fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Í Rachael Ray áðan var sýnt myndband frá konu sem hét Kitten Que Será. Hún átti bleikan hund sem hún litaði með matarlit. Þetta var eiginlega of súrt til að vera satt... en það kom ekkert fram að þetta væri grín. Kitten Que Será.. Kettlingur Það Sem Verður. Ái.

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Lay Low

Var að koma heim af einum af betri tónleikum minnis míns, Lay Low í Fríkirkjunni. Þetta var allt svo einlægt, notalegt og töff eitthvað.
Við vorum komnar vel snemma, heilum 40 mínútum fyrir tónleika og var þá sagt að húsið opnaði eftir 40 mínútur, tónleikarnir sjálfir byrjuðu ekki fyrr en rúmlega klukkutíma seinna. Nú jæja, klöngruðumst yfir andakúk og ég sparkaði í frosinn hundalort á leiðinni á Kaffi París. Gott vatnsglas maður, fullt af klökum. Fékk líka að gæða mér á nachosi með madness miklum osti. Amm.
Þegar við mættum aftur niður í Fríkirkju, 40 mínútum síðar var komin röð hálfa leið í kringum kirkjuna. Frábært, við sem höfðum mætt fyrstar af öllum. En þeir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu verða fyrstir og átti þetta svo sannarlega við um okkur. Þegar við nefnilega komumst loksins upp á efri hæðina og ætluðum að fara að tylla okkur á 3. röð=sjá ekki neitt, sáum við að orgelbekkurinn var laus. Þvílík hamingja! Fengum okkur sæti á orgelbekknum og allt fylltist í kringum okkur í öll sætin sem sáu ekki neitt. Haha, þetta var æði. Mættum með þeim síðustu inn og fengum klárlega bestu sætin í húsinu! Fengum að sjálfsögðu að mæta öfundaraugum tónleikagesta. Beljurnar á orgelbekknum maður.
Lay Low spilaði flest ef ekki öll lögin af disknum sínum og svo tvö eldri lög. Eitt cover-lag tók hún, You are my sunshine, og fékk alla kirkjuna til að syngja með sér.
Eftir þessa stórgóðu tónleika keyptum við Ásdís geisladiska og fengum þá áritaða hjá stúlkunni. Ekki amalegt þetta. Ég er alveg ótrúlega ánægð með að hafa keypt mér miða þótt það sé próf á morgun. Það er nefnilega alltaf svo gaman að uppgötva nýja listamenn sem maður finnur á sér að eigi eftir að fylgja manni lengi.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Öfugsnúið

Ég mætti í vinnuna klukkan 23:30 í gærkvöldi. Kolniðamyrkur úti. Var búin í vinnunni klukkan 8:00 í morgun. Ennþá var kolniðamyrkur og á heilum vinnudegi fékk ég ekki að líta dagsljós. Svo fór ég heim að sofa og þegar ég vaknaði klukkan 15:30 var byrjað að skyggja. Þá leið mér líka eins og það væri miðvikudagur og er ennþá að rembast við að fatta að það sé þriðjudagur. Ég kynntist lífi moldvörpunnar í nótt. Einkar öfugsnúið allt saman.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Í bókum les maður oft að vinnufólk hafi þurft að vakna fyrir sólarupprás til að gera hitt og þetta og blabla. Íslendingar hljóta þá að vera hetjur að vakna fyrir sólarupprás í hvað, 7 mánuði á ári kannski? Ekki er minnst á það í bókunum...
Það er líka ekki í lagi hvað ég er þreytt og á bágt með að opna augun þegar ég á að gjöra svo vel að vakna fyrir sólarupprás, þó að klukkan sé orðin svo mikið sem 9. Einnig er ég fullviss um að einbeitingarleysi eykst með lækkandi sól. Ég sver það, ég var ekki svona löt og þreytt í byrjun hausts, hvað þá í sumar. Oj þér myrkur.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Ooo, hvað það er gott að eiga gæsadúnsæng þegar það er komin vetrartíð, með veður köld og stríð. Enn betra er að liggja undir henni og horfa á snjókomuna úti fyrir. Notó.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Eftir miklar athuganir og vísindalegar tilraunir hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Arctic monkeys diskurinn Whatever people say, that's what I'm not er í rauninni mun betra verk en nýi Strokes diskurinn First impressions of Earth. Ég keypti þá á sama degi svo þetta er mjög réttlætanlegur samanburður. Á föstudögum fer ég oft að hugsa um eitthvað allt annað en ég á að gera... Þar hafiði það.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Einstaklega einstök

Ég hef stamað frá því ég var barn. Aldrei neitt sérstaklega mikið og ég er orðin einkar lunkin við að fela það þegar ég byrja. Yfirleitt gengur mér verr þegar ég tala útlensku, sérstaklega dönsku þar sem það þarf að skrolla svo mikið á errunum. Ég hef alltaf litið á stamið sem einstaklega óþolandi hluta af mínu annars ágæta lífi. Þar til núna. Ég hef uppgötvað að ég er nefnilega alveg einstaklega einstök.
Mörg börn stama en við 6 ára aldur er mikill meirihluti þeirra hættur því. Svo fækkar þeim og fækkar eftir því sem árin líða því þetta vex af flestum. Það er hins vegar einungis 1% mannkyns sem stamar fram á fullorðinsár. Þar af eru 80% strákar og 20% stelpur. Ef mér reiknast rétt til þá er ég því ein af 0,2% mannkyns með þennan talgalla, verandi fullorðin stelpa. Ég neita að skrifa kona, ég er sko engin kona.
Ég komst líka að því að ég er taugafræðilega afbrigðileg. Ég (og allir hinir fullorðnu stamararnir) notum hægra heilahvelið meira við að tala þó að það vinstra sé notað við tal. Hægra er tengdara tilfinningum og því notum við afbrigðilega fólkið fleiri tilfinningar tengdar talinu, til dæmis stress og hræðslu, spennumst upp í kjálkum og talfærum og gerum það að verkum að við komum ekki orðunum út úr okkur. (Tekið af www.en.wikipedia.org/wiki/stuttering)

Það er nú ekki á hverjum degi sem maður uppgötvar að maður sé keis...

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Ég eyddi tveimur þriðju af mánaðarlaunum mínum í stígvél úti í Kaupmannahöfn. Eitt par af stígvélum. Mér gengur samt eitthvað frekar illa að fá samviskubit yfir því, þau eru svo falleg.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Bíddu...

Þjóðarbókhlaðan hefur í gegnum tíðina kvartað undan miklum fjárskorti og sýnt hann í verki með til dæmis styttum opnunartíma. Um daginn var ég inni á klósetti í þessu húsi fjörsins þegar ég rak augun í ruslatunnuna sem er þar inni. Ef mér skjátlast ekki þá er svona alveg eins ruslatunna inni á öllum baðherbergjunum, sem eru hvað... að minnsta kosti 6 á fjórðu hæðinni, líklega jafnmörg á þriðju og svo einhver stykki á annarri. Svona ruslatunna, af gerðinni VIPP, kostar 17.000 kr. í Kokku á Laugaveginum. Þetta veit ég af eigin reynslu þar sem móðir mín skoðaði svona um daginn að mér viðstaddri.

Vott ðe fökk?