sunnudagur, júní 26, 2005

Ullabjakk

Ég þoli bara alls ekki Yellow submarine með Bítlunum. Mér finnst það ógeðslega leiðinlegt og hreinlega lélegt. Ég hlusta alltaf á Revolver tilbúin að skipta af Here, there and everywhere yfir á She said she said. Ullabjakk hvað mér finnst Yellow submarine leiðinlegt!!

Anti-ullabjakk er hinsvegar 100 ára einsemd eftir García Marquez. Mér finnst töfraraunsæi suður amerískra bókmennta algjört nammi. Það er svo gaman að fara aðeins út í þetta dulúðuga.

laugardagur, júní 11, 2005

Augnablik sem gleymast ekki

Þegar ég var 14 ára keypti ég mér miða á Reykjavík music festival. Ástæðan fyrir þessum kaupum mínum var koma Bloodhound gang og Kent. Þessi hátíð var frekar mögnuð fyrir óreyndan tónleikafara en þetta voru fyrstu alvöru tónleikarnir sem ég fór á. Síðan þá hef ég farið á þónokkra tónleika.
Sumarið 2001 kom ég heim frá Englandi nokkrum dögum fyrir Coldplay tónleikana. Við vinkonurnar lásum í blaðinu að þeir myndu koma til landsins og byrja á heimsókn í Bláa lónið. Við þangað. Við hittum þar fyrir hljómsveitina og spjölluðum aðeins við þá og fórum á gestalistann fyrir tónleikana. Við hlógum móðursýkislega alla leiðina heim með rútunni. Ó, að vera gelgja!
Tónleikarnir voru frábærir. Þegar Coldplay komu aftur fór ég á þá tónleika líka, þeir voru fínir.

Vorið 2004 sat ég í skólanum þegar bekkjarsystir mín hljóp inn alltof alltof sein. Ég spurði hana eftir tímann hvar hún hafi verið. Hún segist hafa verið að kaupa sér miða á Damien Rice. Um þann mann hafði ég aldrei heyrt en ákvað að hlaupa upp í Skífu og kaupa mér miða á tónleikana. Flipp. Þegar þangað var komið keypti ég mér diskinn í leiðinni. Um kvöldið hlustaði ég á diskinn og fann fyrir þeirri sælu að hafa uppgötvað fallegustu tónlist sem ég hafði heyrt. Tónleikarnir voru ótrúlegir. Einn maður á sviðinu með kassagítar sem náði að halda öllum áhorfendunum föngnum í tvo klukkutíma. Töfrar.
Damien Rice kom aftur í september 2004 og ég mætti eldsnemma á laugardagsmorgni í röð fyrir utan Skífuna. Tónleikarnir voru magnaðir, endurupplifun á hinum fyrri nema í þetta skiptið var vinkona hans með honum á sviðinu sem hefur ótrúlega fallega söngrödd.

Úti í Kaupmannahöfn um daginn fórum við í Tivoli. Kvöldið var æðislegt, veðrið var gott, fallturninn ógnvekjandi og rússíbaninn skemmtilegur. Klukkan tíu um kvöldið steig Elvis Costello á svið. Þegar við fórum þangað var byrjað að rigna dálítið. Þegar við vorum búin að hlusta í smástund byrjaði að rigna meira... og meira.. og meira. Svo komu þrumur, meiri rigning, eldingar, meiri þrumur og meiri rigning. Við vorum gegnsósa. En það var ekkert annað í stöðunni en að hlæja að þessu, drekka Tuborg í plastglasi og dansa í takt við eldingarnar. P.s. Tuborg á Kaupmannahöfn, enginn vafi á því.
Ógleymanlegt kvöld.

Í gær var ég í afmæli hjá Birgittu vinkonu minni og ég var mætt snemma, óvenjulegt en satt. Guðbjörg hafði komið með geisladisk með sér og ákvað að spila hann fyrir okkur því það voru svo fáir komnir. Þessi diskur var I am a bird now með Antony and the Johnsons. Orð fá varla lýst því hvernig mér leið þegar ég heyrði þetta. Ef sælutilfinning fór um mig þegar ég uppgötvaði Damien Rice þá veit ég ekki hvaða tilfinning þetta var sem ég fann fyrir í gær en hún var mörgum sinnum sterkari. Þessi tónlist er eitthvað svo tregablandin að ég fékk tár í augun um leið og fyrstu tónarnir hljómuðu. Söngrödd Antony er stórkostleg.
Ég fór niður í bæ áðan að kaupa diskinn og miða á tónleikana 11. júlí. Ég bíð í ofvæni.