mánudagur, apríl 16, 2007

Sjálfsvorkunn

Ég er búin að monta mig af því í nokkurn tíma núna að ég skuli hreinlega aldrei verða veik. Búin að segja það í atvinnuviðtölum og allt, segist standa af mér allar pestir. Nú er hins vegar komið babb í bátinn. Manneskjan sem verður aldrei veik er greinilega ekki með svona svakalega sterkt ónæmiskerfi, það er bara svona lengi að bresta. Ég var stödd í heitum potti í sumarbústað á Stykkishólmi um helgina þegar ég fann nefið og hálsinn stíflast upp með tilheyrandi gleði. Fór að sofa og vonaði að þetta væri bara tilfallandi og ég gæti bara sofið þetta úr mér. Í gær vaknaði ég verri, fann ógeðið dælast inn í kinnholurnar á mér, hausinn stíflast allan upp, fékk verk í tennurnar og fann sjálfsvorkunnina streyma inn í líkamann. Kinnholuhausverkurinn er sá sami í dag, hitamælirinn segir að ég sé með 35,5°C hita, ég tek því sem ég sé að deyja, velti þó líka fyrir mér hvort hitamælirinn sé bilaður.

Ég held að líkaminn minn sé að refsa sjálfumgleðinni í mér þar sem ég hef horft á fólk í kringum mig hrynja niður í pestir á meðan ég hef ekkert fengið. Frábært hjá líkamanum að gera þetta einmitt þegar mig vantar hausinn minn í að lesa upp gamlar gamlar syndir. Foj.