sunnudagur, júní 18, 2006

Tilfinningarússibanareið

Frumsýningardagur: Klukkan eitthvað um 18:00 fær Thyge, ein leiklistarspíran, símhringingu frá stráknum sem minnst er á í síðustu færslu þar sem hann tilkynnir okkur það að hann sé fastur í lestinni einhversstaðar á Fjóni vegna bruna á leiðinni. Hann komi ekki fyrr en 20:00-20:30. Frumsýningin átti að byrja klukkan 19:30. Áður hafði hann sagt að hann kæmi með lestinni klukkan 19:00... Gott að hafa tímann fyrir sér sko. Við, restin af leikhópnum, vitum ekki alveg hvað við eigum að gera eða finnast en við erum öll ofboðslega reið, ekkert vit í öðru náttúrulega. Brian, leiklistarkennarinn, kemur svo og tilkynnir okkur að þetta hafi algjörlega fyllt mælinn hjá honum varðandi þennan nemenda, þetta var alls ekki hans fyrsta flopp, og að hann hafi ákveðið að reka hann úr leiklistarhópnum. Frumsýningardagurinn var semsagt mjög sérstakur. Brian lék í staðinn fyrir strákinn á þessari sýningu, hljóp á milli ljósaborðsins og sviðsins, við lékum á móti honum í fyrsta skipti, hann kunni ekki línurnar en gerði þetta samt ótrúlega vel, við vorum svo ánægð eftir frumsýninguna en samt svo ringluð eftir þetta allt saman. Við reyndum svo að halda frumsýningarpartý en gátum ekki haldið út lengur en til miðnættis eftir allt þetta stress.
Daginn eftir æfðum við senurnar sem strákurinn lék í, með Thorbjörn, hinum leiklistarkennaranum okkar, og hann lék svo með okkur á hinum þremur sýningunum og stóð sig ossa ossa vel. Gaman fyrir okkur hin að fá að leika á móti alvöru leikurum!
Sýningin fékk mjög góð viðbrögð, fólk var hissa og hrifið, hafði nefnilega ekki búist við miklu af okkur eftir allt sem við erum búin að ganga í gegnum. Búin að missa 4 úr leikhópnum, skrifa persónur inn í leikritið í byrjun og svo út aftur, breyta línum, byrja frá byrjun aftur og aftur, strákarnir búnir að þurfa að bæta á sig hlutverkum igen og igen.... Við vorum öll sammála um að leikhópurinn ætti að bera nafnið Against all odds.
Við vorum stolt af sjálfum okkur eftir síðustu sýningu. Hún gekk vel, fólk stóð upp fyrir okkur og hrósaði okkur í hástert. Aftur á móti vorum við líka leið þetta kvöld. Þegar sýningin var búin var leiklistin nefnilega búin. Þegar leiklistin var búin áttuðum við okkur á því að skólinn var að verða búinn. Sumir fóru að partýast, ég fór upp á herbergið mitt, átti bágt og grét pínupons og sofnaði svo. Var ein tilfinningahrúga.

Síðasta vika: Outroprogram fór í gang. Við eyddum mánudeginum og þriðjudeginum í að klára það sem klára þurfti í leiklistinni; pilla niður sviðið og áhorfendapallana, taka saman búninga og leikmuni og gera fínt í leikhúsinu.
Á miðvikudaginn lögðum við af stað í lítið ferðalag til Mögelö (afsakið... ekkert danskt ö í boði) sem er eyja á vatni rétt hjá bænum. Við borðuðum grillmat, grilluðum sykurpúða, drukkum irish coffee, fórum í einakrónu og vink vink í pottinn, fórum í smyglaraleik í skóginum eftir miðnætti og sváfum undir berum himni. Virkilega hyggeligt.
Við komum heim í skólann á fimmtudagsmorguninn og restina af deginum spiluðum við fótbolta í garðinum, böðuðum okkur í vatninu, lágum í sólbaði og nutum þess að vera með hvort öðru þessa síðustu daga.
Föstudagurinn var skrýtinn dagur. Við þrifum herbergin okkar hátt og lágt og pökkuðum öllum okkar föggum saman. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður með góðum mat, fullt af lögum og ræðum, mörgum mörgum tárum og knúsum. Við skrifuðum í árbækur hvors annars og náðum að spjalla saman almennilega í síðasta skipti. Svo var partý... Ég hafði drukkið of mikið vín í matnum og man þess vegna ekki mikið eftir partýinu. Samkvæmt vinum mínum var ég skemmtileg.
Í gær sögðum við svo bless við hvort annað, stóðum öll úti í garði í stórum hring, löbbuðum á milli og kvöddumst. Héldum svo af stað, hvert í sína átt, grátbólgin og sorgmædd. Erfitt að lýsa stemningunni sem var þarna, þið haldið örugglega öll að við höfum verið algjörir vælukjóar. Við erum bara búin að búa svo náið saman í þessa mánuði. Gera sömu hlutina og vera í kringum hvort annað allan daginn, alla daga.

Ég er ennþá sorgmædd eftir gærdaginn en einnig ofboðslega ánægð með allar þær frábæru minningar sem ég tók með mér. Ég eignaðist svo marga góða vini, upplifði svo margt nýtt, lærði að tala annað tungumál, skemmti mér svo vel, söng, lék, skrifaði, lærði að sigla á kajak, upplifði aðra menningu, lærði að standa á eigin fótum og lærði að þekkja sjálfa mig svo miklu betur en áður.

Ég á tvær vikur eftir í Danmörku. Það er ekki langur tími en hann mun verða frábær, margir skemmtilegir atburðir framundan. Ég mun kveðja þetta land og þetta tímabil í lífi mínu með trega, en samt alltaf líta til baka með bros á vör.
Ég finn líka á mér að ég sé sko ekki alveg búin með Danmörku strax.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Af Satani og öðru betra fólki

Ég er búin að eiga ágætan dag Satans í dag. Ég las á mbl.is að kristið fólk væri hvatt til að biðja allan daginn til að hrekja dýrið burt. Djöfladýrkendur um víða veröld fagna þó þessum tímamótum og bíða spenntir eftir komu dýrsins. Mér finnst þetta svolítið fyndið, get aldrei skilið þessar öfgar í fólki. Þetta er nú eftir allt saman bara dagsetning. Ef dýrið ætlar að koma þá held ég sko ekki að það sé svo halló að fara að koma í dag þegar allir bíða eftir því. Það bíður betri tíma held ég nú. Það held ég nú heillin mín. Lifi Satan. Nei, djók skilurðu. Ég er ýkt ógeðslega kristin.

Ég er þreytt í dag. Við eyddum öllum morgninum í að klára að setja sviðið upp svo allt væri tilbúið fyrir frumsýningu á morgun. Það var sópað, sett upp tjöld, málað, límt og svo framvegis og svo framvegis. Svo lékum við leikritið einu sinni í dag, tveim manneskjum of fá. Ein stelpan hafði nefnilega gerst svo sniðug að snúa á sér fótinn í gær og þurfa að fara upp á slysó. Einn strákurinn er hreinn og beinn api og ákvað að mæta ekki á síðasta rennsli, mæta svo 40 mínútum of seint á generalprufu seinna í dag... Fullur í ofanálag. Náunginn er nýorðinn 20 ára gamall. Hann er alkóhólisti, drekkur tvær kaffikönnur á dag, er með magasár, þjáist af svefnleysi, gamall dópisti. Sumir lifa aðeins hraðar en aðrir. Hann er samt ágætur, svo lengi sem hann mætir á frumsýninguna á réttum tíma á morgun og gleymir ekki því sem hann á að segja.

Mér finnst spennandi að vera að fara að frumsýna. Mikið ótrúlega er gaman að taka þátt í svona flottri og stórri sýningu. Gaman að sjá texta vaxa frá engu upp í svo lifandi sýningu. Gaman að vinna svona mikið með svona frábæru fólki. Gaman að tíðarhringir 9 stelpna geti stillst saman á svona stuttum tíma. Gaman að leika. Gaman að vera stoltur af sjálfum sér.

Mamma mín minnti mig allhressilega á það í dag að ég ætti bara 8 skóladaga eftir. Ég vissi að það væri stutt eftir en... Ekki alveg svona stutt. Jeminn eini og einasti. Þetta þýðir það að eftir 11 daga hitti ég ömmu og co. í Kaupmannahöfn og fer að skoða Danmörku með þeim. Þetta þýðir líka að eftir 19 daga fer ég á Hróarskeldu. Einnig þýðir það að eftir rétt rúman mánuð verð ég komin heim í Mosfellsbæinn. Þá verð ég búin að vera úti í hálft ár. Mér finnst ég innst inni svolítið dugleg.
Ég hef það annars illilega á tilfinningunni að það verði erfitt að kveðja fólkið hérna. Mörg þeirra hitti ég ekki aftur í mörg ár, sum aldrei. Bara að ég nái að halda sambandi við bestu vinina, þá er ég sátt. Það eru líka mestar líkur á því.

Ég ætla að næla mér í smá svefn fyrir frumsýningardaginn. Góða nótt apalabbar nær og fjær.