föstudagur, október 26, 2007

Gaman

Ruslpóstsían í gmailinu mínu er fljótt af fylla möppuna af alls kyns rugli. Ég kíki stundum inn á þetta, það hefur nefnilega komið fyrir að hún hefur síað eitthvað sem ekki átti að síast. Ég geri nú lítið af því að opna þessi ruslbréf en ef ég skoða fyrstu línurnar á þessum bréfum (það sem stendur fyrir aftan titilinn) þá hljómar það svona í nokkrum þeirra:

- hello comrades anna.samuels still got that little thing dangling between your...
- hello mom anna.samuels make your cock the main event of every sex... (Mom????)
- hello anna.samuels you aint seen nothing till you've seen your dick huge... (jah... ég held það sé augljóst að ég hef lítið séð...)
- hello babe anna.samuels, is your dick only as big as your pinky finger...
- hey baby anna.samuels stop wasting your money on other shit, buy penis pills... (aha...)
- hey honey anna.samuels fuck pumps, fuck patches, pills really make you...

Hvers vegna í fjandanum er gert ráð fyrir að ég sé kall? Og er einhver sem opnar svona lagað? Hvað ætli það sé þá í titlinum sem heilli viðkomandi.... Mom kannski?? Það þætti mér gaman að vita. Ó tækni.

fimmtudagur, október 25, 2007

Ég er í þremur kúrsum í skólanum. Einn þeirra er próflaus en endar með langri ritgerð sem skila á í lok nóvember. Í hinum tveimur þarf ég að taka jólapróf, eins og gengur og gerist, og eru þau sett 20. og 21. desember. Ertekkaðgrínast hvað desember verður fokkd opp!

mánudagur, október 22, 2007

Jæja...

Það á bara ekkert að fara að hætta að rigna... Ekki það að ég sé orðin þreytt á þessu... Alls ekki, þetta er ósköp notalegt. Gaman að segja frá því að á vedur.is eru regndropar á öllum dögum út vikuspána. Svona er víst Ísland í dag. Blautt blautt, allt blautt.

Ég held að skýin feli sólina af illgirni.

fimmtudagur, október 18, 2007

Venjulega stilli ég vekjaraklukkuna mína á sirka hálfátta á morgnana. Hún hringir með alveg einstaklega leiðinlegu míííp, míííp, míííp hljóði og ég er yfirleitt fljót að snúsa. Undanfarna morgna hefur þetta hljóð hins vegar náð að lauma sér inn í drauminn minn þannig að ég held alltaf að klukkan sé að tala við mig. Hún segir margt skemmtilegt og ég bíð í raun frekar spennt eftir því þegar 10 mínúturnar eru liðnar og hún heldur áfram að segja mér eitthvað sniðugt. Í morgun gekk þetta á í næstum því klukkutíma. Það skrýtnasta er að þetta er ekki eitthvað einsdæmi heldur hefur þetta gerst mörg síðustu skipti og ég er eiginlega hætt að kippa mér upp við það að klukkan mín skuli tala. Hjálpi mér.
Seinustu nótt dreymdi mig líka að kona sem ég er að vinna með hefði stolið öllum eyrnalokkunum mínum og hálsklút frá mér og hefði svo mætt spígsporandi með allt þýfið, já þýfið segi ég, danglandi úr eyrunum, hljóp svo reglulega fram til að skipta um eyrnalokka af því að hún átti svo marga. Mikið óskaplega vaknaði ég pirruð af þeim draumi.

miðvikudagur, október 17, 2007

Þegar ég er að drífa mig eitthvert lendi ég nánast undantekningalaust á öllum rauðum ljósum, allir svína á mig, það eru bara leiðinleg lög í útvarpinu og allir nema ég sjálf keyra eins og fífl. Um daginn gekk þetta svo langt að það var búið að flæða yfir aðra akreinina í Suðurgötuhringtorginu og ég píndi litla bílinn í gegnum vatnselginn sem náði honum upp að "mitti", af því að ég var að drífa mig.
Stundum er ég svo engan veginn að drífa mig. Þá eru til dæmis rosalega skemmtileg lög í útvarpinu og ekkert nema gaman að syngja með, ljósin verða græn um leið og ég nálgast þau svo ég þarf varla að hægja á mér og allir keyra eins og englar. Þetta eru einmitt þau skipti sem ég vildi að umferðin gengi aðeins hægar. Ég átti til dæmis í morgun þennan fína rjúkandi heita kaffibolla í ferðamáli. Það var kalt úti og sól, ég var á leiðinni á Þjóbó og var því engan veginn að drífa mig neitt sérstaklega. Það er eins og við manninn mælt; þegar ég hafði það svona einstaklega gott í bílnum með kaffið mitt og Airwaves umfjöllun í útvarpinu í sólskininu hafði ég engan tíma til að njóta tónlistarinnar og drekka kaffið, umferðin gekk svo vel.

Annaðhvort er ég að sanna hér með að allt gangi betur þegar skapið er gott, lundin létt og stressið í lágmarki eða ég er að sýna fram á að reiði guðs hafi dunið yfir mig.

Þar sem ég er ennþá örlítið sár yfir að hafa ekki fengið að klára kaffibollann í góðu yfirlæti á rauðu ljósi í morgun kýs ég að halda það síðarnefnda.

föstudagur, október 05, 2007

Ég var að horfa á sjónvarpið með öðru auganu í gærkvöldi, einmitt þegar House var nýbyrjaður. House og félagar voru í óða önn að velta fyrir sér hvað gæti verið að drepa fólkið í þessum þætti og þetta er að sjálfsögðu allt textað á skjánum. Ég lít upp í örstutta stund og sé á textanum um það bil þetta: "Blablabla... Svartidauði (eða einhver jafn ólíklegur sjúkdómur)... bla bla.. Nei, það er frekar langsótt..." Ég hef mikinn áhuga á sjúkdómum hvers konar og hugsaði því lengi vel hvers konar sjúkdómur langsótt eiginlega væri, þá sótt hafði ég aldrei heyrt um fyrr. Nokkrum sekúndum síðar fannst mér ég ógeðslega fyndin.

miðvikudagur, október 03, 2007

Speki komandi vetrar

...O Wind,
If Winter comes, can Spring be far behind?
- Percy Bysshe Shelley