ég sé afar ánægð með mitt val og hefði aldrei viljað vera annars staðar þá er ekki laust við að ég hlakki skrambi mikið til að standa uppi á sviði með stúdentshúfuna og skírteinið. Allt í einu er það ekki fjarlægur draumur lengur heldur eitthvað sem á án efa eftir að skella á fyrr en mig grunar.
Áður en ég get útskrifast verð ég víst að klára annað stórt verkefni, að koma út Skólablaðinu. Vinnan við blaðið er oftast skemmtileg þó að auglýsingasöfnunin sé allt annað en áhugaverð. Þetta er þó allt að koma og nú er fjárhagurinn loksins byrjaðir að vænkast. Ég vona bara að fólk eigi eftir að fíla blaðið, en það er einmitt það sem mér finnst skrýtnast við þetta allt saman, að eiga eftir að fá gagnrýni frá öllum skólanum. Ég vona bara að hún verði góð.
Söngkeppnin er í næstu viku og var það alltaf á prjónunum hjá mér að taka þátt. Við vorum meir að segja nokkrar búnar að hittast og reyna að finna lag en svo hafði engin okkar nógan tíma svo við urðum að blása það af. Það var dálítið súrt því það hafði alltaf verið plan hjá okkur að taka þátt í 6. bekk. Það verður að hafa það.

Ég vildi að ég myndi aldrei fá samviskubit þegar ég eyði laugardögunum í að gera ekki neitt. Núna ákvað ég hins vegar að vera kúl á þessu og horfa á Doctor Zhivago, gæðamynd sem ég keypti á Amazon. Yfir engri annarri mynd hef ég grátið jafn mikið.. Hver hefur svo sem ekki gott af því??