mánudagur, desember 18, 2006

Er þetta kúl?

Mamma mín uppgötvaði nýlega krossgátuna sem birtist í Mogganum á sunnudögum. Þessi krossgáta er ekki eins og flestar krossgátur heldur er hvert orð eins og lítil gáta eða þraut sem þarf að leysa. Oftar en ekki er þetta orðarugl og skemmtilegheit. Ég hef sjálf ekki ennþá getað fest mig í þessari krossgátu en mamma situr jafnan löngum stundum með krossgátuna við hönd, ýkt stolt þegar hún getur eitthvað. Þegar ekkert gengur hringir hún í vinkonu sína og þær spjalla saman um gátuna, enda þjáningarsystur í klóm krossgátunnar. Um daginn gengu þær svo langt að fara á krossgátukvöld á Næstabar þar sem var keppni á milli borða um hver gæti klára gátu fyrstur og svoleiðis.
Þetta er allt saman gott og blessað. Nema hvað, mamma er farin að spyrja mig álits oft þegar ég sit inni í stofu og horfi á sjónvarpið og hún með krossgátuna. Ég er nú eiginlega svolítið montin að segjast hafa hjálpað henni með nokkur orð. Ehemm. Um daginn var gáta eitthvað á þessa leið: Menntamaður lyktar á bæ á Vestfjörðum. Eftir smá pælingar datt mér í hug Drangar og viti menn, það var rétt. Drangar=Dr.Angar. Og ég var ógeðslega stolt.
Svo ég skemmi alveg töffaramannorð mitt og breyti mér í krossgátumömmustelpu þá gat ég ekki sofnað í gær fyrir pælingum um þessa fjandans krossgátu. Mamma hafði spurt mig fyrr um kvöldið hvað "plantan í hári okkar" gæti verið. Ég bylti mér í rúminu mínu hugsandi um þessa helvítis plöntu þegar ég fattaði að auðvitað væri þetta flétta! Mér varð svo mikið um að ég vakti mömmu og sagði henni þetta. Hún varð afar þakklát, sem gerist ekki oft þegar fólk er vakið af værum blundi, tuldraði: "Auðvitað, flétta... auðvitað..." og fór svo aftur að sofa.
Skemmst frá því að segja að eftir þessa lausn lífsgátunnar gat ég líka sofnað. Mamma mín er búin að flækja mig í net sitt... Og ég er með mjög blendnar tilfinningar gagnvart því.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Á hverjum morgni verð ég svo reið þegar ég les myndasöguna Úthverfið í Mogganum. Þið vitið, næstneðsta sagan, þessi á undan Kóngulóarmanninum... Þetta er versta myndasaga í heimi! Þessi einstaklega ómerkilegu hjón sem myndasagan fjallar um eru búin að eiga í vandræðum með garðúðara nágrannans í að minnsta kosti tvær vikur og úðarinn er ennþá að sprauta inn í garðinn þeirra og á borðið. Ókei, það er sitthvað í stöðunni fyrir hjónin að gera. Þau eru búin að tala við nágrannann og biðja hann um að færa úðarann því þau geta ekki borðað morgunmat við borðið. Nágranninn brást hinn versti við og sagðist mega úða sínu vatni hvert sem hann vildi. Af hverju ertu að eyða vatni í að úða garðinn þinn ef þú vilt bara úða vatni á borðið hjá nágranna þínum, fíflið þitt??
Annað afar rökrétt væri bara hreinlega að færa borðið og njóta góðs af ókeypis vatninu sem nágranninn þá úðar inn í garðinn þeirra en ekki á borðið.

Eitt í stöðunni fyrir mig væri að hætta að lesa þessa skelfilegu myndasögu. Mig langar bara svo að vita hvort þau fruntist til að færa fokking borðið.

mánudagur, desember 11, 2006

Ég fer ekki í næsta próf fyrr en á laugardaginn og er þess vegna búin að vera óæskilega löt í dag og í gær. Á morgun tekur betra við, já. Ég er þó ekki búin að vera að gera allskostar ómerkilega hluti.. Hálfur gærdagurinn fór í að skoða þetta. Æ, þessi ferðahugur.. mig langar svo að fara frá Fróni. Þegar ég og Sigrún vorum á Kúbu hittum við bandarískan mann. Maðurinn sá bjó í Klettafjöllunum, einhvers staðar lengst uppi í fjöllum, nálægt litlu þorpi. Þarna bjó hann á sumrin og vann og vann allan tímann. Svo um leið og vetrarveðrið fór að þrengja að og dagarnir að styttast þá hélt hann af stað í nýtt ævintýri. Þegar við hittum hann var hann semsagt nokkuð nýfarinn af stað aftur, búinn að vera að ferðast í karabíska hafinu og um alla Jamaíku. Þori ekki að fullyrða neitt en mér skildist hann vera búinn að fara ansi víða, átti í rauninni ekkert svakalega mikið eftir af heiminum, ekki eins og ég með mín 94%, eins og ég reiknaði út á netinu um daginn. Allamalla hvað mig langar! Eða er þetta kannski normalt svona í miðjum prófum? Hugsanlega, hugsanlega. Dæs.

miðvikudagur, desember 06, 2006

2 örsögur um kalt dót

Ég á svona geldót sem maður setur í frystinn og svo á augun þegar maður er með höfuðverk. Núna er ég með höfuðverk og fór að leita að þessu geldóti, ætlaði að stinga því inn í frystinn í svona 20 mínútur til hálftíma, eins og stendur að eigi að gera til að gelið frjósi ekki alveg í gegn. Ég fann þetta að lokum í frystinum þar sem þetta er búið að liggja í, jah, að minnsta kosti ár. Úps. Nota bene, það er svo sannarlega frosið í gegn.

Í dag fékk ég tannkul af banana. Sjitt hvað hann var kaldur. Ég fæ annars aldrei tannkul...