laugardagur, mars 12, 2005

Ruslakall?

Á fimmtudaginn var ég að ganga upp Laugaveginn, eins og ég geri svo oft, og tók þá eftir konu sem gekk á móti mér. Ég hafði oft séð hana áður og líklegast hafa flestir séð hana. Ég ætla samt að sleppa því að lýsa henni hér. Hún er ein af þeim sem kíkja ofan í ruslatunnurnar og taka þaðan verðmæti í formi flaskna.. Eða svo hélt ég. Hún tók upp kókflösku, sem ég hélt að hún ætlaði að setja í pokann sinn, opnaði hana, svo ég hélt að hún ætlaði að hella úr henni ógeðinu sem allir sleppa því að drekka, og DRAKK það. Ég veit það er ljótt að stara en ég komst ekki hjá því. Svo leit ég á pokann sem hún hélt á og sá að í honum var ekkert nema rusl. Þegar ég leit aftur á hana var hún að henda kókflöskunni aftur í ruslið og taka þaðan rusl í staðinn.
Þá fór ég aðeins að velta fyrir mér svona söfnunaráráttu. Flestir safnarar, til dæmis þeir sem safna servíettum og styttum, myndu ekki vilja fá algjörlega hvað sem er í safnið sitt, eins og skítuga servíettu eða brotna styttu, en ætli ruslasafnarar vilji alls ekki safna einhverju ákveðnu rusli?? Ætli það sé einhver sem harðneitar að safna Mars-bréfum og kúgast þegar hann sér svoleiðis en aftur á móti þegar hann sér skítuga bleyju þá sé það allt í lagi? Þetta þykir mér forvitnilegt að vita.