miðvikudagur, júlí 30, 2008

Sumarið er tíminn

Fingur mínir svífa yfir lyklaborðið eins og þeir hafi sjaldan gert annað. Eins ótrúlegt og það virðist hafa þeir ekki skrifað eitt einasta orð hingað inn í rúma þrjá mánuði. Ekki má sjá það á gæðum þessara skrifa að svo langur tími sé liðinn síðan internetið fékk að njóta... umm... mín?

Ég er löngu komin heim til Íslands. Löngu byrjuð að vinna. Í vinnunni er ég búin að sjá fullt af stökkvandi hnúfubökum, mann sem þóttist vera víkingur og stóð varla í lappirnar á skipinu því hann var í skóm með nöglum undir, og sjósyndandi Rússa. Fór á snekkjudjamm á 24. flottustu snekkju heims á miðvikudagskvöldi þar sem ég borðaði skinkubrauð og hljóp á hlaupabretti auk þess sem ég sagði Nýsjálendingi frá náttúru Íslands með miklum tilþrifum og horfði á fólk spila guitar hero. Miðvikudagskvöld eru hin nýju föstudagskvöld, eins og alkunna er, og héldum við Ásdís Eir afmælispartý á einu slíku í rigningu í Heiðmörk. Haldið var til Vestfjarða í byrjun júlí og siglt frá Ísafirði inn í Leirufjörð í Jökulfjörðum þar sem átthagamót mikið er haldið á fjögurra ára fresti. Var mikið sungið og drukkið með fjarskyldum ættingjum í rjómablíðu og gengið inn að Drangajökli. Mamma varð fimmtug seinasta laugardag og fólk skemmti sér eins og kóngar í garðpartýi heima í Mosó í geggjuðu veðri. Nú styttist bara í að ég verði fimmtug. Í gær var 27 stiga hiti á Þingvöllum og hélt ég þangað ásamt fríðu föruneyti kærasta og bróður að sulla í vatninu og leika á fjórhjóli út um allar trissur. Fór niður brekku á hjólinu á 80 km/klst í sumarkjól og þunnri peysu og fann ekki fyrir minnsta kulda. Svona á sumarið að vera. Í dag er svo stefnan tekin á Hvalfjörðinn með hæsta fossi landsins og sumrinu í algleymingi. Mikið getur verið ljúft að vera í sumarfríi.
Á döfinni er svo pílagrímsferð til Vestmannaeyja á hátíð sem kennd er við þjóð, næstu helgi. Veðurspáin er það góð að fróðir menn segja að ég muni ekki ná að upplifa Vestmannaeyjar ef upplifunin á að fara fram í svona blíðu. Það þurfi að blása hressilega inn dalinn og gista í íþróttahúsinu ef þetta á að vera almennilegt. Ég segi nú bara nei takk við svoleiðis bulli og ætla að pakka sumarfötunum.

Ég er ennþá föst í frásagnarstílnum á blogginu síðan í Asíunni góðu. En þetta er ágætis byrjun. Hjálpar mér líka við að sjá að sumarið er alls ekkert búið að vera viðburðarsnautt. Góðar stundir.