miðvikudagur, október 17, 2007

Þegar ég er að drífa mig eitthvert lendi ég nánast undantekningalaust á öllum rauðum ljósum, allir svína á mig, það eru bara leiðinleg lög í útvarpinu og allir nema ég sjálf keyra eins og fífl. Um daginn gekk þetta svo langt að það var búið að flæða yfir aðra akreinina í Suðurgötuhringtorginu og ég píndi litla bílinn í gegnum vatnselginn sem náði honum upp að "mitti", af því að ég var að drífa mig.
Stundum er ég svo engan veginn að drífa mig. Þá eru til dæmis rosalega skemmtileg lög í útvarpinu og ekkert nema gaman að syngja með, ljósin verða græn um leið og ég nálgast þau svo ég þarf varla að hægja á mér og allir keyra eins og englar. Þetta eru einmitt þau skipti sem ég vildi að umferðin gengi aðeins hægar. Ég átti til dæmis í morgun þennan fína rjúkandi heita kaffibolla í ferðamáli. Það var kalt úti og sól, ég var á leiðinni á Þjóbó og var því engan veginn að drífa mig neitt sérstaklega. Það er eins og við manninn mælt; þegar ég hafði það svona einstaklega gott í bílnum með kaffið mitt og Airwaves umfjöllun í útvarpinu í sólskininu hafði ég engan tíma til að njóta tónlistarinnar og drekka kaffið, umferðin gekk svo vel.

Annaðhvort er ég að sanna hér með að allt gangi betur þegar skapið er gott, lundin létt og stressið í lágmarki eða ég er að sýna fram á að reiði guðs hafi dunið yfir mig.

Þar sem ég er ennþá örlítið sár yfir að hafa ekki fengið að klára kaffibollann í góðu yfirlæti á rauðu ljósi í morgun kýs ég að halda það síðarnefnda.