mánudagur, nóvember 29, 2004

Hmmm....

Málfrelsi er skilgreint í íslenskri orðabók: ,,Frelsi til að láta skoðanir sínar í ljós í ræðu og riti". Jú, jú það ríkir víst málfrelsi á Íslandi. Ég er líka mjög sátt við það, það er hryllilegt ástand í sumum löndum heimsins að fólk geti ekki komið skoðunum sínum á framfæri. Kína kommúnistans til dæmis er gott dæmi, og er það að mörgu leyti enn þann dag í dag þótt það sé ekki titlað sem kommúnistaríki. Það að geta ekki sagt skoðun sína á hlutum er fötlun, það er eitthvað sem enginn ætti að þurfa að þurfa að búa við. En eftir að hafa lesið umræðuna um MR-lagið á Framtíðarvefnum fór ég að pæla. Lagið er ógeðslegt og held ég að flestir geti fullyrt það, meir að segja höfundar. En hér er ég ekki að fara að tala um það. Ástæðan fyrir því að ég kem inn á það er sú að mér fannst svo skrýtið hvernig viðbrögð fólks voru við skoðunum. Þá er ég sérstaklega að tala um skoðanir þeirra sem voru á móti laginu. Oft þegar sagt var eitthvað slæmt um lagið eða einhver sagði að lagið hefði verið ógeðslegt, ekkert fyndið, siðlaust, stuðla að ranghugmyndum eða hvað annað sem fólk nú sagði, þá voru þau kölluð einhverjum nöfnum. Það sem ég tók helst eftir var tepra og femínisti. Þetta finnst mér voðalegt. Hvert er okkar svokallaða málfrelsi að fara ef fólki finnst allt í lagi að flagga textanum í þessu lagi en þegar skoðun er látin í ljós sem er á rökum reist og er málefnaleg þá fær hún slæm viðbrögð frá lesendum? Mér er spurn.
Femínismi er einungis barátta kvenna fyrir sömu réttindum og karlar hafa. Mér finnst mjög skrýtið að stelpa skuli kalla aðra stelpu femínista í neikvæðum skilningi, hún ætti aðeins að endurskoða sitt mál fyrst. Þegar femínismi, sem og hver annar -ismi, fer út í öfgar er illt í efni eins og í rauninni með hvern einasta hlut í heiminum en það sem kom fram í skoðunum fólks á umræðuvefnum voru engar öfgar. Það var einungis verið að benda á það sem fólk sá rangt við textann, yfirleitt með fullri virðingu fyrir skoðunum annarra. Þetta var semsagt skoðun.
Ég hef sjálf verið kölluð femínisti, rauðsokka, strákahatari og kjaftfor. Mér hefur alltaf þótt frekar leiðinlegt að heyra svona ábendingar því ég veit að þetta er oftast ekki meint í góðum skilningi. Þetta er ekki heldur á rökum reist. Ég er enginn öfgafemínisti né rauðsokka, ég hata ekki stráka sem er kannski augljóst þar sem ég á marga strákavini og meir að segja kærasta. Mér finnst reyndar ágætt að heyra að ég sé kjaftfor, sérstaklega ef það er frá einhverjum sem ég kann ekki vel við. Í dag áttaði ég mig samt aðeins betur á þessu. Þessar ábendingar koma oftast frá strákum. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að mörgum finnist stelpa sem er ekki hrædd við að segja það sem henni finnst er einfaldlega titluð femínisti. Stelpa sem er ekki hrædd við að segja það sem henni finnst við stráka er strákahatari og stelpa sem er ekki hrædd við að segja það sem henni finnst við eldra fólk og ,,æðra" er í voða rebel og er kjaftfor. Ég er ekki að segja að fólk sem þekki mig vel segi þetta við mig en fyrir svona ári eða tveimur var ekki óalgengt að fólk segði mér þetta í partýum og á böllum. Oftast voru þetta strákar og langoftast strákar sem ég þekkti ekki mikið en hafði samt skipst á skoðunum við eða staðið í hóp og verið að tala um eitthvað málefni. Mér fannst þetta ótrúleg en jafnframt nokkuð skemmtileg uppgötvun. Ég var bara nokkuð ánægð með sjálfa mig.
Það er skrýtið að uppgötva eitthvað, sérstaklega um sjálfan sig, en þessi litla uppgötvun mín hvetur mig bara eindregið til að halda áfram að koma mínum skoðunum á framfæri en dregur ekki úr mér.

laugardagur, nóvember 27, 2004

Meira af félagsfræði

Andúð mín á félagsfræði minnkaði ekki í prófinu í dag þegar prófið var í algjöru ósamræmi við skyndipróf og yfirferð efnisins. Það var gaman.
Ég ætla að minnast á annað í bókinni sem mér fannst mjög asnalegt. Þar var verið að tala um menningarkima (þegar fólk hefur önnur viðmið en gengur og gerist í samfélaginu, ó nei!). Þar var sagt að neikvæðir menningarkimar væru til dæmis pönkarar því þeir væru með skrýtið hár og hlustuðu á öðruvísi tónlist.
Þessi félagsfræði er ekkert að kenna manni að virða aðra heldur er hún að reyna að steypa alla í sama formið. Óþolandi helvítis..

En í dag fór ég í Ikea og eyddi þar dágóðum tíma í að ráfa um búðina og leita að góðri bókahillu. Á endanum hætti ég við að kaupa bókahillu og keypti í staðinn risastóran geisladiskastand, þar sem ég get líka geymt dvd myndirnar mínar, og snyrtivöruborð á hjólum. Þegar ég og Ómar vorum búin að púsla þessu saman, frábært við Ikea hvað allt er aulahelt, sexkanturinn fylgir með og allt, tók ég til. Það var gaman. Nú er allt hreint og fínt og því ekkert því til fyrirstöðu að ég geti byrjað að læra fyrir próf.. djö..

föstudagur, nóvember 26, 2004

Heimskir fræðimenn

Í augnablikinu er ég að læra fyrir jólapróf í félagsfræði. Ég er mjög andsnúin þessu fagi, tímarnir eru ágætir en um leið og ég byrja að lesa finnst mér þetta ótrúlega leiðinlegt og eiginlega bara hallærislegt. Mér finnst flest af þessu frekar sjálfsagt og mig vantar engar skilgreiningar á lífi mínu, ég kann ágætlega við að hafa bara hugmyndir.
Félagsfræði á að vera voða dipló fag, allir menningarhópar eru jafnir ef þú horfir á þá með viðmiðum hvers hóps.. blablabla. EN.. ég rakst á afskaplega klaufalega málsgrein í bókinni sem gerir mig enn andsnúnari þessari blessuðu félagsfræði. Þar er verið að tala um mismunandi fegurðarhugmyndir þjóða: ,,Okkur Vesturlandabúum finnst fallegt að konur noti skartgripi og máli sig til að fegra sig. Það gegnir öðru máli um samfélög þar sem fólk gerir ör á líkama sinn, setur bein í gegnum nefið eða víkkar út varir og eyrnasnepla með viðarbútum. Þau gera sér ekki grein fyrir hvað okkur finnst þetta ljótt." Ha? HA? Umm.. þurfa þau eitthvað að gera sér grein fyrir því??!
Einhvern veginn finnst mér þessi félagsfræðingur ekkert voðalega dipló lengur heldur bara heimskur.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Fallegur dagur

Heimurinn var svo fallegur í dag. Það var ískuldanum að þakka að allt var tært og himinninn heiðskír. Snjórinn gerir allt svo hreint og bjart. Ég sat inni í stofu heima og út um gluggann sá ég glitta í sól í smástund áður en hún settist á bakvið Lágafellið. Þegar ég gekk út á götu sá ég Esjuna baðaða í sól, það glitraði hreinlega á hana. Það eru tvö há tré í garði hinum megin við götuna og einmitt í þessum tveimur trjám sátu örugglega um 100 fuglar, hver grein var þétt setin. Það voru læti í þeim, fuglalæti. Ég fékk sting í lungun þegar ég gekk út í bílskúr og mér var rosalega kalt en það eina sem ég hugsaði var ,,Vá, hvað heimurinn getur verið fallegur.. " Ég vildi að það væru fleiri svona dagar.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Haha..

Þegar ég verð borin út úr kirkjunni í jarðarförinni minni vil ég láta spila She´s so heavy með Bítlunum á meðan. Ég myndi hlæja og hlæja frá himnum.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Heimsókn til dýralæknisins

Í morgun fór ég með Nóa kisu til dýralæknis. Morguninn byrjaði á því að ég náði í kattabúrið út í bílskúr, var bitin í hendina, tróð kisunni inn í búr og keyrði til dýralæknisins. Mér fannst þessi heimsókn fróðleg. Konan tók Nóa og byrjaði að þreifa á fætinum á honum því hann hafði ekki getað staðið í annan fótinn síðastliðinn sólarhring. Ég hafði aldrei heyrt svona kisuhljóð áður. Hljóðin sem Nói gaf frá sér voru eins og lágt öskur í bland við barnsgrát.. og mjálm. Mjög skrýtið. Þegar dýralæknirinn var búinn að klippa hárin af fætinum á Nóa, sýna mér bitsár og útskýra fyrir mér að hann væri eins og meðalaglas sem lokast eftir að búið er að taka sprautuna úr því, samlíking við tönn í húðinni á honum, sagði hún mér að hann væri með ígerð undir húðinni. Þetta fannst mér merkilegt. ,,Kisi er eins og meðalaglas.." hugsaði ég. Konan lét mig svo hafa sýklalyf sem hún sagði mér að troða eins langt ofan í kok á kisa og ég gæti. Aðferðin við þetta fannst mér einmitt merkileg. Ég átti að taka um kinnarnar á Nóa, opna munninn með því að þrýsta puttunum á kinnarnar og halda rosalega fast þar um. Þetta var gert til þess að hindra að hann loki munninum en ef hann gerir það þá bítur hann bara í sjálfan sig. ,,Sniðugt.." hugsaði ég.
Hjá dýralækninum var svo litla boxer tíkin hennar, Ronja 8 vikna, og hún var svo falleg, sleikti á mér andlitið og reyndi að bíta mig með tveim pínulitlum tönnum. Munnurinn á henni var hálfur hausinn.

Eftir þessa heimsókn til dýralænisins fór ég að velta fyrir mér hvort ég gæti orðið dýralæknir. Ég velti því fyrir mér í allan dag og komst að þeirri niðurstöðu að ég gæti alveg hugsað mér það. Vandamál mitt núna er bara það að ég veit ekkert um námið. Núna óska ég eftir upplýsingum um dýralæknanám frá öllum sem eitthvað vita. Ég bíð spennt.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Ég..

..hef ákveðið að reyna að gerast bloggari. Ástæðan fyrir þessu er afar einföld, mig langar svo að segja eitt og hef engan annan stað því ekki fer ég að hringja í alla og segja þeim þetta. Mig langar svo að segja þetta því þetta er hluturinn sem hefur farið, að ég held, mest í taugarnar á mér í langan tíma.

Í dagblöðum eru alltaf leikhúsauglýsingar sem sýna sýningartíma, sýningarstað og þess háttar. Á auglýsingunni við leikritið ,,Hinn útvaldi" eftir Gunnar Helgason er mynd af strák með asnalegan hlut, sem mér sýnist vera fjarstýring að playstation, og asnalegt bros, þetta er reyndar einfaldlega asnaleg mynd, afsakið ef ég er að móðga frænda einhvers.. Mér er alveg sama. Þetta er þó ekki það versta við auglýsinguna því á henni stendur: ,,Ef Astrid Lindgren væri á lífi myndi hún skrifa svona leikrit." Undir þetta skrifar svo Rás 2. ÉG ÞOLI EKKI ÞESSA AUGLÝSINGU.

Astrid Lindgren dó fyrir ekki svo löngu síðan, ég grét og klippti út grein um hana. Hún var uppáhaldsrithöfundur minn. Ef hún hefði skrifað sögu um asnalega stráka í tölvuleikjum og með geislasverð þá væri hún ekki uppáhaldsrithöfundur minn. Ég myndi örugglega ekki einu sinni vita hver Astrid Lindgren væri. Hún skrifaði fallegar sögur um falleg börn í Svíþjóð, ævintýri með skrímslum og hetjum, lýsingar á gullfallegum himnaríkjum, sögu um fatlaðan strák sem fór til himna og gat synt, hlaupið og farið á hestbak í fyrsta skipti, um ræningjadóttur sem vildi ekki vera eins og pabbi sinn. Allar sögurnar hennar höfðu boðskap og ég get ekki séð hvernig hægt er að tengja þetta leikrit við sögur eftir sænskan rithöfund sem skrifaði mest um lífið í sveitinni eða í óbyggðum.
Ég bara varð að segja þetta.