mánudagur, nóvember 29, 2004

Hmmm....

Málfrelsi er skilgreint í íslenskri orðabók: ,,Frelsi til að láta skoðanir sínar í ljós í ræðu og riti". Jú, jú það ríkir víst málfrelsi á Íslandi. Ég er líka mjög sátt við það, það er hryllilegt ástand í sumum löndum heimsins að fólk geti ekki komið skoðunum sínum á framfæri. Kína kommúnistans til dæmis er gott dæmi, og er það að mörgu leyti enn þann dag í dag þótt það sé ekki titlað sem kommúnistaríki. Það að geta ekki sagt skoðun sína á hlutum er fötlun, það er eitthvað sem enginn ætti að þurfa að þurfa að búa við. En eftir að hafa lesið umræðuna um MR-lagið á Framtíðarvefnum fór ég að pæla. Lagið er ógeðslegt og held ég að flestir geti fullyrt það, meir að segja höfundar. En hér er ég ekki að fara að tala um það. Ástæðan fyrir því að ég kem inn á það er sú að mér fannst svo skrýtið hvernig viðbrögð fólks voru við skoðunum. Þá er ég sérstaklega að tala um skoðanir þeirra sem voru á móti laginu. Oft þegar sagt var eitthvað slæmt um lagið eða einhver sagði að lagið hefði verið ógeðslegt, ekkert fyndið, siðlaust, stuðla að ranghugmyndum eða hvað annað sem fólk nú sagði, þá voru þau kölluð einhverjum nöfnum. Það sem ég tók helst eftir var tepra og femínisti. Þetta finnst mér voðalegt. Hvert er okkar svokallaða málfrelsi að fara ef fólki finnst allt í lagi að flagga textanum í þessu lagi en þegar skoðun er látin í ljós sem er á rökum reist og er málefnaleg þá fær hún slæm viðbrögð frá lesendum? Mér er spurn.
Femínismi er einungis barátta kvenna fyrir sömu réttindum og karlar hafa. Mér finnst mjög skrýtið að stelpa skuli kalla aðra stelpu femínista í neikvæðum skilningi, hún ætti aðeins að endurskoða sitt mál fyrst. Þegar femínismi, sem og hver annar -ismi, fer út í öfgar er illt í efni eins og í rauninni með hvern einasta hlut í heiminum en það sem kom fram í skoðunum fólks á umræðuvefnum voru engar öfgar. Það var einungis verið að benda á það sem fólk sá rangt við textann, yfirleitt með fullri virðingu fyrir skoðunum annarra. Þetta var semsagt skoðun.
Ég hef sjálf verið kölluð femínisti, rauðsokka, strákahatari og kjaftfor. Mér hefur alltaf þótt frekar leiðinlegt að heyra svona ábendingar því ég veit að þetta er oftast ekki meint í góðum skilningi. Þetta er ekki heldur á rökum reist. Ég er enginn öfgafemínisti né rauðsokka, ég hata ekki stráka sem er kannski augljóst þar sem ég á marga strákavini og meir að segja kærasta. Mér finnst reyndar ágætt að heyra að ég sé kjaftfor, sérstaklega ef það er frá einhverjum sem ég kann ekki vel við. Í dag áttaði ég mig samt aðeins betur á þessu. Þessar ábendingar koma oftast frá strákum. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að mörgum finnist stelpa sem er ekki hrædd við að segja það sem henni finnst er einfaldlega titluð femínisti. Stelpa sem er ekki hrædd við að segja það sem henni finnst við stráka er strákahatari og stelpa sem er ekki hrædd við að segja það sem henni finnst við eldra fólk og ,,æðra" er í voða rebel og er kjaftfor. Ég er ekki að segja að fólk sem þekki mig vel segi þetta við mig en fyrir svona ári eða tveimur var ekki óalgengt að fólk segði mér þetta í partýum og á böllum. Oftast voru þetta strákar og langoftast strákar sem ég þekkti ekki mikið en hafði samt skipst á skoðunum við eða staðið í hóp og verið að tala um eitthvað málefni. Mér fannst þetta ótrúleg en jafnframt nokkuð skemmtileg uppgötvun. Ég var bara nokkuð ánægð með sjálfa mig.
Það er skrýtið að uppgötva eitthvað, sérstaklega um sjálfan sig, en þessi litla uppgötvun mín hvetur mig bara eindregið til að halda áfram að koma mínum skoðunum á framfæri en dregur ekki úr mér.