föstudagur, september 30, 2005

Myndin rústar bókinni...

Það er ekki oft sem mynd sem gerð er eftir bók er betri en bókin, en í tilfelli The Notebook er myndin miklu miklu miklu betri, að mínu mati.
Rithöfundurinn má þakka sínum sæla fyrir góðan handritshöfund því ef hans hefði ekki notið við þá hefði myndin floppað algjörlega. Mér fannst bókin eiginlega bara hrikalega léleg, myndin finnst mér hinsvegar mega sæt og ofsa rómó.

Bókin er væmnisþvæla, sem kemur mér reyndar ekkert mikið á óvart þar sem þetta er sami rithöfundur og skrifaði Message in a bottle, sem ég hef þó ekki séð en hef heyrt að sé væmnisþvæla af verstu gerð. The Notebook, bókin, er skrifuð allt öðruvísi en myndin. Það er ekkert verið að breyta pent eins og í flestum myndum eftir bókum, heldur erum við að tala um að handritshöfundurinn styðst í meginatriðum við bókina en ekkert meira en það. Sem betur fer. Þetta er allt önnur saga, allt aðrar persónur sem einungis heita það sama, allt aðrar áherslur. Bókin fór í taugarnar á mér frá fyrstu blaðsíðu, þar sem allt líf persónanna virðist snúast eingöngu um tilfinningar og þá meina ég tilfinningar sem enginn nema heimsins tilfinningaríkasti maður myndi finna fyrir. Lýsingarnar á ástinni fóru í mig og þegar þau sofa saman í annað skipti, 14 árum eftir að þau hittast fyrst, er það að sjálfsögðu með tilheyrandi raðfullnægingum og látum. Öllu lýst að sjálfsögðu. Ég fékk kjánahroll við að lesa þetta og fannst ég vera að lesa ástarsögu í rauðu seríunni. Ég lýsi frati á bókina.

Myndin er ennþá æðisleg!

En hey, það er bara ég.

sunnudagur, september 25, 2005

Skordýrastund

Ég hef heyrt því haldið fram oft og mörgum sinnum að skordýr séu svo heillandi, að enginn annar dýraflokkur sé fjölbreyttari og tegundaauðgin sé óþrjótandi og allt það en... Akkúratt núna finnst mér skordýr bara ekki par heillandi.

Ég er með tvær snargeðveikar húsflugur inni í herberginu mínu. Það væri svo auðvelt fyrir þær að hugsa: ,,Bíddu.. Ég er inni í herbergi, hvernig komst ég eiginlega hingað? Ég hlýt að hafa flogið hingað inn því þannig kemst ég jú á milli staða, með því að fljúga á vængjunum mínum. Hmm... Hvar komst ég inn? Ef ég finn hvar ég komst inn, þá hlýt ég að komast út sömu leið! Og þá er ég frjáls á ný." En það gera þær ekki. Það gera þær sko ekki. Ég þarf að bíða eftir að þær deyi úr ofþreytu af að fljúga á ljósaperuna aftur og aftur og aftur. Kannski brenna þær sig á endanum.

Í byrjun sumars spann lítil meinlaus köngurló vef í gluggann minn, úti sem betur fer. Eftir svolítinn tíma var köngurlóin litla orðin stór og feit, vefurinn hennar náði yfir hálfan gluggann. Þegar sólin skein á vefinn sá ég hvað hann var mikið listaverk. Fallegu spunavörtur... Kraftaverkatæki. Mér var hætt að lítast á blikuna þegar, í lok sumars, köngurlóin var orðin skuggalega stór og það var komin önnur köngurló í lítinn vef við hliðina á henni. Af einhverri ástæðu lét ég þær þó báðar vera. Af hverju að laga það sem er ekki bilað? Einn daginn var orðið of kalt fyrir þær svo þær hurfu. Ég var ekki alveg viss um hvert þær höfðu farið svo ég fór út á svalir og leitaði að þeim. Litlu vinkonur mínar máttu nú ekki bara hverfa án þess að kveðja. Ég sá þær hvergi, þar til loksins ég fann gráan knúbb (er það orð?) í horninu á glugganum. Þar var hlussan. Sú litla er enn ófundin. Þetta köngurlóarástand mitt er nú orðið þannig að ég þori ekki að sofa með opinn gluggann, ég er hrædd um að knúbburinn finni ylinn koma út og vilji kíkja í heimsókn. Bjakk.

Við bjuggum til geitungagildru í lok ágúst þegar geitungar þrír öngruðu okkur við morgunverð úti á palli. Geitungagildran var gerð úr pepsi max flösku með vatni í botninum og sykri og sultu ofan í vatninu. Ég var löngu búin að gleyma þessari gildru þangað til ég sá hana í dag. Sultan er orðin hvít, sykurinn að sjálfsögðu löngu farinn og ekki einn einasti geitungur ofan í. Bara húsflugur og aftur húsflugur. Ég er reyndar ekkert mikið sorrí yfir því, húsflugur eru jú með hættulegustu dýrum veraldar.

Skordýrastund með Önnu. Alltaf sígild, alltaf ljúf.

miðvikudagur, september 21, 2005

Klukkklukkklukk

Ég er hlýðin stúlka sem les bloggið hennar Dagbjartar við og við. Ég rak augun í það að hún hafði klukkað alla á linkalistanum sínum. Róleg á því Dagbjört.. Þú veist.. En þar sem ég er svona hlýðin, þá bara læt ég klukkast.

1. Ég fer alltaf að gráta þegar það fæðist barn í bíómyndum. Veit ekki af hverju, bara veit það ekki.

2. Ég hef lært á fiðlu, gítar, klarinett, blokkflautu og víólu... Og núna langar mig að læra á selló. Ég er hægt og hægt að reyna að finna mér hljóðfærið mitt en þetta er nú orðið svolítið þreytt.

3. Ég get hrætt sjálfa mig svo mikið að stundum stekk ég af gólfinu og upp í rúm, því það gæti verið einhver/eitthvað undir því.

4. Þegar ég er að skrifa með skrúfblýanti og blýið klárast ofan í járnið fremst og ég sarga járninu óvart ofan í blaðið, fæ ég hroll sem endist allan daginn. Ég fæ meir að segja ógeðshroll við að hugsa um það.

5. Þegar ég les Harry Potter bækurnar langar mig stundum að vera nemandi í Hogwarts. Jebb...


Þetta var mitt klukk. Nú ætla ég að klukka Unu, Ragnheiði, Önund, Kára og Elínu Lóu. Ég er svo hlýðin að ég klukka fimm manns fyrir fimm staðreyndir.

þriðjudagur, september 13, 2005

Ferðaplan 2

Mér finnst mjög fyndið að síðan ég bloggaði um ferðaplön vetrarins fyrir ekki svo löngu síðan þá hafa þau breyst algjörlega. Þau eru ennþá á dagskrá en áfangastaðirnir eru aðrir. Þetta byrjaði þannig að ég ákvað að breyta um lýðháskóla eins og dyggum lesendum þessa bloggs er kannski kunnugt um.
Nokkrum dögum eftir það var ég að lesa Lonely planet bókina mína um S-Ameríku og komst þá að því að á þeim tíma sem við Sigrún ætluðum að vera þar er regntími. Við hugsuðum þetta, lásum aðeins meira og hugsuðum ennþá meira og komumst svo að þeirri niðurstöðu að við nenntum því eiginlega ekki. Regntími í S-Ameríku þýðir nefnilega, samkvæmt bókinni, að vegir liðist í sundur og að samgöngur liggi mikið niðri. Það fannst okkur ekki sniðugt því við ætluðum að vera svo stutt.
Núna erum við búnar að panta flug til New York 13. nóvember og þaðan fljúgum við til Montego Bay á Jamaica. Planið er að fara svo frá Jamaica til Kúbu en hvernig það verður er ennþá erfitt að segja því Kúba er... erfið. Það er nær ómögulegt að komast til Kúbu frá Bandaríkjunum, og þar af leiðandi frá Jamaica þar sem það tilheyrir N-Ameríku. Það virðist þó vera hægt að komast til Kúbu með mjög stuttum fyrirvara en það hefur hingað til engan árangur borið að finna flug með þessum fyrirvara. Bátar semsagt sigla ekki til Kúbu... Þetta er eins og annar heimur, sérstaklega þar sem það eru bara 150 km á milli Jamaica og Kúbu.
Nú, ef við komumst svo ekki til Kúbu, þá bara förum við til Bahamas í staðinn. Nú er stærsta málið að gera sig bikíníhæfan, goddamn.
Á leiðinni heim ætlum við svo að vera 5 nætur í New York. Þar ætlum við að fara á skauta í Rockefeller Center og annað sem alvöru túrista gera. Svo komum við heim 19. desember.

27. október er ég svo að fara með Ómari, foreldrum hans og Eykt ehf. til Búdapest. Og ég hlakka mikið til.

Nú er þetta semsagt komið á hreint, flugið komið og þessháttar smotterí, ekki verður aftur snúið. Nú get ég farið að snúa mér að merkilegri hlutum; að hlakka til.

laugardagur, september 10, 2005

Ég bara verð...

... að segja frá stelpu sem ég heyrði af um daginn.
Þannig var það að 6.bekkingur nokkur, ég reyndar veit ekki hver það var, var á gangi í MR nokkrum dögum fyrir busun og heyrði á tal nokkurra 3. bekkinga. Þeir voru að tala um Gaudeamus og voru að hafa áhyggjur af því að geta ekki lært lagið og allt þetta venjulega sem busar tala um rétt fyrir busun. En þá segir ein stelpan: ,,Sko þetta lag... Það er sko stolið.... Úr KB-banka auglýsingunni!"

Ég sver það, ég var ekki svona vitlaus þegar ég var 16 ára.

Ég var að horfa á Napoleon Dynamite áðan. Sjitt hvað hún var megafyndin. Ég er engin æstur aðdáandi grínmynda en þetta... var bara snilld.

miðvikudagur, september 07, 2005

Ég hef þrennt að segja

1. Ég var að horfa á Americas next top model. Ég er búin að finna mér þátttakenda til að halda með. Ég lýsi því hér með yfir að Naima, móhíkanastelpan, muni vinna. Ef ekki... Þá bara er ég bjáni. Og hún ömurleg.

2. Á mánudaginn missti ég ipodinn minn næstum því ofan í skúringafötu. Ég held að hjartað mitt hafi misst úr slag. ipodinn minn er búinn að vera minn bestasti besti vinur í sumar og mun vera það áfram því hann styttir mér langar stundir í strætó á leiðinni út á Kjalarnes. Ég fæ ennþá illt í magann þegar ég hugsa um hvað hefði getað gerst.

3. Ég sofnaði klukkan hálfníu í gærkvöldi, óvart reyndar, og vaknaði ekki aftur fyrr en á miðnætti. Þá var mamma að segja eitthvað við mig en ég get ómögulega munað hvað það var. Ég vaknaði næst klukkan fjögur, ennþá í öllum fötunum. Þá fór ég að tannbursta mig og háttaði mig og fór undir sæng. Þá fann ég að ég var öll ísköld, mér var ekki kalt, var í lopapeysu og svoleiðis, en húðin mín var öll ísköld. Greinilegt að líkamsstarfsemin er hæg á nóttunni... Þar sannreyndi ég það! Fór svo aftur að sofa og vaknaði klukkan átta. Ég svaf semsagt í 11 og hálfan tíma í nótt. Það var skrýtið.