miðvikudagur, maí 25, 2005

Æskan.. Skemmtileg.

Ég var að taka til uppi í skáp hjá mér til að reyna að koma öllu námsdótinu einhversstaðar fyrir þegar ég rakst á sögubókina mína síðan í 4. bekk í grunnskóla. Ég byrjaði náttúrulega að lesa og skemmti mér hið besta. Ég furða mig þó á ímyndunarafli mínu. Ég virðist hafa glatað þessum hæfileika til að koma öllu sem mér finnst fyndið og áhugavert niður á blað.

Fiktufjölskyldan

Einu sinni var fjölskylda sem var nefnd fiktufjölskyldan. Meðlimir fjölskyldunnar voru: Pabbi fikti fret, Mamma mosi múll, Stóri bróðir 1+0 og Mundi, Litla systir Lilla búmm og Kötturinn Malli músabelgur. Þetta var ósköp srítin fjölskylda en oft á tíðum sá fólk þegar það labbaði framhjá húsinu einhvern í fjölskyldunni vera að fikta við eitthvað. Eitt sinn sá maður sem gekk framhjá, Stóra bróðir 1+0 og Munda vera að fikta með eldspítur. og viti menn hann brenndi sig og kastaði eldspýtum á húsið og þar stóð húsið í ljósum logum og strákurinn stóð háskælandi með bólginn fingur og eins og örskot komu hinir úr fjölskyldunni út pabbi fretandi, mamma étandi mosa litla systir að fikta með sprengju og svo kom kötturinn með mús í kjaftinum og um leið kom slökkviliðið og slökkti eldinn.

Endir

Þess má geta að með þessari sögu límdi ég í bókina afar dramatíska mynd úr Mogganum af slökkviliðsmönnum að berjast við eld í húsi. Fyrir þessa sögu fékk ég: Góð saga og stjörnustimpil frá kennaranum. Ég veit ekki alveg hvað vakti fyrir mér með allar þessar persónur þar sem engin þeirra skiptir neinu máli í sögunni. Eins veit ég ekki hvort Stóri bróðir 1+0 og Mundi séu einn eða tveir menn. Ég skil ekki heldur hvernig það telst vera fikt af ketti að veiða mýs, af konu að borða mosa eða af manni að prumpa.

Ég greinilega skil ekki sjálfa mig sem krakka.

þriðjudagur, maí 24, 2005

Jájá einmitt

Á sunnudagskvöldið upplifði ég rosalegasta stress sem ég hef fundið fyrir. Dagurinn var ósköp venjulegur sunnudagur, mér gekk vel að læra og fannst ég kunna allt frekar vel um kvöldið. Allt í einu helltist svo yfir mig þetta þvílíka stress að ég vissi varla hvað væri að mér. Ég sat í herberginu mínu og grét af stressi, fór að sofa en lá andvaka frá 1-5 og náði því að sofa í tæpa tvo klukkutíma. Þegar ég vaknaði svo leið mér ekki betur, fékk mér morgunmat en kom honum ekki niður.
Einum klukkutíma síðar var ég svo búin í stúdentsprófum. Miðbærinn hafði sjaldan verið eins fallegur og dagurinn leið í svimandi sælu.
Það er ótrúlegt hvað maður er svo fljótur að gleyma þessu leiðinlega tímabili og öllu þessu svakalega stressi. Í gær leið mér eins og ég hefði ekki verið í prófum síðastliðnar fimm vikur. Allt var svo gaman og í dag finnst mér eins og ég sé búin að vera í fríi í marga daga.

Í bókinni Flugið heillar, sem ennþá er ein af mínum uppáhaldsbókum, og jafnframt ein af þeim sorglegustu sem ég hef lesið, sagði ein persónan að manneskjan gæti vanist hverju sem er. Já svei mér þá, ef manneskjan gæti það ekki, þá værum við örugglega ekki til. Þá væri ég heldur ekki búin í stúdentsprófum því ef ég hefði ekki vanist því að vera í prófum þá hefði ég aldrei getað klárað þau.

Lífið er gott gott gott í dag.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Bókalisti sumarsins og næsta árs... Og fleira.

1. Sjálfstætt fólk
2. Blikktromman
3. Harry Potter 6 (jess jess jess jess jess!!!)
4. Veröld Soffíu
5. Kalli og sælgætisgerðin (gaman að rifja upp gamla daga áður en myndin kemur)


Á næsta ári verð ég ekki í bóklegu námi svo ég ætla að lesa og lesa og lesa af einhverju allt öðru en námsbókum. Ég hlakka svo til!

En á dimissio var ég einmitt nemandi í Hogwarts og niðri á Ingólfstorgi kom Harry Potter aðdáandi og talaði við okkur um Harry Potter. Þá kom í ljós að hann hafði verið inni á spjallsíðu um daginn þar sem hörðustu aðdáendur bókanna koma saman og bera saman kenningar sínar um Potterinn. Mér fannst þetta stórkostlegt:

Kenning 1: Að Snape sé vampíra.

Rök: Hann kennir alltaf í dýflissunni og er alltaf vakandi á nóttunni. Hann er eini kennarinn sem við vitum ekki hvar býr. Í þriðju bókinni setur Snape bekknum fyrir ritgerð um varúlfa í fjarveru Lupin. Þegar Lupin kemur aftur setur hann þeim fyrir ritgerð um vampírur. Spúkí? Jebb.

Kenning 2: Að Dudley sé galdramaður.

Rök: Foreldrar hans eru andskoti paranoid yfir öllu þessu galdrastússi. Þau vernda hann alveg í þaula. Mamma hans er þó úr fjölskyldu sem hefur alið galdramenn. Þegar dementorarnir ráðast á Harry og Dudley í hverfinu þeirra í fimmtu bókinni finnur Dudley fyrir návist þeirra. Muggar gera það venjulega ekki!

Jii.. Þetta er svo gaman.

þriðjudagur, maí 17, 2005

Labbrabb

Hljóðs bið ég allar
helgar kindir,
meiri og minni
mögu Heimdallar.
Viltu að eg, Valföður,
vel fyr telja
forn spjöll fira
þau er fremst um man.


Þetta finnst mér skemmtilegt efni.

Ég kvíði reyndar skuggalega mikið fyrir munnlega stærðfræðiprófinu á mánudaginn en eftir það er ég frjáls eins og fuglinn. Ég mun þá aldrei áður í lífinu hafa verið eins frjáls því næsti vetur verður eintóm gleði og sæla. Ég er meir að segja eiginlega búin að velja skóla en Krogerup hefur allt sem ég var spennt fyrir í hinum skólunum og held ég að hann sé efst á lista. Ég get meir að segja lært á kajak þar og allt!

Ég útskrifast í næstu viku. Haaaa????

föstudagur, maí 13, 2005

Meira en lítið undarlegt

Mér þykir ótrúlega skrýtið hvað þessi lengsta prófatörn lífs míns hefur verið auðveld. Ég furða mig á því á hverjum einasta degi en ég hef ekki ennþá upplifað þennan týpíska prófapirring og hef varla upplifað að hugsa um hvað allt annað væri skemmtilegra en að læra.
Ég hugsa að ástæðurnar fyrir þessu jafnaðargeði mínu sé þessi langi andlegi undirbúningstími. Ég er búin að kvíða fyrir þessum prófum í fjögur ár og er örugglega, ómeðvitað, búin að sætta mig að ég þurfi að yfirstíga þetta til að geta byrjað á einhverju nýju. Einnig hefur hugsunin um útskriftina og sumarið framundan haldið mér gangandi lengi. Ég sé útskriftina fyrir mér á hverjum degi og er afar stolt af sjálfri mér að vera að klára þessi blessuðu stúdentspróf. Að auki held ég að hugsunin um Danmerkurferðina skemmi ekki fyrir en mér til mikillar gleði ákváðum við Ómar að fara út þremur dögum á undan kórnum og slappa af. Við fáum meir að segja ókeypis gistingu hjá bróður mínum... Það er sjaldan sem maður hefur sambönd en núna koma þau að góðum notum.
Nú eru svo allt í einu 10 próf búin af 12 og ég tek varla eftir að ég sé í prófum. Þetta er, án gríns, búið að vera skemmtilegt tímabil. Alveg magnað.

Hvað eigum við Ómar svo að gera í Kaupmannahöfn? Hugmyndir óskast.

mánudagur, maí 09, 2005

Búin með efnið??

Nú liggur líffræðibókin mín lokuð á gólfinu. Það myndi einhver halda að ég væri búin með efnið en... Nei. Hún datt bara í gólfið með miklum látum.

Líffræðibókin er 758 blaðsíðna langt bókmenntaverk. Við lesum eitthvað um 300 blaðsíður. Ég á 30 eftir og tel það bara ágætt.
Líffræðibókin mín er grátt flykki með glansandi sæljónum framan á. Núna er hún skreytt með 33 merkimiðum sem marka blaðsíðurnar sem ég þarf að líta betur á. Merkimiðarnir eru rauðir, grænir, bláir og gulir. Alveg eins og regnboginn.
Líffræðibókin mín er skemmtileg. Ég held ég hafi skrýtnar kenndir gagnvart henni. Hún er svo falleg.

Ég er að hlusta á Lisu Ekdahl. Ég sé eftir að hafa ekki farið á tónleikana hennar. Ég sé líka eftir að hafa ekki farið á Robert Plant og Van Morrison en mest mest mest af öllu sé ég eftir að hafa ekki farið á Buena Vista social club. Af hverju fór ég ekki????

föstudagur, maí 06, 2005

Mikið rosalega er Djúpa laugin vandræðalegur þáttur. Og vitlaus og heimskur. Hver gerir svona?
Sjittifokkingfokk hvað ég kem mér ekki til að fara að lesa upp fimmtubekkjarlíffræði. 300 blaðsíður eftir... Ekkert búið. Fönn fönn fönn fönn íslensk líffræðifönn! Ég er búin að fara blogghringinn um það bil 10 sinnum síðasta klukkutímann. Mér finnst að fólk ætti að blogga meira.. miklu meira.
Ég steig á nálapúða. Ekki bara nál heldur nálapúða. Það var samt ekki að spyrja að því að ég fékk nál lengst upp í fótinn og nú er mér illt. Það er allt í lagi því ég var að panta pizzu. Jeij.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Í mínum augum varð stóri bróðir minn stór í dag. Hann var að festa kaup á sinni fyrstu íbúð. Til lukku.

Ég þoli ekki að tannbursta tunguna. Ég kúgast alltaf. Ojbara...

Skólablaðið...

..kom út í dag. Það var skrýtið að fá gripinn í hendurnar eftir alla þessa vinnu. Það var líka skrýtið að horfa á fólkið lesa það sem við skrifuðum, prófarkalásum og löguðum. Það var samt mjög mjög mjög gaman og ég held ég geti sagt að ritnefndin hafi öll verið afar sátt við árangurinn. Þetta var löng ferð en leiðarenda er loksins náð. Nú er bara eftir að rukka... Heh.
Það var gaman að fá hrós. Ennþá höfum við ekki fengið neikvæð viðbrögð sem er gott. Yngvi stoppaði mig tvisvar á ganginum til að óska okkur til hamingju með þetta glæsilega blað. Hann sagði að loksins væri þetta almennilegt Skólablað. Sagði að þetta væri dúndur og sitthvað fleira. Afar ánægjulegt.
Nú er ég bara forvitin að fá að vita hvað lesendum þessa bloggs finnst um herlegheitin.

Svo var eitt mjög fyndið. Í vetur.. fyrir löngu löngu síðan söfnuðum við vinningum frá hinum og þessum fyrirtækjum til að halda bingó. Aldrei varð neitt úr bingóinu svo við sátum uppi með einnota myndavél og framköllunargjafabréf, prjóna og garn, skiptilykil og gjafabréf á Hornið. Við gáfum vinningana með blöðum í dag. Doddi í 6.B fékk prjónana og var rosalega ánægður með þá. Ég hlakka til að sjá hann með heimaprjónaðan marglitan trefil þegar kólna fer aftur í veðri.


Ég elska að það sé að koma sumar. Ég hata að ég hafi ekki lært neitt í dag. Það var gott veður í dag. Það var góður dagur í dag.