mánudagur, október 31, 2005

BúdapestBúdapest er stórkostleg borg. Stórkostleg segi ég.
Búdapest er borgin þar sem hljóðfæraleikarar eru á hverju götuhorni, annaðhvort að spila eða ganga um með hljóðfæri á bakinu. Mest sá ég af fiðlum. Það var gaman.
Í Búdapest gengur allt hratt fyrir sig. Stigarnir ofan í neðanjarðarlestina fara á mega-speed, nauðsynlegt var að hoppa á stigann og grípa í handriðið svo maður hryndi ekki niður. Hurðin inn á hótelið snerist svo hratt að ég sá nokkra kremjast á milli stafs og hurðar. Færibandið á flugvellinum gekk svo hratt að við vorum ekki komin út úr flugvélinni þegar allar töskurnar voru búnar að fara nokkra hringi á færibandinu.
Í Búdapest fórum við Ómar á Terror safnið, gamla lögreglustöð sem notuð var við yfirheyrslur gyðinga á vondum tímum. Þar var völundarhús þar sem veggirnir voru búnir til úr sápustykkjum. Ég túlkaði það á versta veg. Þar voru líka upprunalegir fangaklefar sem ég sagði að væru fullir af draugum því mér leið svo illa þar niðri. Ómar sagðist ekki trúa á drauga og ég sagði að hann væri vitlaus. Niðri í fangaklefunum fór ég inn í einangrunarklefa, það var ekki hægt að setjast niður né snúa sér við. Bara standa og horfa annað hvort beint fram, til hliðar, upp eða niður. Ég fór næstum því að gráta.
Í Búdapest fór ég í siglingu á Dóná. Borgin er allt önnur borg að kvöldi en að degi. Það var stórkostlegt.
Í Búdapest var allt ódýrt og gott. Og mér fannst það gaman.
Í Búdapest var gaman því þar leika allir saman.
Í Búdapest sá ég með eigin augum konu dansa nektardans í fyrsta skipti. Reyndar í gegnum gardínu á glugganum sem sneri út að götu en það var meira en nóg fyrir mig. Í þessari sömu borg umgekkst ég líka í fyrsta (og vonandi síðasta skipti) menn sem ég veit að keyptu sér þjónustu þessara sömu kvenna á næturna.
Í Búdapest fór ég með lest undir Dóná og fór í borgarferð þar sem ég fékk fræðslu um sögu borgarinnar. Sagan er að mestu leyti blóðug og ljót. Borgin er hinsvegar stórkostlega falleg.
Í Búdapest var ég í 20 stiga hita á föstudeginum. Sama dag var ofsaveður á Íslandi. Ég hló og hló og hló og sólaði mig svo aðeins.

Í þessari færslu hafa orðin Búdapest og Stórkostleg(a) verið notuð óspart. Ég kalla það stíl.

þriðjudagur, október 25, 2005

Fjör

Ég er búin að vera með fjörfisk á milli hægri handakrika og hægra brjósts öðru hvoru í allan dag. Það er óþægilegt og það sést! Ég er tilkippileg í dag. Noh.. Þarna byrjar fiskurinn aftur að fjörvast.

miðvikudagur, október 19, 2005

Ég fékk rör í vinstra eyrað í dag. Alveg eins og litlu börnin. Ég var deyfð með kremi sem var spýtt inn í eyrað á mér úr eins konar sprautu. Deyfingin virkaði hins vegar ekkert geypilega vel því mér fannst ég finna fyrir öllu sem læknirinn gerði. Einum of vel meir að segja. Eftir að ég var búin að segja ÁI!! nokkrum sinnum og var byrjuð að gráta af sársauka sagði læknirinn: ,,Hmm, ég er kannski að nota of stóra töng. Ég er búinn að vera að rekast í hlustina á þér og þess vegna er þetta svona vont." Mér stökk ekki stórt bros.
Núna hins vegar ætti ég að geta tekist á við næstum hvað sem er hvað þrýstingsmálin snertir. Ég ætla að njóta þess að fljúga til Búdapest eftir rúma viku og vona að hljóðhimnan sleppi því að springa í það skiptið. Hlutinn fyrir heildina krakkar mínir!!

Ég var að lesa Séð og heyrt frá 2003 á biðstofunni á Háls, nef og eyrnadeildinni (hvað er málið með gömul tímarit og læknabiðstofur?) og þar var minnst a Paris Hilton. Og hún var kölluð sukkpadda. Og ég hló upphátt.

föstudagur, október 14, 2005

Erherrherr

Íslenski bachelorinn=Stanslaus aulahrollur. Ég kúgast næstum því á öllum þessum hrolli.
Og af hverju heitir þetta íslenski bachelorinn??? Af hverju heitir þetta ekki bara Piparsveinninn?? Er þetta ekki nógu kjánalegt án þess að það þurfi að búa til eitthvað orðskrípi til að það fari nú örugglega ekki á milli mála að þetta sé nákvæmlega eins og bandaríski þátturinn? Errherreherr... Því þannig heyrist í aulahrolli.

miðvikudagur, október 12, 2005

Babb í bátinn

Nú styttist óðum í brottför til Jamaica og við Sigrún lesum Lonely planet eins og aðrir lesa myndasögur... Já. EN... Ég er hrædd. Díses hvað karlmenn geta verið miklir asnalabbar. Konur semsagt eru afar eftirsóknarverð fórnarlömb allskyns glæpa þarna úti, í bókinni er alltaf talað um að fólk eigi að fara varlega en konur... þær þurfi að fara miklu miklu varlegar en karlmenn. Nauðganir eru algengar, einni konu var nauðgað af öryggisverði sem hún leitaði til, vopnuð rán, mannrán og morð er brot af því sem minnst er á í bókinni. Kona sem dvaldi í læstu herbergi í ferðamannabænum Negril er talin af en hún hvarf árið 2000. Kona var drepin af krókódíl 2001, nú þarf maður að fara að passa sig á dýrunum líka því þau vita greinilega hvað þau eru að gera. Nauðgunarlyf á börum færast í aukana og svo framvegis og svo framvegis. Einnig er tekið fram að kakkalakkarnir eru skrímsli. Ekki hættuleg skrímsli en skrímsli samt sem áður. Ég er næstum því jafn hrædd við þá og ógeðsmennina.

Okkur flaug í hug að auglýsa eftir karlkyns ferðafélaga til að létta okkur lífið en Sigrún heldur að sá yrði morðingi eða eitthvað þannig. Því datt okkur í hug að auglýsa óbeint hér hvort einhvern stæðilegan karlmann langaði ekki að pæla í að skreppa til Jamaica og Kúbu í nokkrar vikur?

Duggudugg.. Báturinn siglir þrátt fyrir babb.

föstudagur, október 07, 2005

Kæró er bara í London.. Hann er þar lon og don eins og maðurinn sagði. Kæró er í heimsókn hjá æskuvinkonu minni henni Ragnheiði. Konurnar í vinnunni segja að þetta sé samsæri. Ég er ekki alveg viss. Á meðan kæró er í London keyri ég um á glænýjum sportara með topplúgu og einkanúmeri. Alveg eins og sannri læknisfrú involveraðri í samsæri sæmir. Þetta væri geggjuð bíómynd.

sunnudagur, október 02, 2005

Getur einhver...

...útskýrt fyrir mér hvernig fólkið sem ég skúra fyrir fer að því að kúka undir bæði setuna sem það situr á og setuna sem lokar klósettinu? Þetta er mystería af bestu gerð.