fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Lata stelpan

Eftir jólafríið tók ég þá ákvörðun að leggja víóluspil á hilluna í eina önn. Þá ákvörðun tók ég því ég hafði æft mig sáralítið alla haustönnina og ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá er það að standa mig illa í einhverju sem ég gæti verið góð í. Það var ömurlegt að standa í klukkutíma að spila sama staðinn aftur og aftur og aftur. Ég ákvað því að taka mér pásu en ætlaði auðvitað að halda mér vel við svo ég myndi ekki ryðga of mikið. En einhvern veginn kom ég sjálfri mér þó lítið á óvart þegar ég fattaði í dag að ég hafði ekki tekið upp þessa blessuðu víólu í rúman mánuð. Æææ..

Ég giska á að um það bil einu sinni í viku fái ég mikinn pirring í allan líkamann yfir því að vera ekki skipulagðari. Þá langar mig svo að herbergið mitt sé hreint og að ég nenni að taka upp stærðfræðibækurnar. En viti menn, eftir svona tíu mínútur af pirringi þá gleymi ég því alveg og fer að horfa á sjónvarpið í staðinn fyrir að læra, og það í skítugu herbergi. Núna ætti ég námslega séð að sitja sveitt yfir rúmmálsreikningi snúða (mikið er ég samt fegin að ég er ekki sveitt að hugsa um snúða) en þá er ég búin að eyða öllu kvöldinu í að breyta um útlit á blogginu og horfa á íslensku tónlistarverðlaunin. Ég var samt mjög ánægð með öll úrslit sem ég sá þar, Mugison er æði.. Enda er hann frá Ísafirði.

Ég ætla að fara að sofa núna, Bragi Halldórsson bíður mín klukkan átta:tíu í fyrramálið með fyrirlestur um módernisma. Í dag sat ég og dottaði og hrökk við til skiptis, það var klukkan eitt. Ég get ekki beðið eftir að vakna..