sunnudagur, desember 26, 2004

Ég er ekki búin að finna til svengdar í tvo sólarhringa. Ég vakna södd á morgnana en fæ mér samt kjöt í morgunmat. Namminamm...

laugardagur, desember 18, 2004

Í gær..

..þegar ég var búin að ganga upp og niður allan Laugaveginn og var að bíða eftir kóræfingu fékk ég allt í einu á tilfinninguna að ég hefði gleymt að læsa bílnum. Ég rölti því niður á kennarabílastæði, athugaði með bílinn sem var harðlæstur en ég ákvað samt að fyrst ég væri þarna þá myndi ég skila af mér pokanum sem ég hélt á. Þegar ég var búin að loka hurðinni aftur og ætlaði að labba burt þá komst ég ekkert, ég var föst við bílinn. Eitthvað fannst mér þetta skrýtið svo ég fór að athuga hvort jakkinn minn væri fastur í hurðinni en.. ónei. Langatöngin mín var hálf á milli ,,stafs og hurðar". Ég stóð og horfði á þetta í smástund og reyndi að opna með fjarstýringunni en fannst voða skrýtið að hurðin skyldi ekki opnast. Loksins fattaði ég að ég þyrfti að opna með hinni höndinni og gerði það með góðum árangri. En þá fyrst varð þetta vont. Það var blá djúp rönd yfir puttann á mér og geðveikur þrýstingur. Ég hljóp inn í MR og inn á bað og hljóp svo niður allar tröppurnar, yfir götuna, að kirkjunni og upp á loft og eyddi allri kóræfingunni með puttann ofan í glasi. Ái..
Þetta varð til þess að ég gat ekki farið í síðasta víólutímann fyrir jólafrí. Eins gott að ég er ekki betri víóluleikari en raun ber vitni, þá þyrfti ég kannski að aflýsa í Carnegie Hall eða eitthvað..
Já jólatörnin er skemmtileg. Passið ykkur bara á bílunum krakkar mínir.. og hurðunum á bílunum.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Flottastir

1. Kevin Spacey (besti brellukallinn, sbr. Usual suspects og Life of David Gale og bestur með gráa fiðringinn, sbr. American beauty)
2. Christopher Walken (enginn hefði getað dansað betur í Weapon of a choice (heitir það það ekki annars?) eða spilað rússneska rúllettu betur í Deer hunter)
3. Al Pacino (flottasti vondi kall í heimi)

Talandi um Weapon of a choice þá bjó Fat boy slim í Brighton, þar sem ég var í enskuskóla. Ég labbaði fram hjá húsinu hans..

föstudagur, desember 10, 2004

Ég held ég geti sagt með sanni að fyndnasta lag sem ég hef heyrt er Bicycle race með Queen. Ég hló upphátt í bílnum á leiðinni heim í dag. Ég mæli eindregið með að fólk hlusti á textann, ég sé atburðarásina ljóslifandi fyrir mér. Ótrúlega fyndið.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Áríðandi

Fréttin var að berast... Ljósbleiku gervijólatrén eru uppseld. Þó er ekki nauðsyn að örvænta strax, það eru ennþá til dökkbleik.
FLÝTUM OKKUR! Annars verða engin jól!