miðvikudagur, september 12, 2007

Sumarísað sumar

Ég tel að kominn sé tími til að rita nokkur orð inn á þessa síðu. Þegar maður er í þurrð þá liggur beinast við að rifja upp góða tíma á liðnu sumri og sumarísa sumarið. Hoho.

Ég var ánægð í hvalavinnunni minni og þakka Ásdísi Eiri góð sambönd. Tíðin var sérstaklega góð í lok sumars þegar hnúfubakur gerði sig heimakominn í Faxaflóa og sá ég hann stökkva allnokkrum sinnum auk þess að "tailslappa" og leika alls kyns kúnstir aðrar.. Eins og þær að verða næstum fyrir bátnum. Kannski var það einhverjum öðrum en hvalnum að kenna en ég læt það liggja milli hluta. Það hlýtur að mega kenna stærsta aðilanum um.. Er það ekki?

Haldið var á Hróarskeldu í byrjun júlí og olli hún mér ekki vonbrigðum frekar en í fyrra. Ég er einlægur aðdáandi þessarar hátíðar og allra þeirra minninga sem hún gerir manni svo auðvelt að eignast. Hátt upp úr stóðu Muse, Arcade Fire og Björk en öll stóðu þau fyrir gallalausri skemmtun.
Ég viðurkenni að hátíðin var örlítið blautari en í fyrra.. um það bil 100 millimetrum blautari.. en við ferðafélagarnir héldum okkur á hosteli í Kaupmannahöfn svo okkur sakaði ekki þó við höfum orðið blautar í gegnum regngallana og vaðið drulluna upp að lærum. Við sváfum allavega í þurrum rúmum og gátum farið í bað. Ahh.. Eins þægilegt og það var þó að vera á hosteli í þessu ógnarveðri sem geisaði var ég mun hrifnari af stemningunni sem ég upplifði með því að vera í tjaldi í fyrra og verður það því endurtekið næst. Næst segi ég.. En veit þó ekki hvenær það verður.

Hátíðin var í blautara lagi í ár. Myndin er kannski ekki alveg í fókus en hún lýsir stemningunni fyrsta kvöldið svo ofboðslega vel. Við vorum komnar yfir það að vera blautar og farnar að dansa í drullunni. Það var ekkert annað í boði.



Eins og sjá má náði drullan hátt upp á stígvélin. Fætur vorir voru enda þreyttir í enda dagsins enda* ekkert grín að vaða drulluna allan liðlangan daginn. Þessi maður á ekkert að vera þarna en er það nú samt.
*Vá, takið þið eftir hvað orðið "enda" fær mikla notkun í þessari málsgrein!

Ah... Stemningin er svo ólýsanleg. Á sviðinu standa Muse og trylla lýðinn.


Um miðjan ágúst hélt ég svo utan með ástkærri móður og móðursystur. Við gengum um stórkostlega náttúru Norður Ítalíu í 6 daga og skemmtum okkur konunglega. Ég var yngsti þátttakandinn í gönguferðinni en tók svosem ekkert mikið eftir því. Öfgarnar voru þó frekar skemmtilegar því elsti göngugarpurinn var 75 ára gömul og munaði því 53 árum á elsta og yngsta þátttakanda. Það kom þó ekki að sök og kom okkur alveg hreint ágætlega saman.
Við gistum tvisvar sinnum í fjallaskálum á göngu okkar og voru þeir leiðangrar í algjöru uppáhaldi hjá mér. Seinni leiðangurinn endaði í 2410 metra hæð og útsýnið var hreint út sagt stórkostlegt. Bæði sáum við vel um kvöldið og svo aftur morguninn eftir þannig að við fengum að sjá alla þessa fjallatinda bæði baðaða tunglsljósi og sól. Útsýnið var meir að segja svo gott að við sáum alla leið til landamæra Sviss, yfir alla Pósléttuna og yfir Como vatnið eins og það lagði sig.

Það sem fyrir augu bar á ferðalaginu. Þessi hús eru langt uppi í Codera dalnum og að þeim komast engir bílar. Við stoppuðum í einu svona þorpi og borðuðum hádegismat. Fólk býr í þeim á sumrin en flest eru þau í eyði á veturna.

Gömul kona fyrir utan kot sitt. Hún er að verða níræð en gengur þó á æskuslóðirnar á hverju vori og dvelur þar fjóra mánuði ársins. Hún var í andspyrnuhreyfingunni í stríðinu enda er þetta litla þorp rétt við landamæri Sviss og því mikill hasar. Hún söng fyrir okkur lag og var öll hin sætasta eftir að hún hafði verið fullvissuð um að við værum ekki Þjóðverjar.

Í góðum félagsskap uppi á Grignunni svokölluðu, í 2410 m hæð. Útsýnið var ótrúlegt og á bak við okkur sjást snæviþakin fjöll svissnesku Alpanna og landamæri Sviss og Ítalíu, auk örlítils hluta af Como vatninu sjálfu.

Frekar sportlegar mæðgur.

Ég ferðaðist eitthvað innanlands í sumar en ekki eins mikið og ég hafði ætlað mér. Fór þrisvar sinnum austur í Botna og tók einn dag í að rúnta Hvalfjörðinn og út á Snæfellsnes. Stór plön voru um að fara í hvalaskoðun á bæði Ólafsvík og Húsavík en ekkert varð úr þeim þetta sumarið. Kannski næst. Síðustu helgi var svo haldið á Vestfirðina með sætu stelpunum og þakka ég Elínu Lóu fyrir að bjóða okkur með sér. Ég skemmti mér konunglega.

Ekki má svo gleyma stórskemmtilegri ferð á Þingvelli þar sem systur minni var kennt að spila Kubb, því þegar ég og Ásdís fórum að snorkla í Silfru, öllu skemmtilega djamminu, frábæru afmæli í Heiðmörk, stórkostlegum félagsskap vina og fjölskyldu, grillmat, köldum bjór á Austurvelli, gönguferðum um Mosfellsbæinn, Esjugöngu sem endaði í ísbíltúr, rölti um Reykjavík þar sem gægst var inn í bakgarða húsa í Þingholtunum, björtu nóttunum... Og öllu hinu.

Þó haustið sé aldeilis farið að gera vart við sig með tilheyrandi haustlægðum og skóla vil ég ekki sleppa sumrinu alveg strax og vona að september gefi einhverja fallega og góða haustdaga þar sem hægt verður að fara í fjallgöngu eða berjamó.. Nú eða hvalaskoðun! Svo er eiginlega ekki hægt að kveðja sumarið öðruvísi en með einu góðu Kubb eitthvert góðviðrissíðdegið í Hljómskálagarðinum... Ekki satt?