miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Lay Low

Var að koma heim af einum af betri tónleikum minnis míns, Lay Low í Fríkirkjunni. Þetta var allt svo einlægt, notalegt og töff eitthvað.
Við vorum komnar vel snemma, heilum 40 mínútum fyrir tónleika og var þá sagt að húsið opnaði eftir 40 mínútur, tónleikarnir sjálfir byrjuðu ekki fyrr en rúmlega klukkutíma seinna. Nú jæja, klöngruðumst yfir andakúk og ég sparkaði í frosinn hundalort á leiðinni á Kaffi París. Gott vatnsglas maður, fullt af klökum. Fékk líka að gæða mér á nachosi með madness miklum osti. Amm.
Þegar við mættum aftur niður í Fríkirkju, 40 mínútum síðar var komin röð hálfa leið í kringum kirkjuna. Frábært, við sem höfðum mætt fyrstar af öllum. En þeir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu verða fyrstir og átti þetta svo sannarlega við um okkur. Þegar við nefnilega komumst loksins upp á efri hæðina og ætluðum að fara að tylla okkur á 3. röð=sjá ekki neitt, sáum við að orgelbekkurinn var laus. Þvílík hamingja! Fengum okkur sæti á orgelbekknum og allt fylltist í kringum okkur í öll sætin sem sáu ekki neitt. Haha, þetta var æði. Mættum með þeim síðustu inn og fengum klárlega bestu sætin í húsinu! Fengum að sjálfsögðu að mæta öfundaraugum tónleikagesta. Beljurnar á orgelbekknum maður.
Lay Low spilaði flest ef ekki öll lögin af disknum sínum og svo tvö eldri lög. Eitt cover-lag tók hún, You are my sunshine, og fékk alla kirkjuna til að syngja með sér.
Eftir þessa stórgóðu tónleika keyptum við Ásdís geisladiska og fengum þá áritaða hjá stúlkunni. Ekki amalegt þetta. Ég er alveg ótrúlega ánægð með að hafa keypt mér miða þótt það sé próf á morgun. Það er nefnilega alltaf svo gaman að uppgötva nýja listamenn sem maður finnur á sér að eigi eftir að fylgja manni lengi.