fimmtudagur, desember 20, 2007

Hugleiðingar

Ég fór í próf í breskum bókmenntum í dag. Fyrir prófið las ég um öll helstu skáld viktoríanska tímabilsins og skemmti mér hið besta. Sérstaklega af því að prófið gekk svo vel.

Ég fór samt aðeins að íhuga skáld og sjálfa mig í því samhengi. Ég er ekki skáld. Nei, greinilega ekki. Ég kem varla þessari bloggfærslu frá mér í heilu lagi. Ég hef samt samið nokkur ljóð um ævina en engin þeirra teljast víst til stórvirkja er ég hrædd um.

Lord Tennyson hafði samið 6000 lína epískt ljóð þegar hann var 12 ára. Heimilislíf fjölskyldunnar var með versta móti, drykkja, ofbeldi, geðveiki... Fyrst þegar hann fór í Cambridge eignaðist hann alvöru vin, sem svo dó nokkrum árum síðar. Ímyndið ykkur... 12 ára! Þolinmæðin þrautir vinnur allar... en ég held samt að ég hefði ekki getað skrifað 6000 lína ljóð á þessum aldri.

Elizabeth Barrett Browning var alltaf alein. Hún var karlmannleg í útliti, fór sjaldan út á meðal fólks, kenndi sjálfri sér um dauða uppáhaldsbróður síns og sat heima hjá sér í nokkur ár án þess að fara út úr húsi. Hún kenndi sjálfri sér næstum allt sem hún kunni... og hún kunni. Hún kenndi sjálfri sér nógu mikla hebresku til að geta lesið Gamla Testamentið frá byrjun til enda, sem hún og gerði. Einnig kenndi hún sjálfri sér fleiri tungumál og gleypti í sig allan þann fróðleik sem hún fann. Hún skrifaði eitt frægasta ástarljóð sögunnar sem hefst: How do I love thee? Let me count the ways... Elizabeth var alein þangað til einn daginn kemur til hennar maður, 6 árum yngri og fallegur og segist elska hana; ég elskaði bókina þína, en ég elska þig meira. Sæll.. hvar eru þessir herramenn í dag? Þessi maður, Robert Browning, hætti í Oxford af því að hann kunni allt sem þeir voru að kenna, það var bara barnaleikur fyrir hann. Kenndi sér sjálfur... Svo mikið meir að segja að ljóðin hans eru talin torskilin og hann áttaði sig engan veginn á því að hann væri að skrifa svona flóknar vísanir eða myndlíkingar!

Ég er að velta þessu aðeins fyrir mér. Þetta er eins og með tónskáldin; Mozart, Beethoven, Bach, Wagner, Vivaldi... Hvar eru jafnokar þessara manna í dag?

Þetta fólk hlýtur að hafa verið sent á jörðina með einhvern tilgang. Ég hef ekki lesið nútímaljóð eða heyrt nútímatónverk sem jafnast á við eitthvað af þessu... Það verður gaman að sjá hver verður næstur.

Eitt er þó víst... Ég er líklega ekki ein af þeim.

Ég ætla samt að sýna ykkur hæfileika mína, ef einhver þarna úti er að leita að skáldi eins og mér.

Ó Bryndís, ó Bryndís,
þú veist ég elska þig,
viltu vera hjá mér daginn út og inn?
Þú ert svo falleg alltaf hjá mér,
mér þykir svo vænt um þig.
Anna Samúelsdóttir, 1991.
Við lagið: Fram í heiðanna ró.

Fuglinn minn góði er fallinn frá,
í byrjun vorsins frá oss brá.
Hann lítur ei framar glaðan dag
því guð hann sagði: Þú verður hjá mér.

Ragnheiður L. Óladóttir og Anna Samúelsdóttir, um 1993.
Við sömdum líka lag við þetta og sungum yfir dauðum spóa sem við fundum út'í móa.


Þegar sólin lægst á lofti er
ég liggja vil í faðmi þér,
því þar get ég best unað mér
og látið vetur líða.
Anna Samúelsdóttir, 200?

Hver veit... Kannski hef ég þetta í mér!