Búdapest
Búdapest er stórkostleg borg. Stórkostleg segi ég.
Búdapest er borgin þar sem hljóðfæraleikarar eru á hverju götuhorni, annaðhvort að spila eða ganga um með hljóðfæri á bakinu. Mest sá ég af fiðlum. Það var gaman.
Í Búdapest gengur allt hratt fyrir sig. Stigarnir ofan í neðanjarðarlestina fara á mega-speed, nauðsynlegt var að hoppa á stigann og grípa í handriðið svo maður hryndi ekki niður. Hurðin inn á hótelið snerist svo hratt að ég sá nokkra kremjast á milli stafs og hurðar. Færibandið á flugvellinum gekk svo hratt að við vorum ekki komin út úr flugvélinni þegar allar töskurnar voru búnar að fara nokkra hringi á færibandinu.
Í Búdapest fórum við Ómar á Terror safnið, gamla lögreglustöð sem notuð var við yfirheyrslur gyðinga á vondum tímum. Þar var völundarhús þar sem veggirnir voru búnir til úr sápustykkjum. Ég túlkaði það á versta veg. Þar voru líka upprunalegir fangaklefar sem ég sagði að væru fullir af draugum því mér leið svo illa þar niðri. Ómar sagðist ekki trúa á drauga og ég sagði að hann væri vitlaus. Niðri í fangaklefunum fór ég inn í einangrunarklefa, það var ekki hægt að setjast niður né snúa sér við. Bara standa og horfa annað hvort beint fram, til hliðar, upp eða niður. Ég fór næstum því að gráta.
Í Búdapest fór ég í siglingu á Dóná. Borgin er allt önnur borg að kvöldi en að degi. Það var stórkostlegt.
Í Búdapest var allt ódýrt og gott. Og mér fannst það gaman.
Í Búdapest var gaman því þar leika allir saman.
Í Búdapest sá ég með eigin augum konu dansa nektardans í fyrsta skipti. Reyndar í gegnum gardínu á glugganum sem sneri út að götu en það var meira en nóg fyrir mig. Í þessari sömu borg umgekkst ég líka í fyrsta (og vonandi síðasta skipti) menn sem ég veit að keyptu sér þjónustu þessara sömu kvenna á næturna.
Í Búdapest fór ég með lest undir Dóná og fór í borgarferð þar sem ég fékk fræðslu um sögu borgarinnar. Sagan er að mestu leyti blóðug og ljót. Borgin er hinsvegar stórkostlega falleg.
Í Búdapest var ég í 20 stiga hita á föstudeginum. Sama dag var ofsaveður á Íslandi. Ég hló og hló og hló og sólaði mig svo aðeins.
Í þessari færslu hafa orðin Búdapest og Stórkostleg(a) verið notuð óspart. Ég kalla það stíl.