miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Dauðasyndirnar

Það er nú farið að heyra til tíðinda að eitthvað birtist á þessari vefsíðu. Þess vegna er svo skemmtilegt að í kvöld hef ég aldeilis ærna ástæðu til að skrifa meðmæli hingað inn.
Ég keypti mér áskriftarkort í Borgarleikhúsið fyrir nokkru og í kvöld var fyrsta sýningin mín sýnd; Dauðasyndirnar. Sýnt var á litla sviðinu á meðan stóra salinn fyllti fjöldinn allur af grunnskólanemum sem söngluðu söngva um Réttó og Hlíðó. Blessunarlega heyrðist ekkert á milli salanna svo það fór nú lítið fyrir þeim eftir allt saman.
Mér finnst alltaf gaman að sjá sýningar sýndar á litla sviðinu, það verður alltaf eitthvað svo náin stemning í salnum. Þannig var það svo sannarlega í kvöld og ég hef sjaldan upplifað jafn frjálslega og skemmtilega stemningu á meðal áhorfenda. Leikararnir fjórir voru allir frábærir og þar sem þetta er spunasýning tóku áhorfendurnir mikinn þátt í leikritinu sjálfu. Tíu ára strákur tók þátt í að leika sjálfan Dante og maður í salnum lenti í því að þurfa að leika ofbeldismann úr sjöunda hring Vítis. Æ, þetta var svo gaman. Það er samt svo erfitt að lýsa þessu eitthvað mikið hér, það hljómar einhvern veginn ekkert fyndið þegar maður segir frá því svona. Ég verð því hreinlega bara að segja öllum að drífa sig í leikhúsið svo ég geti talað um sýninguna.

Það er algjör dauðasynd að láta Dauðasyndirnar fram hjá sér fara...

þriðjudagur, september 02, 2008

Af framtakssemi

Ég byrjaði daginn vel. Átti að mæta í skólann klukkan 10 í morgun en ákvað eftir nokkuð snús að þetta væri hvort sem er bara fyrsti tíminn og ég þyrfti ekkert að mæta í hann. Vaknaði í staðinn að verða hálfellefu og bölvaði letinni í mér. Þegar ég var búin að fara út með hundinn, sem þarf víst að míga og skíta þó að hann búi á fjórðu hæð, innbyrti ég morgunmat og las blaðið allt of lengi. Um tólfleytið fannst mér andskoti nóg komið af þessari leti og ákvað að fara út. Nú skyldi ég sko gera eitthvað merkilegt við daginn! Tók ákvörðun um að kaupa mér stúdentakort í Baðhúsinu og fara svo að gefa blóð. Aaaarrrr, áfram framtakssemi!!

Ég skyldi hvutta einan eftir heima og brunaði niður í Baðhús. Spurðist fyrir um stúdentakortið og fékk þær upplýsingar að stúlkan sem var að afgreiða mig var ekki með vald til að selja mér kortið og því verður hringt í mig seinna í dag með frekari upplýsingum. Ókei... Allt í lagi þá. Ég fékk ekki einu sinni að borga! Gekk því út með debetkortið grenjandi af vonbrigðum í töskunni. Næstu þrjá daga hef ég þó það vald að mega labba þarna inn, segja kennitöluna mína og fá að fara að æfa. Ætla í pallatíma í hádeginu á morgun. Já!

Ekki var þó framtaksseminni lokið því ég átti eftir að fara í blóðbankann. Gekk galvösk inn og bauð góðan dag. Þurfti að bíða í um 5 mínútur eftir að fá að fylla út eyðublaðið. Gerði það og fékk mér svo sæti þar sem ég sat í 20 mínútur með djúsglas og ekkert að lesa nema viðskiptablaðið og gamlan Mogga. Þegar röðin loksins kom að mér og farið var að fara yfir eyðublaðið með mér staldraði hjúkkan við þá staðreynd að ég hef umgengist fólk með smitandi sjúkdóm á síðasta mánuði en systir mín litla er með einkirningasótt. Áfram hélt hún þó með eyðublaðið og staldraði næst við þá staðreynd að ég hef farið í bólusetningu frá síðustu blóðgjöf. Ég sagði henni að það væri af því að ég hefði farið til Asíu. Hún spurði mig hvert ég hefði farið í Asíu og þegar ég tjáði henni það hló hún og sagði að við þyrftum nú ekkert að hafa miklar áhyggjur af einkirningasóttinni, ég mætti hvort sem er ekki gefa blóð í eitt ár eftir að ég kom heim frá löndunum fögru! Nújæja, hugsaði ég með mér og gekk út, stútfull af blóði og enn með debetkortið fullt af peningum.

Næst hugsa ég mig tvisvar um áður en af framtakssemi af þessari stærðargráðu verður.

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Sumarið er tíminn

Fingur mínir svífa yfir lyklaborðið eins og þeir hafi sjaldan gert annað. Eins ótrúlegt og það virðist hafa þeir ekki skrifað eitt einasta orð hingað inn í rúma þrjá mánuði. Ekki má sjá það á gæðum þessara skrifa að svo langur tími sé liðinn síðan internetið fékk að njóta... umm... mín?

Ég er löngu komin heim til Íslands. Löngu byrjuð að vinna. Í vinnunni er ég búin að sjá fullt af stökkvandi hnúfubökum, mann sem þóttist vera víkingur og stóð varla í lappirnar á skipinu því hann var í skóm með nöglum undir, og sjósyndandi Rússa. Fór á snekkjudjamm á 24. flottustu snekkju heims á miðvikudagskvöldi þar sem ég borðaði skinkubrauð og hljóp á hlaupabretti auk þess sem ég sagði Nýsjálendingi frá náttúru Íslands með miklum tilþrifum og horfði á fólk spila guitar hero. Miðvikudagskvöld eru hin nýju föstudagskvöld, eins og alkunna er, og héldum við Ásdís Eir afmælispartý á einu slíku í rigningu í Heiðmörk. Haldið var til Vestfjarða í byrjun júlí og siglt frá Ísafirði inn í Leirufjörð í Jökulfjörðum þar sem átthagamót mikið er haldið á fjögurra ára fresti. Var mikið sungið og drukkið með fjarskyldum ættingjum í rjómablíðu og gengið inn að Drangajökli. Mamma varð fimmtug seinasta laugardag og fólk skemmti sér eins og kóngar í garðpartýi heima í Mosó í geggjuðu veðri. Nú styttist bara í að ég verði fimmtug. Í gær var 27 stiga hiti á Þingvöllum og hélt ég þangað ásamt fríðu föruneyti kærasta og bróður að sulla í vatninu og leika á fjórhjóli út um allar trissur. Fór niður brekku á hjólinu á 80 km/klst í sumarkjól og þunnri peysu og fann ekki fyrir minnsta kulda. Svona á sumarið að vera. Í dag er svo stefnan tekin á Hvalfjörðinn með hæsta fossi landsins og sumrinu í algleymingi. Mikið getur verið ljúft að vera í sumarfríi.
Á döfinni er svo pílagrímsferð til Vestmannaeyja á hátíð sem kennd er við þjóð, næstu helgi. Veðurspáin er það góð að fróðir menn segja að ég muni ekki ná að upplifa Vestmannaeyjar ef upplifunin á að fara fram í svona blíðu. Það þurfi að blása hressilega inn dalinn og gista í íþróttahúsinu ef þetta á að vera almennilegt. Ég segi nú bara nei takk við svoleiðis bulli og ætla að pakka sumarfötunum.

Ég er ennþá föst í frásagnarstílnum á blogginu síðan í Asíunni góðu. En þetta er ágætis byrjun. Hjálpar mér líka við að sjá að sumarið er alls ekkert búið að vera viðburðarsnautt. Góðar stundir.

laugardagur, apríl 12, 2008

Thegar eg var i Nam...

Mer finnst otrulega gaman ad eg geti sagt "thegar eg var i Nam" brandara thegar eg kem heim. Vietnam er spennandi og heillandi. Mer fannst bara ad bloggid mitt aetti ad fa ad njota fagurra skrifa minna lika, thad er svo agalega vanraekt thessa dagana!

Godar stundir.

fimmtudagur, mars 13, 2008

Blogg!!

Eg er stodd i Kyoto, Japan. Er buin ad vera i Japan med Asdisi Eir, Unu og Honnu i 10 daga nuna en Japan er okkar fyrsta land af sex i langferdalagi okkar. A manudaginn holdum vid til Kina, eftir thad til Vietnam, thadan til Kambodiu, svo Laos og endum svo i Tailandi. Komum heim 4. juni, verdum semsagt uti i thrja manudi.

Japan er annars storkostlega heillandi land sem enginn aetti ad missa af. Kyoto er falleg borg med milljon hofum og vid erum thegar bunar ad skoda nokkud morg, svo morg ad eg er personulega haett ad muna hvad er hvad.

Aetlunin er annars ekki ad blogga mikid her, thetta blogg verdur thvi liklegast i dvala fram a sumar thar til annad kemur i ljos.

Ferdafrettir ma lesa a Asiuflakkinu. Allir ahugasamir eru bodnir velkomnir thangad og endilega ad kvitta fyrir innlitid, kommentin hafa thvi midur verid of fa ad okkar mati :)

Thangad til naest... Anna.Fyrir framan Kinkakuji hofid i Kyoto, i dag 13. mars. Hofid er gert ur gullplotum, ofbodslega fallegt, og tjornin fyrir framan heitir Speglatjorn en thad nafn atti einkar vel vid i dag.

föstudagur, desember 21, 2007

Konan hans Brutusar, þessa sem drap Sesar... Et tu Brute... Allavega, konan hans hún Portia drap sig með því að gleypa eld. Gleypa eld... Já... Eigum við að reyna að vera aðeins dramatískari? Gæti alveg verið til einhver aðeins einfaldari leið sko.

Viðbót: Og þá er ég að sjálfsögðu að tala um í leikritinu Julius Caesar eftir Shakespeare. Ég hef ekki hugmynd um hina alvöru Portiu.

fimmtudagur, desember 20, 2007

Hugleiðingar

Ég fór í próf í breskum bókmenntum í dag. Fyrir prófið las ég um öll helstu skáld viktoríanska tímabilsins og skemmti mér hið besta. Sérstaklega af því að prófið gekk svo vel.

Ég fór samt aðeins að íhuga skáld og sjálfa mig í því samhengi. Ég er ekki skáld. Nei, greinilega ekki. Ég kem varla þessari bloggfærslu frá mér í heilu lagi. Ég hef samt samið nokkur ljóð um ævina en engin þeirra teljast víst til stórvirkja er ég hrædd um.

Lord Tennyson hafði samið 6000 lína epískt ljóð þegar hann var 12 ára. Heimilislíf fjölskyldunnar var með versta móti, drykkja, ofbeldi, geðveiki... Fyrst þegar hann fór í Cambridge eignaðist hann alvöru vin, sem svo dó nokkrum árum síðar. Ímyndið ykkur... 12 ára! Þolinmæðin þrautir vinnur allar... en ég held samt að ég hefði ekki getað skrifað 6000 lína ljóð á þessum aldri.

Elizabeth Barrett Browning var alltaf alein. Hún var karlmannleg í útliti, fór sjaldan út á meðal fólks, kenndi sjálfri sér um dauða uppáhaldsbróður síns og sat heima hjá sér í nokkur ár án þess að fara út úr húsi. Hún kenndi sjálfri sér næstum allt sem hún kunni... og hún kunni. Hún kenndi sjálfri sér nógu mikla hebresku til að geta lesið Gamla Testamentið frá byrjun til enda, sem hún og gerði. Einnig kenndi hún sjálfri sér fleiri tungumál og gleypti í sig allan þann fróðleik sem hún fann. Hún skrifaði eitt frægasta ástarljóð sögunnar sem hefst: How do I love thee? Let me count the ways... Elizabeth var alein þangað til einn daginn kemur til hennar maður, 6 árum yngri og fallegur og segist elska hana; ég elskaði bókina þína, en ég elska þig meira. Sæll.. hvar eru þessir herramenn í dag? Þessi maður, Robert Browning, hætti í Oxford af því að hann kunni allt sem þeir voru að kenna, það var bara barnaleikur fyrir hann. Kenndi sér sjálfur... Svo mikið meir að segja að ljóðin hans eru talin torskilin og hann áttaði sig engan veginn á því að hann væri að skrifa svona flóknar vísanir eða myndlíkingar!

Ég er að velta þessu aðeins fyrir mér. Þetta er eins og með tónskáldin; Mozart, Beethoven, Bach, Wagner, Vivaldi... Hvar eru jafnokar þessara manna í dag?

Þetta fólk hlýtur að hafa verið sent á jörðina með einhvern tilgang. Ég hef ekki lesið nútímaljóð eða heyrt nútímatónverk sem jafnast á við eitthvað af þessu... Það verður gaman að sjá hver verður næstur.

Eitt er þó víst... Ég er líklega ekki ein af þeim.

Ég ætla samt að sýna ykkur hæfileika mína, ef einhver þarna úti er að leita að skáldi eins og mér.

Ó Bryndís, ó Bryndís,
þú veist ég elska þig,
viltu vera hjá mér daginn út og inn?
Þú ert svo falleg alltaf hjá mér,
mér þykir svo vænt um þig.
Anna Samúelsdóttir, 1991.
Við lagið: Fram í heiðanna ró.

Fuglinn minn góði er fallinn frá,
í byrjun vorsins frá oss brá.
Hann lítur ei framar glaðan dag
því guð hann sagði: Þú verður hjá mér.

Ragnheiður L. Óladóttir og Anna Samúelsdóttir, um 1993.
Við sömdum líka lag við þetta og sungum yfir dauðum spóa sem við fundum út'í móa.


Þegar sólin lægst á lofti er
ég liggja vil í faðmi þér,
því þar get ég best unað mér
og látið vetur líða.
Anna Samúelsdóttir, 200?

Hver veit... Kannski hef ég þetta í mér!