miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Dauðasyndirnar

Það er nú farið að heyra til tíðinda að eitthvað birtist á þessari vefsíðu. Þess vegna er svo skemmtilegt að í kvöld hef ég aldeilis ærna ástæðu til að skrifa meðmæli hingað inn.
Ég keypti mér áskriftarkort í Borgarleikhúsið fyrir nokkru og í kvöld var fyrsta sýningin mín sýnd; Dauðasyndirnar. Sýnt var á litla sviðinu á meðan stóra salinn fyllti fjöldinn allur af grunnskólanemum sem söngluðu söngva um Réttó og Hlíðó. Blessunarlega heyrðist ekkert á milli salanna svo það fór nú lítið fyrir þeim eftir allt saman.
Mér finnst alltaf gaman að sjá sýningar sýndar á litla sviðinu, það verður alltaf eitthvað svo náin stemning í salnum. Þannig var það svo sannarlega í kvöld og ég hef sjaldan upplifað jafn frjálslega og skemmtilega stemningu á meðal áhorfenda. Leikararnir fjórir voru allir frábærir og þar sem þetta er spunasýning tóku áhorfendurnir mikinn þátt í leikritinu sjálfu. Tíu ára strákur tók þátt í að leika sjálfan Dante og maður í salnum lenti í því að þurfa að leika ofbeldismann úr sjöunda hring Vítis. Æ, þetta var svo gaman. Það er samt svo erfitt að lýsa þessu eitthvað mikið hér, það hljómar einhvern veginn ekkert fyndið þegar maður segir frá því svona. Ég verð því hreinlega bara að segja öllum að drífa sig í leikhúsið svo ég geti talað um sýninguna.

Það er algjör dauðasynd að láta Dauðasyndirnar fram hjá sér fara...