miðvikudagur, janúar 31, 2007

Gullmolar

Íslensku lýsendurnir í handboltanum eru óborganlegir. Þau eru ófá gullkornin sem þeir láta falla í leik hverjum og ég get ekki annað en hlegið að þessum fullorðnu mönnum sem gleyma sér svo í að styðja strákana sína að þeir öskra úr sér röddina, telja sig vita allt betur en dómararnir og vilja fá víti þegar strákarnir missa boltann eða skora ekki.
Í leiknum gegn Dönum í gær... Ó þessi leikur! Ég var svo sem ekkert skárri en lýsendurnir en ég var heldur ekki í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Ég hræddi eina konu í vinnunni svo mikið með hoppum mínum og öskrum að hún varð ennþá paranojaðri en venjulega og hélt það væri komið að því að drepa hana! Ég er stórkostlegur starfsmaður.
Aftur að lýsendunum. Þeir áttu einhverja bestu setningu ferils síns í gær þegar Kasper Hvidt, sá myndarlegi fjandi, varði víti frá Ólafi Stefánssyni. Samkvæmt lýsendunum varði hann ekkert markið, Ólafur skaut bara beint í fótinn á honum. Fóturinn á Kasper var þá í axlarhæð á honum, sem er að sjálfsögðu einkar eðlileg staða til að geyma fótinn á sér, og Ólafur skaut bara beint í hann. Markmaðurinn var semsagt bara fyrir Óla, hann varði samt ekkert. Þeir eru óborganlegir þessir lýsendur.

Hann verður seint talinn ljótur, allavega af mér, en hann var samt fyrir boltanum!