fimmtudagur, apríl 19, 2007

Draumfarir og sumarfrí

Ég vaknaði frekar pirruð í morgun. Mig dreymdi að ég hefði verið stödd á Hróarskeldu með Hrafnhildi. Við vorum eitthvað ekki alveg á sömu bylgjulengd í sambandi við þessa hátíð og hún vildi bara skoða bæina í kring og vera í einhverri menningarferð. Við vorum bara endalaust að keyra eitthvað og skoða kirkjur, hún voða áhugasöm á meðan ég æpti á hana að við værum búnar að missa af Björk! Og The Who! Æ, nei Hrafnhildur, Muse er að byrja!! Guð hvað ég var pirruð út í þig Hrafnhildur mín. Svo er ég líka nýbúin að uppgötva Spider-kapalinn í tölvunni og var að spila hann í mestalla nótt í draumi. Jeminn eini.

Þegar ég var búin að sætta mig að þetta hefði bara verið draumur og Hrafnhildur væri ekki alslæm eftir allt saman komst ég í hið besta skap, sólskin úti og fuglasöngur. Fór niður í eldhús og fékk mér morgunmat. Þar var móðir mín stödd að lesa blaðið. Rak hún augun í auglýsingu um gönguferð til Comovatns á Ítalíu í lok ágúst. Um hálftíma síðar vorum við búnar að bóka okkur í ferðina ásamt Kristínu móðursystur minni. Það er ekki lengra síðan en í gær að ég var að segja að ég væri hreinlega ekki með neitt planað fyrir sumarið, á algjörum bömmer. Svo kom Sumardagurinn fyrsti og þá greinilega mátti ég fara að hugsa um sumarið. Ætli draumurinn boði líka Hróarskelduferð? Hver veit...

Svei mér þá, sumarið byrjar vel að þessu sinni. Gleðilegt sumar!


Hver veit nema ég reki augun í þessa fögru sjón á göngu minni í sumar.