þriðjudagur, maí 24, 2005

Jájá einmitt

Á sunnudagskvöldið upplifði ég rosalegasta stress sem ég hef fundið fyrir. Dagurinn var ósköp venjulegur sunnudagur, mér gekk vel að læra og fannst ég kunna allt frekar vel um kvöldið. Allt í einu helltist svo yfir mig þetta þvílíka stress að ég vissi varla hvað væri að mér. Ég sat í herberginu mínu og grét af stressi, fór að sofa en lá andvaka frá 1-5 og náði því að sofa í tæpa tvo klukkutíma. Þegar ég vaknaði svo leið mér ekki betur, fékk mér morgunmat en kom honum ekki niður.
Einum klukkutíma síðar var ég svo búin í stúdentsprófum. Miðbærinn hafði sjaldan verið eins fallegur og dagurinn leið í svimandi sælu.
Það er ótrúlegt hvað maður er svo fljótur að gleyma þessu leiðinlega tímabili og öllu þessu svakalega stressi. Í gær leið mér eins og ég hefði ekki verið í prófum síðastliðnar fimm vikur. Allt var svo gaman og í dag finnst mér eins og ég sé búin að vera í fríi í marga daga.

Í bókinni Flugið heillar, sem ennþá er ein af mínum uppáhaldsbókum, og jafnframt ein af þeim sorglegustu sem ég hef lesið, sagði ein persónan að manneskjan gæti vanist hverju sem er. Já svei mér þá, ef manneskjan gæti það ekki, þá værum við örugglega ekki til. Þá væri ég heldur ekki búin í stúdentsprófum því ef ég hefði ekki vanist því að vera í prófum þá hefði ég aldrei getað klárað þau.

Lífið er gott gott gott í dag.