miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Eins mikið...

...og ég elska vinnuna mína, þá hata ég hana ennþá meira.

Útborguð laun: 51.111 kr.

Í dag fékk ég ekki kaffitíma því ég var frammi á gangi í 40 mínútur með grátandi krakka sem neitaði að sitja í sætinu sínu. Ég var lamin og klipin, fékk hor á mig og massa af slefi og þurfti að róa hann með því að tala um köngulær, uppáhalds dýrin hans.

Strákurinn er að sjálfsögðu besta skinn og mér þykir rosa vænt um hann en þetta var ekkert auðvelt. Launin mín eru í hróplegu ósamræmi við vinnuna. Ég þoli ekki Reykjavíkurborg akkúratt núna.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Byltingin étur börnin sín

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Sögustund í vinnunni

Í gær var ég inni með yngstu börnin fyrir hádegi. Öll hin börnin voru úti í rokinu en yngstu börnin áttu án gríns á hættu að fjúka, það er sko stundum hvasst á Kjalarnesi.
Ég settist niður með þeim, eða réttara sagt settist ég niður og þau klifruðu einhvernveginn upp á mig, og byrjaði að lesa með þeim bók. Þegar ég var búin að ,,lesa" nokkrar blaðsíður fór ég að spá í hvað ég væri eiginlega að segja við þau um þessa bók. Þetta hljómaði einhvernveginn svona:

Ég: ,,Vá, er þetta hoho?? Íhíhíhíhí.. (hestahljóð..)"
Þau: ,,Hehe, íhíhíhíhí..."
Ég: ,,Og vá, sjáiði bíbí líka?? Og brabra með honum!"
Þau: ,,Bíbí, brabra, bíbí... Hahaha!"
Ég: ,,Og hvern sjá þau þarna?? Er þetta mumu?"
Þau: ,,Muuuuuuuuuuu"
Ég: ,,Og þá er bókin búin."

Og þeim fannst þetta svo skemmtileg saga. Mér líka!

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Ég fór í gönguferð áðan með mömmu og Bryndísi. Við löbbuðum í kringum hverfið og niður í Álafosskvos og þar gengum við framhjá hóp af konum. Ég og Bryndís litum báðar í einu á konurnar og strax af þeim, eins og maður gerir, og sprungum svo báðar úr hlátri. Þetta voru gömlu grunnskólakennararnir mínir. Þarna var Kolbrún sem kenndi mér í 6 ár, Guðrún sem kenndi mér íslensku, Hildur sem kenndi mér líka íslensku og Lára sem kenndi líffræði. Það kom mér á óvart en Guðrún þekkti mig strax, bara á því að ég leit á hana. Þær heilsuðu mér og svo kom svaka þögn. Hvað á maður að segja? Kannski: Hvað segiði gott? Uuuu... Eða: Hvernig er í vinnunni? Alveg eins... Þetta var plebbalegt. En loksins gátu þær spurt mig að einhverju, sem bjargaði þessu alveg.

Þetta var plebbasaga. Þriðjudagar eru svo leiðinlegir.

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Oó...

Hver segir að sunnudagar séu leiðinlegir og tíðindalitlir? Venjulega geri ég það en ekki í dag. Því í dag ákvað ég næstum því að skipta um lýðháskóla. Ég er búin að sækja um og komast inn í Ry höjskole sem ég held að sé á milli Árósa og Himnafjallsins ógurlega.
Ástæðurnar fyrir þessum breytingum eru þónokkrar;

Í fyrsta lagi er þessi skóli þónokkuð mikið ódýrari, það munar alveg 70000 kr og þó dvel ég í lengri tíma, það er 23 vikur í stað 20.
Í öðru lagi virkar þessi skóli einhvern veginn betur á mig. Hann virðist vera vinalegri og danskari á allan hátt.
Í þriðja lagi finnst mér kostur að vera ekki of nálægt Kaupmannahöfn því mér var sagt að Kaupmannahafnarbúar væru gjarnir á að fara í skóla mjög nálægt Köben og væru því kannski ekki í skólanum um helgar sem er stór galli fyrir mig. Auk þess langar mig að kynnast Danmörku utan Kaupmannahafnar.
Í fjórða lagi er meðalaldur nemenda hærri, það er 22 ára, sem hentar mér betur því ég verð jú að verða 21 þegar á dvöl minni stendur. Ég hef líka alltaf fúnkerað betur með aðeins eldra fólki.
Í fimmta lagi eru fögin aðeins andlegri í þessum skóla og hver hefur ekki gott af því??
Í sjötta lagi er þessi skóli stórkostlega fallegur og umhverfið alveg magnað.

Svona mætti náttúrulega lengi telja. Ég er spennt!

Fyrir áhugasama!

laugardagur, ágúst 20, 2005

Kabarett

Hér kemur leikdómur.

Eftir að hafa séð margar margar leiksýningar hefur fólk í dag efni á því að gera miklar kröfur til uppfærslna og leikara. Ég bjóst við mjög miklu þegar ég lagði af stað í Íslensku óperuna fyrr í kvöld á leiðinni á Kabarett. Mér finnst alltaf jafn gaman að koma í Óperuna, það er svo mikill sjarmi yfir húsinu.

Sýningin byrjaði mjög skemmtilega á því að dansararnir týndust inn einn af öðrum og byrjuðu að glenna sig og daðra við áhorfendur. Þetta var áður en ljósin slokknuðu. Skemmtileg pæling að láta sýninguna í rauninni bara byrja á smá tíma í staðinn fyrir allt í einu. Ég bjóst því við miklum frumleika og krafti út sýninguna þar sem þetta byrjaði svona vel.

Því miður fann ég þó fyrir því um leið og sýningin í raun byrjaði að það vantaði eitthvað upp á. Vissulega var þetta skemmtileg saga, flottir dansarar, margir góðir leikarar, en það vantaði mikið upp á kraftinn. Eftir smá tíma fór þetta þó batnandi og varð mun betra. Ætli greyin hafi ekki bara þurft að komast aðeins í gírinn..

Söngurinn var oftast nær mjög góður. Ég hef mikið álit á Þórunni Lárusdóttur og brást hún ekki vonum mínum í kvöld. Söngur hennar og leikur var allur hinn besti. Ég hefði þó viljað sjá einhvernveginn meira af henni. Mér fannst of lítið gert úr persónu hennar í leikritinu.

Mestum óþarfa tíma fannst mér vera eytt í sögu gamla fólksins. Vissulega mikilvægur hluti í leikritinu en það hefði getað verið svo miklu styttra og hnitmiðaðra. Söngurinn þeirra var sá lélegasti. Leikurinn var fínn, söngurinn ekki of góður.

Bestur leikara var tvímælalaust Magnús Jónsson sem lék Kabarettstjórann. Mér fannst hann og Þórunn algjörlega halda sýningunni uppi.

Felix Bergsson er ennþá bara Disney persóna fyrir mér. Og jú, Stundin okkar maður. Mér tekst ekki ennþá að taka hann alvarlega. Hann var reyndar fínn í þessari sýningu, betri en ég bjóst við.

Mér fannst þetta mjög skemmtileg sýning en það er auðvitað svo auðvelt að vera bara áhorfandi. Ef ég hefði leikstýrt þessu verki þá hefði ég gert margt öðruvísi.

Semsagt; ég varð ekki beint fyrir vonbrigðum en ég bjóst þó við meiru. Ég skemmti mér alveg konunglega og hefði ekki viljað missa af þessu, þó ég hafi búist við meiru...

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Nu skal vi planlægge et år

Jæja, þá eru plön næsta árs komin nokkurn veginn á hreint. Mikið er ég fegin því.
Ég er nú búin að skrá mig í Krogerup höjskole sem er lýðháskóli rétt norðan við Kaupmannahöfn. Þar byrja ég 8. janúar og dvelst í 20 vikur. Þegar því tímabili lýkur er boðið upp á ferð til Kína í 19 daga. Ef fjárhagurinn leyfir er aldrei að vita hvort ég muni standa á Torgi hins himneska friðar eftir tæpt ár.
Fyrir þennan vonandi skemmtilega tíma mun ég þó eyða um það bil mánuði í Suður Ameríku þar sem stefnan er tekin á Perú, Chile, Argentínu og Bólivíu. Hugsanlega verður lagt af stað 14. nóvember, ennþá á þó eftir að panta flug en eitt er þó víst; millilent verður í New York bæði á leiðinni út og heim og verða 2-3 dagar teknir í að skoða New York í heimleiðinni. Það verður ekki leiðinlegt að upplifa jólastemmara í þessari líka borg.
Jólunum verður aftur á móti eytt í faðmi fjölskyldunnar eins og venjulega. Það verður æri æðislegt.
Mikið er ég sátt við þessi plön. Nú er bara að sjá hvort þetta standist allt saman.

laugardagur, ágúst 13, 2005

Stuðpinni

Ástandið er nú orðið frekar súrt þegar ég sit ein heima að prjóna á föstudagskvöldi. Hvert fór æskan með allt sitt táp og fjör?! Hvert fóru þeir dagar þegar það voru partý allar helgar?! Hvað kostar hamingjan, er dýrt að elska þig?!

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Stöff sem er gott


Ég las gagnrýni í Fréttablaðinu um daginn. Gagnrýnd var plata Roisin nokkurrar Murphy, Ruby blue. Leist mér ekki illa á umfjöllunina og ákvað að hala niður nokkrum lögum til að heyra í telpunni. Og fjandakornið hvað þetta er flott! Tónlistin hennar er einhverskonar skipulagður hrærigrautur af tónlistarstefnum; jazz, popp, rokk og raf. Takturinn er svo mikill að allar mínar tær vilja dansa. Oh, þetta er geðveikt gott stöff.