þriðjudagur, júní 12, 2007

Ein lítil setning hefur setið í mér síðan ég las hana í bók fyrir um tveimur vikum. Frídaginn minn í dag notaði ég meðal annars í að sitja í sólstól úti á palli og klára þessa bók, Híbýli vindanna. Þegar ég hafði lokað bókinni eftir að hafa lesið síðustu línurnar táraðist ég og sat svo í smástund og hugsaði mikið. Fletti aftur í bókinni og rifjaði upp ákveðin atriði, get ekki gleymt þessari litlu setningu. Leit yfir hverfið, öll trén og húsin, heyrði í bílum og flugvélum og börnum að leika sér og hugsaði um þessa bók, bókina um fólkið sem flutti til Kanada til að flýja landið sem við lofsömum í dag. Híbýli vindanna ætti að vera skyldulesning allra Íslendinga. Hún lætur mann hugsa um hvaðan maður er kominn og hvar maður væri án forfeðra okkar sem börðust fyrir lífi sínu á þessu volaða landi sem þá var.

Setningin mun seint líða mér úr minni. Öll fegurð deyr.