föstudagur, apríl 21, 2006

Ég er mjög hrifin af því...

...að geta skokkað út í súpermarkað (ekki að ég skokki, ég labba eða hjóla) og keypt kippu af Carlsberg á 33 danskar krónur. Koma svo með gripina upp í herbergi, skella þeim í plastpoka og hengja pokann út um gluggann, minn heimagerða ísskáp.
Ég ætla ekki að fara að pæla í áfengisaldri og sölu núna en mér er orðið það ljóst hér í Danmörku að þar sem áfengi er svo ódýrt og auðfáanlegt hér þá lítur fólk á áfengi svo allt öðrum augum en við Íslendingar gerum. Fyrir þeim er þetta gott, þeir súpa einn og einn öllara við og við, drekka vín með mat inni í miðri viku, þegar það á við, og njóta þess að smakka, ekki bara drekka sig pissfull eins og er svo algengt heima.

Æ, mig langar í vín- og bjórmenningu til Íslands. Þó hún sé aðeins byrjuð að aukast heima þá erum við svo ofboðslega frumstæð í þessum málum miðað við til dæmis Danina.

Þetta var föstudagspælingin. Þess má geta að á meðan ég skrifa þessa færslu sit ég uppi í herbergi með ískaldan Carlsberg sem fékk að kólna í plastpoka út um gluggann.