þriðjudagur, júní 12, 2007

Ein lítil setning hefur setið í mér síðan ég las hana í bók fyrir um tveimur vikum. Frídaginn minn í dag notaði ég meðal annars í að sitja í sólstól úti á palli og klára þessa bók, Híbýli vindanna. Þegar ég hafði lokað bókinni eftir að hafa lesið síðustu línurnar táraðist ég og sat svo í smástund og hugsaði mikið. Fletti aftur í bókinni og rifjaði upp ákveðin atriði, get ekki gleymt þessari litlu setningu. Leit yfir hverfið, öll trén og húsin, heyrði í bílum og flugvélum og börnum að leika sér og hugsaði um þessa bók, bókina um fólkið sem flutti til Kanada til að flýja landið sem við lofsömum í dag. Híbýli vindanna ætti að vera skyldulesning allra Íslendinga. Hún lætur mann hugsa um hvaðan maður er kominn og hvar maður væri án forfeðra okkar sem börðust fyrir lífi sínu á þessu volaða landi sem þá var.

Setningin mun seint líða mér úr minni. Öll fegurð deyr.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Fjárfestingar

Tvær fjárfestingar voru gerðar á seinasta sólarhring. Sú fyrsta var frekar smávægileg en hefur veitt mér og systur minni gleði engu að síður. Fyrsta sería OC. Á þessum dögum var Marissa sæt og hress og ekki orðin alki. Ryan er með hálsól. Gæti hugsanlega verið hálsmen en það er svo þröngt að það lítur út fyrir að vera hálsól. DVD spilarinn mun líklega þurfa að þola marga OC þættina á næstu vikum, en bara þegar það er vont veður.

Mikilvægari fjárfestingin var líklega sú sem gerð var fyrir um það bil tveimur tímum síðan. Yarisinn Dúllý er orðinn minn. Gamla Lancernum var fargað af manni með stórar númeraklippur. Dúllý er hvít og mér finnst hún sæt. Sjáumst á rúntinum!

laugardagur, júní 02, 2007

Reykingabann og bærinn

Reyklausi bærinn var prufukeyrður í gær. Það tók mig smá tíma að átta mig á að allt væri reyklaust en þvílíkur munur. Maður entist lengur og ég get vel notað fötin mín aftur í dag án vandræða. Ég klappa fyrir reykingabanninu. Klappklapp.
Svo var bærinn fullur af lukkulegum nýstúdentum og ég er semsagt að verða gömul kona. Reykingabannið varð samt til þess að ég drakk meira en venjulega, hugsanlega áttu tvær stúdentsveislur og góðir vínverðir líka sinn þátt í því. Heilsan var samkvæmt því í morgun og dag. Ég fékk mér hamborgara í morgunmat, drakk Alka Seltzer og setti svo ER í spilarann. Oj bara. Hvað um það. Ég er mikið marin á báðum fótum eftir pinnahæla, svo vel náðu þessar háhælabeljur að stíga á greyið stelpuna í lágbotna skónum að á öðrum fæti gæti hællinn enn verið að stíga á mig, svo vel sé ég farið eftir hann.

Ég mæli með fyrstu seríu ER, stórskemmtilegt alveg hreint. Þessir þættir eru miklu alvarlegri og raunsærri en nýju þættirnir. Þannig vil ég sko hafa allt, raunsætt og alvarlegt.