föstudagur, október 27, 2006

Vei!

Bláfjöllin bara orðin hvít, alveg skjannaskjannahvít.
Markmið vetrarins er að læra á snjóbretti. Eins gott að fjöllin haldist hvít sem lengst og verði það sem oftast í vetur. Vei!

miðvikudagur, október 25, 2006

Shine on you...

...crazy diamond. Þegar ég var á Hróarskeldu í sumar þá fór ég að hágráta (með ekka og öllu saman) þegar Roger Waters spilaði þetta lag. Ég hélt þetta væri tilfallandi aumingjaskapur, var að fara frá Danmörku daginn eftir og svona... En nei! Ég var í sakleysi mínu að hlusta á þetta lag í poddaranum í fyrradag og haldið þið ekki að það hafi trítlað nokkur tár við hlustunina! Ekki nóg með það heldur var ég með iPodinn á shuffle í bílnum í morgun, þetta lag kom og ég bara hætti að geta sungið með (eða þú veist, vælt með gítarspilinu mest allt lagið) því ég bara fór pínu að gráta.

Vitið þið, ég þori varla að hugsa til þess hvernig ég verð þegar ég verð orðin gömul, krumpuð og grá, hlusta á lagið og heyri: "Remember when you were young?/You shone like the sun". Þá verður bara annað syndaflóð... eð'eitthvað.
Annaðhvort er sorgin í laginu svona ofboðslega eðlilega sett fram að hún virki einmitt rétt á mig eða ég er bara óforbetranleg grenjuskjóða með hor. Hressandi.

fimmtudagur, október 19, 2006

Blóð, can't beat the feeling...

Ég fékk sms frá Blóðbankanum í morgun þar sem í stóð að þá vantaði sárlega blóð úr mínum flokki og hvort ég gæti ekki komið í dag að gefa. Ég fór í tíma og hugsaði svo með mér að það væri í rauninni ekkert vitlaust að ég færi bara að gefa blóð, ókeypis matur og svo er náttúrulega fátt skemmtilegra en að láta dæla úr sér fagurrauðum vökvanum og fá að horfa á það.
Ég fyllti út skýrsluna um sjálfa mig. Nú eru komin næstum tvö ár síðan ég gaf seinast blóð svo ég merkti við fleiri "já" en ég hef gert áður. Frá síðustu blóðgjöf hafði ég: Farið í bólusetningu (fyrir lifrarbólgu og taugaveiki), fengið hósta eða hita og ferðast utan Norðurlandanna. Annars var ég hressari en mörg fressin þessi síðustu tvö árin.
Hjúkrunarfræðingurinn kallar mig svo upp þegar ég er búin að maula nokkur ritzkex, drekka djús og borða rúsínur. Hún er voða indæl og skammar mig fyrir að hafa ekki komið oftar síðustu tvö árin.. Hohoho, hló ég. Hún réttir mér ópalpakka sem heitir ekki Ópal heldur Blóðsykur, svo ég geti nú borðað það þegar ég sé búin að gefa. Svo kíkir hún á skýrsluna og nefnir að ég hafi fengið hósta eða hita frá síðustu bljóðgjöf. Hún minnist ekki orði á bólusetninguna eða ferðalögin. Hvað veit hún nema ég hafi verið bólusett með skítugri nál og hafi stundað vændi á götum Havanaborgar?! Ég segist hafa fengið kvef á þessu tímabili já... Ekki óalgengt á þessu annars ágæta landi. Hún segir mér þá að ég sé ekki alveg búin að ná mér af kvefinu. Nú?? Ég hugsaði mig aðeins um, sagði henni svo að ég hefði verið með smá nefrennsli í dag vegna kulda. Hún segir mér að það sé sniðugast að ég komi seinna að gefa, svo ég nái mér almennilega af kvefinu, þó að það vanti sárlega blóðgjafa og ég hafi ekkert verið með kvef. Ég reyni í smástund að sannfæra konuna um að ég sé í alvörunni ekki veik, ég verði aldrei veik! Ekkert gekk og ég labbaði niðurlút út úr banka blóðsins með smá ritzkex og rúsínur í maganum en ekki jólakökuna og kaffið sem ég hafði hugsað mér. Og svo gleymdi ég líka ópalinu mínu.


Þess má þó geta að ég er ekkert að lasta Blóðbankann með þessari færslu. Mér finnst þetta dæmi um góð vinnubrögð hjá hjúkrunarfræðingnum. En þú veist... Ég var ekkert veik!

miðvikudagur, október 18, 2006

Dios mío...

Þessi 25 blaðsíðna langa saga á gamaldags spænsku á eftir að taka tímann sinn í lestri. Búin með 7 línur um presta og dýrðlinga... (eða ég vona allavega að þær fjalli um það) og er ekki frá því að það hafi tekið svona 20 mínútur. Fjöööör!

mánudagur, október 16, 2006

Ha ég??

Ég tók Októberfest á skynseminni og fór á bíl. Kvöldið var ágætt, eins ágætt og bláedrú kvöld innan um ekki svo bláedrú fólk getur orðið. Þegar gamanið var að klárast og ég var komin með fullt af farþegum í bílinn löbbuðum við Una, Önni og Hanna Rut út í grenjandi rigninguna og rokið í áttina að bílnum mínum. Þegar ég ætlaði að fara að opna hann þá var lykillinn horfinn! Ég hljóp inn, fékk loksins að fara inn í tjaldið eftir að hafa suðað í dyravörðunum, fékk fullt af fólki í lið með mér til að leita að bíllyklinum, leitaði allt í kringum borðið sem við sátum á... en enginn lykill. Þegar ég kom aftur út hugsaði ég í eitt lítið augnablik hvort ég hefði nokkuð getað verið svo óendanlega utan við mig að gleyma lyklinum í svissinum... Nei, ekki ég! Aldrei!! Þegar ég leit svo inn í bílinn fékk ég staðfestingu á óendanleguutanviðsigheitunum þar sem lykillinn hékk sæll og glaður í svissinum. Jibbí, húrra og gaman gaman. Bíllinn harðlæstur og ég föst niðri í bæ að fara að vinna daginn eftir. Sem betur fer kom bróðir minn elskulegur og sótti mig og lánaði mér bílinn sinn alla helgina á meðan hann var að hlaupa á eftir kindum um sveitir landsins.

Nú á eftir fæ ég vonandi bílinn minn aftur en fyrrnefndur bróðir ætlar að reyna að opna hurðina með heljarafli og hugviti... Veit ekki með áhöld ennþá. Diskóbíllinn Dice fær þá loksins að koma aftur heim. Næstu helgi langar mig að mála Dice röndótta. Og aldrei læsa lyklana mína inni aftur. Kannski maður láti bara smíða aukalykil. Það er í athugun...

laugardagur, október 07, 2006

Jibbíkóla!!!

Móðir mín elskuleg sendi mér rafpóst nokkurn fyrir þremur dögum síðan. Hann innihélt tilboð um ferð til Kaupmannahafnar á megatilboði. Hún titlaði póstinn: "Hæ, sendi þetta að gamni." Nú varð gamanið sko mikið því ég pantaði mér bara ferð til kóngsins Köben þann 2. nóvember! Þar verður einmitt julefrokost með lýðháskólakrökkunum 4. nóvember svo ég er einmitt að fara á réttum tíma. Ég fæ fría gistingu hjá Louise og þetta verður svo gaman!! Ég get varla setið kyrr fyrir spenningi. Best að iða þá bara í allt kvöld og fara að fá mér bjór!

Ííííí, ég er svo glöð!!

P.s. Ég afsaka ofnotkun upphrópunarmerkja. Mér fannst setningarnar bara annars ekki vera nógu... upphrópaðar. Og broskallar eru asnalegir... Æ, þetta er fínt.

þriðjudagur, október 03, 2006

Mér er illt af illsku heimsins eftir að hafa verið látin horfa á myndina Tesis fyrir málnotkunartíma í gær og ég tala nú ekki um eftir að hafa horft á Road to Guantanamó og fengið að heyra svör við spurningum áhorfenda frá fórnarlömbunum sjálfum. Ææææ, hvað fólk getur verið vont við hvert annað. Eigum við alltaf að vera góð við hvert annað?? Aldrei að senda hvert annað í fangabúðir eða myrða hvert annað fyrir framan myndavél... Þú veist, bara svona svo þetta sé á hreinu, svo ég geti sofið í nótt.