fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Nú..

.. ætla ég bara að láta frekjuna taka öll völd og biðja alla þá sem kynnu að ramba inn á þessa síðu að kommenta ef þeir hafa eitthvað til málanna að leggja.

Mig langar svakalega mikið að fara til útlanda á næsta ári og núna er ég með magaverk af spenningi fyrir að fara til Danmerkur í lýðháskóla. Mig vantar meðmæli með ákveðnum skólum, góðar hugmyndir, reynslusögur, hryllingssögur.. Allan pakkann.

Ég fór á lögfræðikynningu í dag í skólanum og skemmti mér hið besta enda skemmtilegir strákar þar á ferð. Hins vegar, þegar ég fór að hugsa um hvað þeir voru að segja þá fannst mér það ekkert svakalega áhugavert. Sannfæringarkraftur laganema er greinilega ógnvænlegur.

Núna vil ég að þeir sem eiga einhver ljósmyndatæki, helst í formi lýsingartækja, að gefa sig fram ef þeir vilja lána þau eða leigja gegn mjög vægu gjaldi á næsta sunnudag. Við erum að fara að taka tískuþátt.

Allir sem hafa fundið eitthvað að Skólablöðum síðustu ára, tjáið ykkur. Mig vantar að vita hvað við eigum alls ekki að gera. Ef þið viljið segja mér hvað við eigum að gera þá er það líka allt í lagi.

Þegar ég er að skrifa e-mail og hringja í fyrirtæki til að safna auglýsingum þá minni ég sjálfa mig á ælu. Ég hef aldrei látið neitt jafn vemmilegt út úr mér á ævinni. Það er leiðinlegt að þurfa að kyssa rassa, nei ekki í alvörunni, til að fá peninga.

Á morgun er ég að fara í endajaxlatöku. Ég kvíði fyrir.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Ég þoli ekki..

.. þegar fólk kann ekki að nota styttingu á orðunum eitthvað og einhver. Hvernig getið þið (sem eigið það skilið, þið vitið hver þið eruð) notað styttingar sem þið kunnið ekki??! Í dag fékk ég sms: ,,Ég er e-h svo slöpp í dag, ég ætla bara að vera heima". Hvað á þetta h að vera? Hvaða orð endar á h? Nú skal ég bara segja þetta í eitt skipti fyrir öll: Eitthvað endar á ð og því skal stytta orðið eitthvað sem e-ð. Einhver endar á r og því skal stytta það sem: e-r.
Þar hafið þið það og skulið ekki dirfast að senda mér sms með nokkru sem inniheldur e-h aftur.

Sorrí Sigrún..

laugardagur, febrúar 12, 2005

Foreldri??

Fyrir nokkrum vikum ákvað ég að láta gott af mér leiða og gerast styrktarforeldri barns í Afríku. Í dag fékk ég svo umslag með mynd af barninu mínu og upplýsingar. Það var skrýtið að opna umslagið og vita að þar inni í væri mynd af barni sem ég væri búin að taka eitthvað af ábyrgðinni á.. Ég, foreldri.. Vá.
Barnið mitt er strákur. Hann varð sex ára í október og hann heitir Paulo Maldini Varela Gomes. Hann kemur frá Grænhöfðaeyjum. Mamma hans er dáin og pabbi hans yfirgaf þau systkinin. Furðulegt að geta bara yfirgefið börnin sín en hann var víst ekki í aðstöðu til þess að sjá um þau. Mér finnst samt frábært að hann skuli hafa komið þeim fyrir á góðum stað.
Paulo er voða sætur strákur og honum er lýst sem fjörugum og skemmtilegum strák sem er fljótur að eignast vini og sé mjög náinn systkinum sínum. Mér finnst þetta frábært. Þarna er bara kominn strákur sem ég vissi ekki að væri til í gær en sem mér þykir allt í einu svakalega vænt um í dag. Móðureðlið er kannski ekki langt undan.. Eða hvað?!
Svo eignaðist Una stelpu frá Perú á sama hátt.. Við ætlum að hittast og sýna börnin bráðum.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Þegar eitthvað er öðruvísi en maður hélt

Á laugardagskvöldið fór ég í tvítugsafmæli til Elsu vinkonu minnar. Afmælið byrjaði um hálfníuleytið í rólegum gír og endaði í svaka fjöri um nóttina. Þá vorum við vinkonurnar ekki ennþá á því að fara heim og fórum því niður í bæ. Þetta var mín fyrsta skemmtistaðaferð og er henni lýst svona:
Labb labb. Stopp fyrir utan Prikið, þar sem allir MR-ingarnir áttu að vera. Meira stopp, kalt á tánum og rigning. Leiðinlegur dyravörður hleypti örugglega 20 manns inn VIP á meðan við stóðum beint fyrir framan hann. Einhver úr Quarashi kom með fullt af vinum sínum, þeir fóru allir inn, einnig á meðan við stóðum beint fyrir framan dyrnar. Jæja... Jeij, inn fórum við. Þekktum engan, leiðinleg tónlist og vond lykt, fullt af ofurölvum. Út. Hringdum í Aron, biðum í 20 mínútur eftir honum og svo heim. Skemmtilegt að segja frá því að sem ég stóð á Laugaveginum og beið mundi ég allt í einu eftir pillunni. Þá kom maður og spurði eftirvæntingarfullur hvort ég væri með dóp..

Já, bærinn mun ekki freista mín að nýju í bráð. Leiðinlegt að enda skemmtilegt kvöld á vonbrigðum.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Lata stelpan

Eftir jólafríið tók ég þá ákvörðun að leggja víóluspil á hilluna í eina önn. Þá ákvörðun tók ég því ég hafði æft mig sáralítið alla haustönnina og ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá er það að standa mig illa í einhverju sem ég gæti verið góð í. Það var ömurlegt að standa í klukkutíma að spila sama staðinn aftur og aftur og aftur. Ég ákvað því að taka mér pásu en ætlaði auðvitað að halda mér vel við svo ég myndi ekki ryðga of mikið. En einhvern veginn kom ég sjálfri mér þó lítið á óvart þegar ég fattaði í dag að ég hafði ekki tekið upp þessa blessuðu víólu í rúman mánuð. Æææ..

Ég giska á að um það bil einu sinni í viku fái ég mikinn pirring í allan líkamann yfir því að vera ekki skipulagðari. Þá langar mig svo að herbergið mitt sé hreint og að ég nenni að taka upp stærðfræðibækurnar. En viti menn, eftir svona tíu mínútur af pirringi þá gleymi ég því alveg og fer að horfa á sjónvarpið í staðinn fyrir að læra, og það í skítugu herbergi. Núna ætti ég námslega séð að sitja sveitt yfir rúmmálsreikningi snúða (mikið er ég samt fegin að ég er ekki sveitt að hugsa um snúða) en þá er ég búin að eyða öllu kvöldinu í að breyta um útlit á blogginu og horfa á íslensku tónlistarverðlaunin. Ég var samt mjög ánægð með öll úrslit sem ég sá þar, Mugison er æði.. Enda er hann frá Ísafirði.

Ég ætla að fara að sofa núna, Bragi Halldórsson bíður mín klukkan átta:tíu í fyrramálið með fyrirlestur um módernisma. Í dag sat ég og dottaði og hrökk við til skiptis, það var klukkan eitt. Ég get ekki beðið eftir að vakna..