sunnudagur, maí 07, 2006

Radiohead


Úff, hvar á ég að byrja?

Ég er svo orðlaus og algjörlega sátt við lífið í dag. Ég hugsaði með mér nokkrum sinnum í gær: ,,Nú gæti ég dáið hamingjusöm."
Eftir sjö ára bið, ef mér telst rétt til, sá ég þá loksins standa á sviði. Allt sem mig hafði dreymt að þetta gæti hugsanlega verið var þarna. Ef ég hefði fengið að setja saman playlistann þá hefði hann verið nokkurn veginn nákvæmlega eins og hann var hjá þeim í gær. Ég er ennþá í svo mikilli sæluvímu og finnst heimurinn ofboðslega fallegur í dag.

Við Louise og Kirsten vorum mættar upp í KB hallen fyrir sexleytið í gær. Fórum í næstu búð og keyptum kaldan bjór og settumst svo í sólina fyrir utan húsið ásamt um 600 öðrum tónleikagestum. Það var strax komin stemning í fólk og eftir smástund var ég orðin eitt stórt bros bara af því að vera þarna með miðann minn í hendinni. Klukkan 19 voru svo dyrnar opnaðar og ég komst að því að KB hallen er bara alls ekki stór. Minni en Laugardalshöllin held ég meir að segja. Það var ég ánægð með. Þrátt fyrir að ég væri komin inn var ég þó ekki enn búin að átta mig á hvað væri að fara að gerast, ég var spennt en ekki alveg komin inn í þennan (ó)raunveruleika. Þar sem ég er um það bil höfðinu hærri en bæði Louise og Kirsten, þó ég sé ekki sérstaklega há í loftinu, ákváðum við að setjast í stúkuna. Við sátum fremst í stúkunni með stórt gólfpláss fyrir framan okkur, að okkar mati á besta stað. Það besta var þó að við okkur blasti allt sviðið, það var held ég í fyrsta skipti á ævinni sem ég fer á tónleika og næ að sjá allt sviðið. Það vorum við ánægðar með. Markmiðið var að njóta þess í botn að sjá allt og heyra.
Um upphitunina sá Willie Nelson, bandarískur sveitasöngvari, og stóð hann sig vel þó að fólk hefði í rauninni ekki nennt mikið að hlusta á hann. Það var ekki komið til þess. Þegar hann var búinn að spila hlupum við Louise fram að kaupa bjór. Biðum í röð í um það bil kortér að fara yfir um af stressi um að missa af byrjuninni. Loksins fengum við bjórinn, hlupum inn í sal og um leið og við stigum inn slökknuðu ljósin og salurinn sprakk af fagnaðarlátum. Við hlupum í sætin og vorum nýsestar niður þegar þeir löbbuðu inn og einmitt þá skall það á mér hvað væri að fara að eiga sér stað. Ég held ég hafi aldrei verið eins nálægt því að fá flog af geðshræringu. Þeir komu sér fyrir og byrjuðu á Everything in its right place, fyrsta laginu af Kid A. Ég fór að hágráta. Fyndið með tónlist hvað hún hefur mikil áhrif á mann. Mig minnir að næst hafi þeir spilað Planet Telex af The Bends. Mig minnir líka að ég hafi ekki getað hætt að brosa og klappa alla tónleikana.
Ég man ekki alveg allan playlistann, og alls ekki í réttri röð. Mig minnir þó að næst hafi þeir spilað nýtt lag. Þeir spiluðu 5 eða 6 ný lög, hvert öðru betra. Besta lagið við þessa fyrstu hlustun var að mínu mati lag sem innihélt klapp næstum allan tímann. Ed O'Brien klappaði með þegar hann var ekki að spila og fékk allan salinn með.
Stuttu eftir þetta kom svo, mér að miklum óvörum, svo miklum að ég æpti þegar það byrjaði, Karma Police. Í geðshræringunni greip ég símann, hringdi til Íslands og leyfði Bryndísi að vera þess heiðurs aðnjótandi að hlusta með. Að sjálfsögðu fór ég aftur að gráta í þessu lagi. Ekki að þetta sé endilega besta lagið með þeim en ég og allir þarna inni þekktum það bara svo vel að það varð svo yfirþyrmandi að fá að heyra það live.
Ég bjóst ekki við að þeir myndu spila mikið af gömlu lögunum þar sem það er að koma út nýr diskur, en þarna skjátlaðist mér algjörlega. Lag eftir lag eftir lag fékk ég sæluhroll um allan líkamann, hló upphátt, táraðist og lifði mig svo algjörlega inn í öll þessi gömlu góðu lög. Radiohead eru búnir að fylgja mér svo lengi, í gegnum öll mótunarárin í rauninni. Ólíkt flestri annarri tónlist sem ég hlustaði á á því tímabili þá hlusta ég hins vegar ennþá af jafn mikill ástríðu á Radiohead. Mér finnst þeir ólýsanlega stórkostleg hljómsveit.

Gömlu lögin (getur verið að það vanti eitthvað)

Af OK Computer: Paranoid Android, Let Down, Karma Police og Lucky.
Af The Bends: Planet Telex, The Bends (í því lagi söng Thom Yorke ...talking to my girlfriends when ever something happens... (í staðinn fyrir girlfriend) baðaði út höndunum mót salnum og eignaðist þar með um það bil 2000 nýjar kærustur) og Street Spirit (aftur fór ég að gráta. Ætlaði að hringja í þig Una mín í þessu lagi, en ég er ekki með bandaríska númerið þitt. Því miður miður miður).
Af Kid A: Everything In Its Right Place og Idioteque.
Af Amnesiac: Pyramid Song og You And Whose Army? (Djöfull var það flott!)
Af Hail To The Thief: There There (The Boney King of Nowhere) og A Wolf At The Door (It Girl. Rag Doll)

Ég held að þeir hefðu varla geta valið þetta betur.

Hljómsveitin sjálf var mjög flott á sviðinu. Öðruvísi en ég bjóst við í rauninni. Strax í fyrsta laginu stóð Thom Yorke upp og byrjaði að dilla sér við tónlistina. Aldrei hefur mér fundist hann kynþokkafullur... Fyrr en nú. Hann hreyfði sig svo skemmtilega innilega í takt við tónlistina. Hann var duglegur að fá fólkið með í lögunum. Í You And Whose Army? var hann með litla myndavél á míkrófóninum og lék sér að því að fara með augun, munninn, allt andlitið alveg upp að henni svo allir skjáirnir voru ekkert nema Thom Yorke. Svo náði hann að stjórna áhorfendunum svo algjörlega. Ef hann lyfti hendinni klöppuðu allir og æptu en þegar hann gaf merki um að stoppa þá stoppuðu allir á nákvæmlega sama augnabliki. Það var magnað.
Jonny Greenwood lifði sig ofboðslega mikið inn í tónlistina og var ekki mikið að hafa sig í frammi. Gaman að fylgjast með honum því hann var svo mikið inni í augnablikinu. Í There There (The Boney King of Nowhere) fengu hann og Ed O'Brien báðir trommur fyrir framan sig og trommuðu alla byrjunina. Það var svo flott.
Ed O'Brien var duglegur að koma af stað klappi og fagnaðarlátum.
Colin Greenwood var lítið áberandi.
Phil Selway trommaði vel.

Þeir létu klappa sig upp tvisvar sinnum. Það kom mér á óvart því ég hélt, af einhverri ástæðu, að þeir væru ekki uppklappstýpurnar. Mig minnir að í fyrra uppklappi hafi þeir spilað meðal annars Paranoid Android sem ætlaði allt um koll að keyra. Í seinna uppklappi spiluðu þeir svo bara eitt lag, lag sem hefði ekki getað verið betur valið, en það var Lucky.
Svo þökkuðu þeir vel og lengi fyrir sig með hendur fyrir eyrum því þakið ætlaði af húsinu. Þvílík stemning!

Í gær uppfylltist langþráður draumur. Eitt af lífstakmörkum mínum hefur verið náð. Ég veit að þetta er háfleygt en ég meina þetta svo algjörlega. Ég er svo sátt við lífið í dag.