fimmtudagur, apríl 19, 2007

Draumfarir og sumarfrí

Ég vaknaði frekar pirruð í morgun. Mig dreymdi að ég hefði verið stödd á Hróarskeldu með Hrafnhildi. Við vorum eitthvað ekki alveg á sömu bylgjulengd í sambandi við þessa hátíð og hún vildi bara skoða bæina í kring og vera í einhverri menningarferð. Við vorum bara endalaust að keyra eitthvað og skoða kirkjur, hún voða áhugasöm á meðan ég æpti á hana að við værum búnar að missa af Björk! Og The Who! Æ, nei Hrafnhildur, Muse er að byrja!! Guð hvað ég var pirruð út í þig Hrafnhildur mín. Svo er ég líka nýbúin að uppgötva Spider-kapalinn í tölvunni og var að spila hann í mestalla nótt í draumi. Jeminn eini.

Þegar ég var búin að sætta mig að þetta hefði bara verið draumur og Hrafnhildur væri ekki alslæm eftir allt saman komst ég í hið besta skap, sólskin úti og fuglasöngur. Fór niður í eldhús og fékk mér morgunmat. Þar var móðir mín stödd að lesa blaðið. Rak hún augun í auglýsingu um gönguferð til Comovatns á Ítalíu í lok ágúst. Um hálftíma síðar vorum við búnar að bóka okkur í ferðina ásamt Kristínu móðursystur minni. Það er ekki lengra síðan en í gær að ég var að segja að ég væri hreinlega ekki með neitt planað fyrir sumarið, á algjörum bömmer. Svo kom Sumardagurinn fyrsti og þá greinilega mátti ég fara að hugsa um sumarið. Ætli draumurinn boði líka Hróarskelduferð? Hver veit...

Svei mér þá, sumarið byrjar vel að þessu sinni. Gleðilegt sumar!


Hver veit nema ég reki augun í þessa fögru sjón á göngu minni í sumar.

mánudagur, apríl 16, 2007

Sjálfsvorkunn

Ég er búin að monta mig af því í nokkurn tíma núna að ég skuli hreinlega aldrei verða veik. Búin að segja það í atvinnuviðtölum og allt, segist standa af mér allar pestir. Nú er hins vegar komið babb í bátinn. Manneskjan sem verður aldrei veik er greinilega ekki með svona svakalega sterkt ónæmiskerfi, það er bara svona lengi að bresta. Ég var stödd í heitum potti í sumarbústað á Stykkishólmi um helgina þegar ég fann nefið og hálsinn stíflast upp með tilheyrandi gleði. Fór að sofa og vonaði að þetta væri bara tilfallandi og ég gæti bara sofið þetta úr mér. Í gær vaknaði ég verri, fann ógeðið dælast inn í kinnholurnar á mér, hausinn stíflast allan upp, fékk verk í tennurnar og fann sjálfsvorkunnina streyma inn í líkamann. Kinnholuhausverkurinn er sá sami í dag, hitamælirinn segir að ég sé með 35,5°C hita, ég tek því sem ég sé að deyja, velti þó líka fyrir mér hvort hitamælirinn sé bilaður.

Ég held að líkaminn minn sé að refsa sjálfumgleðinni í mér þar sem ég hef horft á fólk í kringum mig hrynja niður í pestir á meðan ég hef ekkert fengið. Frábært hjá líkamanum að gera þetta einmitt þegar mig vantar hausinn minn í að lesa upp gamlar gamlar syndir. Foj.

þriðjudagur, apríl 10, 2007

Sveitt

Sviti. Nauðsynlegur hluti mannslíkamans býst ég við. Ekki viljum við nú vera eins og svínin. Onei. En, eigum við að minnast á pirringsgildi hans?
Ég fór í Smáralindina um daginn og keypti mér voða fínan kjól. Ljósbláan að lit. Ég hugsaði í búðinni: "Þessi ljósblái litur er afskaplega óhentugur svitablettalitur." Svo gleymdi ég því og keypti kjólinn. Á laugardaginn prufukeyrði ég kjólakjól. Stödd í fimmtugsafmæli þar sem var sitjandi stemning með rauðvín og góðum mat, svo ég tali nú ekki um góða ættingja. Ég fór á klósettið einhverntímann um kvöldið og þegar ég leit í spegilinn mundi ég eftir hugsun minni í búðinni. Ég hafði rétt fyrir mér, þetta var einstaklega óheppilega litaður kjóll. Við erum samt ekkert að tala um að svitinn hafi lekið af mér neitt, þetta var sitjandi veisla, heldur að ég hefði ekki mátt lyfta handleggjunum mikið. Ég ákvað að taka þetta á kúlinu, setti pappírsþurrku inn á kjólinn og fór fram, meðvituð um það að lyfta handleggjunum ekki mikið. Nú lyftir maður handleggjunum kannski ekki mikið svona almennt þegar maður situr og spjallar við fólk en það er samt heftandi að þurfa að hugsa um það að lyfta þeim ekki. Eftir nokkur rauðvínsglös í viðbót var ég alveg búin að gleyma þessu vandamáli og var það vel. Þegar ég fór aftur á klósettið fann ég ekki pappírsþurrkuna sem ég hafði sett inn á kjólinn. Ný pappírsþurrka, fram, drekka meira.

Til að gera langa svitasögu stutta: Þegar ég kom heim og fór úr kjólnum þá hrundu þónokkrar pappírsþurrkur niður úr kjólnum. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi tekið eftir svitablettavandamálinu mínu. Kannski er fólk ekkert almennt að segja frá þannig hlutum en ég kýs að halda að fólk hafi bara ekki séð þetta. Já.

Hvað getur maður gert í svona aðstöðu? Ég man eftir að hafa spurt leiklistarkennarann minn að þessu úti í Danmörku því það var alveg einstaklega heitt á sviðinu og við allar í ljósgrænum kjólum, þetta var viðvarandi vandamál hjá okkur öllum. Hann sagði að leikarar ættu stöðugt í vandræðum með þetta og hefðu komið með margar leiðir til að fela þetta, til dæmis með því að setja límband í handakrikana. Endaði þessi ráðlegging með því að við vorum nokkrar sem settum teip í handakrikana fyrir sýningu. Það leysti vandamálið en jeminn hvað það var vont að taka þessa lausn af. Mæli ekki með þessu, enda notaði ég ekki þessa lausn á laugardaginn.

Ef einhverjum fannst þessi færsla asnaleg, óþörf eða ógeðsleg getur sá hinn sami bitið í sig. Eftir mánaðarbloggpásu er erfitt að koma sér í gírinn aftur. Færslan varð að innihalda eitthvað djúsí eða krassandi, sbr. svitann.