föstudagur, maí 26, 2006

Hættið nú alveg!

Í kvöld var í síðasta skipti sem ég sýni Dönunum kvikmynd sem mér finnst frábær. Ég enda greinilega alltaf með brostið hjarta, með engan til að tala um myndina við.

Stelpurnar voru semsagt ekki í partýstuði í kvöld og fengu þær að koma upp á herbergið mitt til að sjá hvaða myndir ég ætti. Þær höfðu séð margar af þeim en eina hafði engin þeirra séð og þar sem ég mælti hiklaust með henni tókum við The Notebook úr hillunni og komum okkur fyrir uppi í sjónvarpsherbergi. Eftir hálftíma af myndinni fór ein að tala um hvað þetta væri fáránlega langdregin mynd. Hinar voru allar sammála. Svo fóru þær að gera grín að öllum atriðunum. Ég varð án gríns móðguð. Eftir smástund sofnaði svo ein og önnur fór upp í herbergi að sofa í miðri mynd. Þegar myndin var búin voru þær allar sammála um hvað þetta hefði verið ömurlega leiðinleg kellingamynd.

Afsakið fyrirgefðu... Nú vita flestir sem þekkja mig að ég ætti að vinna sem umbi fyrir þessa mynd. Falleg ástarsaga um fullkomna ást sem við flest okkar eigum aldrei eftir að kynnast. Dönsku stelpunum fannst hún svo væmin og asnaleg, fannst ekki nógu mikið gerast í henni. Það er stundum eins og fólk þoli ekki smá ást og rómantík á skjánum án þess að það fari að tala um væmni. Hvar er ástarþráin stelpur?? Oft eins og ef það er ekki stanslaus hasar í myndinni haldi fólk ekki út að sitja og horfa, eins og það geti þá ekki gert sér grein fyrir söguþræðinum.

Iss piss... Þó þeir dagar séu taldir að ég sýni dönsku stelpunum eina af mínum stórkostlegu kvikmyndum, hefði átt að segja stopp eftir hörð viðbrögð gegn aumingja Napoleon Dynamite, þá held ég áfram að gráta yfir endinum á Notebook sko... Ég er sko ekkert hrædd við væmni. Þoriði í mig eða???

mánudagur, maí 22, 2006

Ný færsla!

Kominn tími á að blogga?? Jú, ætli það ekki.

Tíminn minn hér í Danmörku er farinn að styttast óþægilega hratt. Ég á bara tæpar 4 vikur eftir af skólanum, eftir tæpar 7 vikur verð ég komin heim. Ég vissi eiginlega ekki að tíminn gæti liðið svona hratt. Eins gott að njóta þessara seinustu vikna.

Lífið gengur annars sinn vanagang, þannig séð. Leikritið okkar er smátt og smátt að smella saman. Erum að verða búin að setja það allt saman og gengur bara ágætlega. Nú er frumsýning eftir tvær vikur svo við verðum víst að nýta tímann vel til að verða okkur ekki til skammar. Það hlýtur að ganga upp.
Ég kom svo frá London í gær, búin að vera í heimsókn hjá Röggu síðan á fimmtudaginn. Við höfðum það voða gott, fórum í tvö íslensk Eurovision partý, út að borða á mexíkanskan stað, röltum í Notting Hill og fórum á Portobello Road markaðinn. Auðvitað tókst manni líka að versla pínu. Óhjákvæmilegt alveg hreint. Ég flaug svo til baka til Danmerkur í gær. Að sjálfsögðu seinkaði fluginu sem gerði það að verkum að ég missti af síðustu lest heim frá Århus. Þar sem síminn minn hafði neitað að hlaða sig í London var ég símalaus og gat því ekki tekið lest áleiðis og hringt á leigubíl. Þetta allt saman gerði það að verkum að ferðin varð 5000 kr. dýrari en ella þar sem leigubíll frá Århus var eina leiðin heim. Heldurðu að það sé týpískt... Hvað sem því líður þá voru þetta frábærir 4 dagar. Takk fyrir mig Ragga!

Ég var annars voða glöð með úrslitin í Eurovision. Hélt voða mikið með Finnunum og fannst þeir virkilega töff. Fannst reyndar ferlega skrýtið að vera ekki stödd heima á Íslandi með Eurovision nördunum mínum, Bryndísi og Kristínu. En alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt!
Hér í skólanum var líka Eurovision partý. Af því frétti ég í gær. Þegar allur skólinn sat saman niðri á kaffihúsi að horfa á keppnina kom þjófur/þjófar upp á Bláa gang og var þaðan stolið úr ólæstum herbergjum 4 fartölvum, 5 símum, tveimur veskjum og einhverjum iPodum. Þar sem herbergin voru ólæst fá krakkarnir engar bætur frá tryggingunum og löggunni finnst þetta næstum ekki nógu merkilegt til að koma á staðinn. Alveg ótrúlegt.
Þetta finnst mér samt í rauninni svolítið merkilegt því alveg frá degi eitt hef ég læst herberginu mínu á eftir mér. Ekki af þeirri ástæðu að ég treysti ekki krökkunum heldur þeirri að það getur hver sem er labbað inn frá götunni þegar við erum í tímum eða öll saman. Ég þakka mínum sæla fyrir þetta núna. Þjófarnir komu ekki inn í húsið sem ég bý í en það hefði alveg eins getað gerst. Þá hefði ég verið fartölvu fátækari og um það bil 2000 myndum. Ég veit ekki hvað ég hefði gert!
Þetta atvik er búið að skekja skólann svolítið, fólk í sjokki og allir búnir að læsa herbergjunum sínum í dag. Vona bara að fólk haldi því áfram út tímann, hætt við að fólk hætti því eftir smá tíma. Mitt verður allavega læst áfram.

Núna er ég í Manuskript tíma, á að vera að skrifa enda á söguna mína, er bara eitthvað svo ferlega löt. Svaf svo lítið í nótt og gleymdi að fá mér kaffi í morgun. Þessi færsla ber þess kannski vitni.
Fyrirgefið mér bloggleti og léleg skrif.

P.s. Í morgun í morgensamling var indverskur maður að halda fyrirlestur og mig langaði ótrúlega mikið í indverskan mat allan tímann. Fann bragðið af karrýrétt og naanbrauði... Er ekki allt í lagi með mig???

sunnudagur, maí 07, 2006

Radiohead


Úff, hvar á ég að byrja?

Ég er svo orðlaus og algjörlega sátt við lífið í dag. Ég hugsaði með mér nokkrum sinnum í gær: ,,Nú gæti ég dáið hamingjusöm."
Eftir sjö ára bið, ef mér telst rétt til, sá ég þá loksins standa á sviði. Allt sem mig hafði dreymt að þetta gæti hugsanlega verið var þarna. Ef ég hefði fengið að setja saman playlistann þá hefði hann verið nokkurn veginn nákvæmlega eins og hann var hjá þeim í gær. Ég er ennþá í svo mikilli sæluvímu og finnst heimurinn ofboðslega fallegur í dag.

Við Louise og Kirsten vorum mættar upp í KB hallen fyrir sexleytið í gær. Fórum í næstu búð og keyptum kaldan bjór og settumst svo í sólina fyrir utan húsið ásamt um 600 öðrum tónleikagestum. Það var strax komin stemning í fólk og eftir smástund var ég orðin eitt stórt bros bara af því að vera þarna með miðann minn í hendinni. Klukkan 19 voru svo dyrnar opnaðar og ég komst að því að KB hallen er bara alls ekki stór. Minni en Laugardalshöllin held ég meir að segja. Það var ég ánægð með. Þrátt fyrir að ég væri komin inn var ég þó ekki enn búin að átta mig á hvað væri að fara að gerast, ég var spennt en ekki alveg komin inn í þennan (ó)raunveruleika. Þar sem ég er um það bil höfðinu hærri en bæði Louise og Kirsten, þó ég sé ekki sérstaklega há í loftinu, ákváðum við að setjast í stúkuna. Við sátum fremst í stúkunni með stórt gólfpláss fyrir framan okkur, að okkar mati á besta stað. Það besta var þó að við okkur blasti allt sviðið, það var held ég í fyrsta skipti á ævinni sem ég fer á tónleika og næ að sjá allt sviðið. Það vorum við ánægðar með. Markmiðið var að njóta þess í botn að sjá allt og heyra.
Um upphitunina sá Willie Nelson, bandarískur sveitasöngvari, og stóð hann sig vel þó að fólk hefði í rauninni ekki nennt mikið að hlusta á hann. Það var ekki komið til þess. Þegar hann var búinn að spila hlupum við Louise fram að kaupa bjór. Biðum í röð í um það bil kortér að fara yfir um af stressi um að missa af byrjuninni. Loksins fengum við bjórinn, hlupum inn í sal og um leið og við stigum inn slökknuðu ljósin og salurinn sprakk af fagnaðarlátum. Við hlupum í sætin og vorum nýsestar niður þegar þeir löbbuðu inn og einmitt þá skall það á mér hvað væri að fara að eiga sér stað. Ég held ég hafi aldrei verið eins nálægt því að fá flog af geðshræringu. Þeir komu sér fyrir og byrjuðu á Everything in its right place, fyrsta laginu af Kid A. Ég fór að hágráta. Fyndið með tónlist hvað hún hefur mikil áhrif á mann. Mig minnir að næst hafi þeir spilað Planet Telex af The Bends. Mig minnir líka að ég hafi ekki getað hætt að brosa og klappa alla tónleikana.
Ég man ekki alveg allan playlistann, og alls ekki í réttri röð. Mig minnir þó að næst hafi þeir spilað nýtt lag. Þeir spiluðu 5 eða 6 ný lög, hvert öðru betra. Besta lagið við þessa fyrstu hlustun var að mínu mati lag sem innihélt klapp næstum allan tímann. Ed O'Brien klappaði með þegar hann var ekki að spila og fékk allan salinn með.
Stuttu eftir þetta kom svo, mér að miklum óvörum, svo miklum að ég æpti þegar það byrjaði, Karma Police. Í geðshræringunni greip ég símann, hringdi til Íslands og leyfði Bryndísi að vera þess heiðurs aðnjótandi að hlusta með. Að sjálfsögðu fór ég aftur að gráta í þessu lagi. Ekki að þetta sé endilega besta lagið með þeim en ég og allir þarna inni þekktum það bara svo vel að það varð svo yfirþyrmandi að fá að heyra það live.
Ég bjóst ekki við að þeir myndu spila mikið af gömlu lögunum þar sem það er að koma út nýr diskur, en þarna skjátlaðist mér algjörlega. Lag eftir lag eftir lag fékk ég sæluhroll um allan líkamann, hló upphátt, táraðist og lifði mig svo algjörlega inn í öll þessi gömlu góðu lög. Radiohead eru búnir að fylgja mér svo lengi, í gegnum öll mótunarárin í rauninni. Ólíkt flestri annarri tónlist sem ég hlustaði á á því tímabili þá hlusta ég hins vegar ennþá af jafn mikill ástríðu á Radiohead. Mér finnst þeir ólýsanlega stórkostleg hljómsveit.

Gömlu lögin (getur verið að það vanti eitthvað)

Af OK Computer: Paranoid Android, Let Down, Karma Police og Lucky.
Af The Bends: Planet Telex, The Bends (í því lagi söng Thom Yorke ...talking to my girlfriends when ever something happens... (í staðinn fyrir girlfriend) baðaði út höndunum mót salnum og eignaðist þar með um það bil 2000 nýjar kærustur) og Street Spirit (aftur fór ég að gráta. Ætlaði að hringja í þig Una mín í þessu lagi, en ég er ekki með bandaríska númerið þitt. Því miður miður miður).
Af Kid A: Everything In Its Right Place og Idioteque.
Af Amnesiac: Pyramid Song og You And Whose Army? (Djöfull var það flott!)
Af Hail To The Thief: There There (The Boney King of Nowhere) og A Wolf At The Door (It Girl. Rag Doll)

Ég held að þeir hefðu varla geta valið þetta betur.

Hljómsveitin sjálf var mjög flott á sviðinu. Öðruvísi en ég bjóst við í rauninni. Strax í fyrsta laginu stóð Thom Yorke upp og byrjaði að dilla sér við tónlistina. Aldrei hefur mér fundist hann kynþokkafullur... Fyrr en nú. Hann hreyfði sig svo skemmtilega innilega í takt við tónlistina. Hann var duglegur að fá fólkið með í lögunum. Í You And Whose Army? var hann með litla myndavél á míkrófóninum og lék sér að því að fara með augun, munninn, allt andlitið alveg upp að henni svo allir skjáirnir voru ekkert nema Thom Yorke. Svo náði hann að stjórna áhorfendunum svo algjörlega. Ef hann lyfti hendinni klöppuðu allir og æptu en þegar hann gaf merki um að stoppa þá stoppuðu allir á nákvæmlega sama augnabliki. Það var magnað.
Jonny Greenwood lifði sig ofboðslega mikið inn í tónlistina og var ekki mikið að hafa sig í frammi. Gaman að fylgjast með honum því hann var svo mikið inni í augnablikinu. Í There There (The Boney King of Nowhere) fengu hann og Ed O'Brien báðir trommur fyrir framan sig og trommuðu alla byrjunina. Það var svo flott.
Ed O'Brien var duglegur að koma af stað klappi og fagnaðarlátum.
Colin Greenwood var lítið áberandi.
Phil Selway trommaði vel.

Þeir létu klappa sig upp tvisvar sinnum. Það kom mér á óvart því ég hélt, af einhverri ástæðu, að þeir væru ekki uppklappstýpurnar. Mig minnir að í fyrra uppklappi hafi þeir spilað meðal annars Paranoid Android sem ætlaði allt um koll að keyra. Í seinna uppklappi spiluðu þeir svo bara eitt lag, lag sem hefði ekki getað verið betur valið, en það var Lucky.
Svo þökkuðu þeir vel og lengi fyrir sig með hendur fyrir eyrum því þakið ætlaði af húsinu. Þvílík stemning!

Í gær uppfylltist langþráður draumur. Eitt af lífstakmörkum mínum hefur verið náð. Ég veit að þetta er háfleygt en ég meina þetta svo algjörlega. Ég er svo sátt við lífið í dag.


þriðjudagur, maí 02, 2006

Tirsdagshygge

Ég er búin að tala oft um Napoleon Dynamite síðan ég kom hingað út. Ég hef reynt að vitna í Little Britain. Ég hef sagt: ,,Æ, þetta var alveg eins og í Office!" og ekki fengið svar. Ekki einn einasti Dani hefur vitað hvað ég var að blaðra um. Um daginn var ég svo í plötubúð í Silkeborg og það fyrsta sem ég sá í búðinni var að sjálfsögðu Napoleon Dynamite á eingöngu 49 danskar krónur, sem ég áleit að sjálfsögðu kjarakaup. Síðan ég keypti myndina er ég búin að tala um við nokkrar stelpur hvað þetta væri fyndin mynd, ég hefði grenjað úr hlátri yfir henni og så videre. Þær voru orðnar spenntar og í kvöld settumst við niður fyrir framan tölvuna mína með Haribo slik í skál og kveiktum á myndinni.

Í stuttu máli: Ég hló og hló. Þær flissuðu af og til. Eftir myndina sögðu þær að þetta hefði verið skrýtin mynd. Svo sögðu þær að ég væri skrýtin.

Iss. Ég man nú ekki betur en ég og annað gott fólk höfum veinað af hlátri þegar ég sá myndina fyrst heima á Íslandi. Æ, Danir eru dúllur. Þó þau hafi aldrei heyrt um Little Britain, The Office eða Napoleon Dynamite. Þau eru nefnilega alltaf bara að dúllast eitthvað með sjálfum sér í staðinn. Ossa kjút.