mánudagur, mars 21, 2005

Scheisseman

Ég fór í tvö tvítugsafmæli á laugardaginn. Það var gaman. Hún Una sem eitt sinn var svo lítil og saklaus og lék sér í playmo og hann Halli sem... er með mér í kór eiga afmæli með nokkurra daga millibili og hittu afmælin bæði á sama kvöldið.
Hjá Unu var boðið upp á dýrindis kjúklingarétt, brjálað salat og hrísgrjón. Namminamm. Eftir að hafa verið þar í smátíma brunaði ég svo í Hafnarfjörðinn þar sem gleðin hélt áfram hjá Halla.
Kvöldið endaði svo á því að ég fór heim, leið illa og fór að sofa. Þegar ég vaknaði í morgun gerði ég þá óþægilegu uppgötvun að ég hafði drukkið átta bjóra og tvö rauðvínsglös auk þess að smakka á bollu og hvítvíni. Þá var ég ekki lengur hissa á að mér skyldi hafa liðið illa.

En að öðru. Eftir að hafa sofið lítið sem ekkert í þrjár vikur, varla komið heim til mín og verið að deyja úr stressi er dagurinn loksins runninn upp. Við erum laus við Skólablaðið. Ég hélt að þessi dagur myndi aldrei koma. Ég fattaði hvað ástandið var orðið óeðlilegt hjá mér þegar ég fékk út úr þremur prófum sama daginn og fékk 2,4; 4 og 6,5. Þá var ég ýkt ánægð með 6,5 því ég hafði byrjað að læra klukkan ellefu kvöldið áður. Ussussuss...

Ég var að horfa á þáttinn Allt í drasli áðan og hef bara aldrei séð annað eins. Íbúð konunnar var gjörsamlega ógeðsleg. Allt myglað í eldhúsinu, blöð, föt, kassar, pottar, leirtau og allur fjandinn lá út um alla íbúð. Konan þurfti að klofa yfir draslið til að geta gengið um. Þegar Heiðar snyrtir spurði hana hvers vegna ástandið væri svona slæmt sagðist hún bara ekki hafa haft tíma til að taka til. Það hafði ekki verið gerð tilraun til tiltektar síðan í ágúst á síðasta ári. Svo fór hún að útskýra af hverju hún hefði ekki tíma: Hún var búin að vera að vinna svo rosalega mikið, fannst ástandið óeðlilegt en gat alltaf farið til nágrannans í mat og svo náttúrulega eignaðist hún barn fyrir jólin... Ég held ég hafi án gríns misst andlitið. Má þetta? Má hún ala upp barn í svona ógeði, barn sem er svo lítið að það skríður á gólfinu og borðar það sem það finnur? Ég er mjög hissa á að ekkert skuli hafa verið gert fyrr.