miðvikudagur, febrúar 21, 2007


Ég er búin að hafa þessa mynd sem skjámynd á tölvunni minni í nokkra daga. Ég held hún fái að vera þar í þónokkuð marga daga í viðbót því ég virðist geta rifjað upp endalausar minningar tengdar þessari mynd. Þetta er mynd af bakgarðinum í lýðháskólanum mínum undursamlega í Ry.
Í þessum garði hef ég:
- Klifrað í trjánum.
- Látið hífa mig 10 metra upp í loftið í hengirólu og síðan verið sleppt.
- Rúllað mér niður brekkuna.
- Rennt mér í sápurennibraut.
- Legið í sólbaði.
- Setið langt fram á nótt við varðeld drekkandi bjór.
- Drukkið rosalega kalt rauðvín.
- Sofið.
- Synt í vatninu.
- Labbað um í blautbúning.
- Siglt á kajak ótal sinnum.
- Oltið í kanó.
- Hlaupið öskrandi niður brekkuna með Louise mér við hlið til að koma okkur í partýstuð.
- Rólað.
- Spilað blak.
- Æft mónólógana mína fyrir leikritið.
- Lært víkingaspil og orðið sindsygt god til det.
- Grillað mér sykurpúða og brauð yfir eldi.
- Séð ótrúlega stórar kóngulær og heyrt sögur af snák sem bjó í vatninu.
- Upplifað alvöru sumar.
... Og sjálfsagt alveg ótrúlega margt fleira. Fortíðarþráin getur stundum gert örlítið út af við mann.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Í fullorðinsleik

Mér líður eins og ég sé í fullorðinsleik í dag.

- Er að fara að skoða íbúð á eftir. Ofboðslega fullorðinslegt.
- Drakk skyrdrykk áðan sem rann út fyrir 20 dögum. Mér finnst það svaka fullorðinslegt að borða útrunnar mjólkurvörur. Þá líður mér eins og alvöru fullorðnir séu ekki þeir einu sem þora því, þótt þau hafi fengið að upplifa mjólkurverkfall einhvern tímann á síðustu öld og orðið að frysta mjólk og allt í rugli bara.
- Aðhaldið, megrunin, kúrinn... Bara það sem er fullorðinslegast, gengur svona líka vel. 4,6 kg. farin á fimm vikum. Ekki svo fullorðinslegt: Í verðlaun fyrir góðan árangur fékk ég kirsuberjalímmiða með augum sem hreyfast.
- Núna sit ég svo á kaffihúsi með tjörn fyrir utan gluggann og sýp á léttum latte í glasi, lítandi ever so fullorðinslega út með fartölvuna mína að þykjast vera að skrifa eitthvað voðalega vitrænt. Sem ég er ekki að gera.

Annars neita ég ennþá að vera orðin eitthvað fullorðin, ég er sko ekki orðin kona. Í mesta lagi ung kona. Sem mætti líka bara vera stelpa. Já, stelpa er það heillin.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Völundarhús skógarpúkans

Ég fór að sjá spænsku myndina El laberinto del fauno í gær. Á íslensku er hún ranglega kölluð Völundarhús Pans en ætti að heita Völundarhús skógarpúkans, ef við förum út í smáatriði, því fígúran heitir ekki Fauno, hún er "fauno".
Hún er nú búin að bætast í flokk þeirra mynda sem Græna ljósið flytur inn. Ég hef núna séð þrjár myndir hjá þeim, hver annarri betri.
Völundarhús skógarpúkans er stórkostlegt listaverk. Þvílíkt magnaða mynd hef ég ekki séð í háa herrans tíð. Oo, það er svo gaman að fara í bíó á svona frábærar myndir sem sitja sterklega í manni ennþá daginn eftir. Ég gekk meir að segja svo langt að dreyma um hana í alla nótt, sem gerði það að verkum að ég svaf ekkert voðalega vel, myndin verandi frekar ljót.

Eins hlynnt og ég er þessu framtaki hjá Græna ljósinu, að flytja inn svolítið öðruvísi myndir og sýna þær án hlés þá verð ég nú að segja að ég var ekki hrifin af því hvernig staðið var að sýningunni í gær. Veit ég þó ekki hvorum er um að kenna, Græna ljósinu eða Regnboganum. Við mæðgurnar vorum mættar um korteri fyrir sýningarbyrjun, keyptum okkur miða í þeirri trú að nauðsynlegt væri að mæta svona snemma til að vera leyft að kaupa miða. Græna ljósið segir nefnilega að miðasölu hætti á slaginu þegar myndin byrjar, og að myndin byrji á slaginu. Þegar við vorum búnar að sitja inni í sal í svona tíu mínútur var klukkan orðin en fólk streymdi ennþá inn í salinn. Venjulegar auglýsingar hættu ekki fyrr en um 10 mínútum eftir að myndin átti að vera byrjuð og þá hófust bíóauglýsingar. Myndin byrjaði ekki fyrr en korteri eftir auglýstan sýningartíma og ennþá var fólk að streyma inn í salinn.

Þetta pirraði mig mikið, sérstaklega vegna þess að miðarnir á sýningar Græna ljóssins kosta 1000 krónur! Líklega kostar meira á þessar sýningar en aðrar vegna þess sem maður fær í staðinn en í gær fengum við ekkert fyrir þennan auka 100 kall. Fólk streymdi inn í salinn til a.m.k. 20 mínútur yfir og myndin byrjaði korteri of seint.
Þetta var ég ósátt við.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Leynilega kosningin mín til stúdentaráðs og háskólafundar fór forgörðum þegar, af einhverri óskiljanlegri ástæðu, kennitalan mín var ekki á kjörskrá. Til að kjósa þurfti ég því að kjósa utan kjörfundar. Munurinn: Atkvæðið mitt var sett í umslag merkt með nafni og kennitölu. Skilur fólk ekki að ég á vini í báðum fylkingum??? Djö...

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Ég man þá tíð...

Mamma ætlar að hafa svið í matinn í kvöld. Bróðir minn kemur að sjálfsögðu í mat enda ekki maðurinn til að missa af ljúffengum sviðakjömmum. Ég hef sjálf svosem ekkert á móti þessum mat þó ég hrópi nú ekki margfalt húrra fyrir þeirri ákvörðun að sunnudagssteikin þann 4. febrúar sé svið en ekki ljúffengt lambalæri eða eitthvað í þá áttina.

Þegar ég hugsa um þá athöfn að borða svið þá flýgur alltaf upp í hausinn á mér mynd af sjálfri mér sitjandi við eldhúsborðið hjá ömmu og afa þegar þau bjuggu í Keflavík. Þetta hefur líklegast verið á þorranum og ég verið svona 7 ára, mér sýnist það allavega á myndinni í höfðinu. Svið voru á borðum og ég sat og borðaði tungu, kartöflur, rófustöppu og så videre. Mamma var örugglega búin að skera tunguna úr fyrir mig og í bita því ég sat og borðaði þetta í mestu makindum, og fannst einkar bragðgott. Tungan var alltaf uppáhaldsparturinn minn, mér fannst hún alls ekkert ógeðsleg á meðan mér fannst ógeðslegt að horfa á hina í fjölskyldunni borða kjöt af kjömmunum sjálfum.

Í dag hefur þetta gjörbreyst. Ég sé sjálfa mig ekki sitja 21 árs við kvöldmatarborðið í kvöld með tunguna brytjaða niður fyrir mig, kartöflur og rófustöppu. Tunguna úr dýrinu sem sleikir slímið af lömbunum sínum þegar þau fæðast, borðar gras, gefur frá sér hljóðið baaaaa (sem sumir skilja sem meme), drekkur vatn úr dalli sem margar margar aðrar kindur sem sleikja slímið af lömbunum sínum drekka líka úr....
Sviðin eða ekki, það verður langt í að tungan rati á diskinn minn aftur. En hver veit nema maður gæði sér á gómsætu dökku kjöti af kjömmunum sjálfum?? Eða panti sér bara pizzu...