sunnudagur, maí 06, 2007

Ég er að læra fyrir próf í amerískum bókmenntum. Búin að vera löt og allt það um helgina en þetta reddast nú eins og hvað annað, sérstaklega þar sem efnið er skemmtilegt.
Rétt í þessu var ég að lesa sögu eftir mann sem hét Charles W. Chesnutt. Blökkumaður var hann, einn af þeim fyrstu til að skapa sér nafn sem svartur rithöfundur í Ameríku eftir Þrælastríðið.
Í seinustu viku var ég svo að læra fyrir próf í bandarískri menningarsögu. Stór hluti námsefnisins fjallaði einmitt um blökkumenn og mannréttindabaráttu þeirra. Ég er búin að fussa og sveia í marga daga núna yfir hvíta manninum, hvað hann er nú alltaf heimskur og óréttlátur.
Mér stóð því ekki á sama núna þegar ég kláraði söguna eftir Chesnutt er ég byrjaði að raula fyrir munni mér: "Chestnuts roasting on an open fire..."

Ég lokaði á mér munninum í snatri. Nú er ég í þagnarbindindi.

laugardagur, maí 05, 2007

Status

Próf: 3 af 5 búin.
Sumarvinna: Engin enn.
Mataræði prófatarnar: Kaffi, kaffi, kaffi, ritzkex, túnfiskssalat, ristað brauð, kaffi, dökkar súkkulaðirúsínur, grænmeti, kókómjólk.
Misskilningur prófatarnar: Þegar ég vissi ekki að ritgerðarefnin fyrir 100% prófið í menningarsögu væru á netinu fyrr en daginn fyrir próf. Panikkast í kjölfar þessara upplýsinga.
Félagslíf: Svo lítið að ég náði ekki lágmarksnotkun hjá Sko og af inneigninni minni voru dregnar einhverjar krónur. Iss.
Félagslíf framundan: Reunion hjá grunnskólanum, hugsanlega mjög athyglisvert. Eurovision og kosningar.
Kosningar: Ekki búin að ákveða mig. Seinna tíma vandamál.
Sumartilhlakkanir: Hróarskelda og Como-vatn. Ójájá.
Draumfarir: Skólastjóri lýðháskólans míns var á Íslandi, ég mætti honum úti á götu og hann vildi ekki tala við mig. Ég er ennþá sár.
Prófaheilinn: Tala meira við sjálfa mig en aðra.

Seisei, ætli statusinn sé ekki bara nokkuð quo.