sunnudagur, febrúar 19, 2006

Vikan mín er sæt og fín

Þetta blogg er orðið að vikulegum atburði hjá mér, þarf að fara að bæta mig allhressilega. Annars er þetta víst í 100 sinn sem ég blogga. Eitt klapp fyrir því. KLAPP.

Ég er nú ekki frá því að það hafi bara margt á daga mína drifið á þessari viku. Á mánudaginn síðasta fór ég í stomp og við áttum að semja atriði. Minn hópur gerði það með glæsibrag og þar sem við notuðumst við kústa í tónlistargerð okkar þá lá beint við að gera þetta að nornasenu. Þetta kom vel út, við sungum, bjuggum til takt, settum pásu í atriðið og allt heila klabbið. Á föstudaginn eigum við svo öll að sýna herlegheitin fyrir þann hluta skólans sem er ekki í stomp.
Á þriðjudaginn var valentínusardagur. Ragga samþykkti að vera valentínan mín og ég var ánægð með það. Þennan sama dag fórum við teaterfreaks til Silkeborg í einskonar námsferð. Við byrjuðum á því að stilla okkur upp á götunni í hæfilegri kallfjarlægð hvort frá öðru. Á endanum vorum við í línu niður tvær heilar götur og eitt torg. Leikurinn gekk svo út á það að þeir sem stóðu á endanum áttu að kalla orð eða setningu og láta berast eftir línunni. Eins konar hvísluleikur... nema bara ekki. Ég var eini útlendingurinn á svæðinu svo þau kölluðu á dönsku. Mér var sagt eftir leikinn að ég hefði gert hann... áhugaverðan. Þetta var samt fyndið því fólk sem labbaði framhjá okkur brosti yfirleitt og gekk í burtu en sumir voru ekki með þolinmæði fyrir okkur. Þrír menn löbbuðu framhjá mér og sögðu mér allt sem var verið að kalla, óþolinmóðir og pirrandi. Svo var kallað á eina okkar: Du er dumb í hovedet!
Næsti leikur var inni á kaffihúsi. Við fengum leyndarmál sem við áttum að segja hvor annarri og svo var þetta one on one spunaæfing. Charlotte kom inn á kaffihúsið og settist hjá mér, við höfðum ekki sést í sex ár og vorum bestu vinkonur í grunnskóla. Fagnaðarfundir. Eftir spjall byrjuðu leyndarmálin að koma upp. Charlotte var semsagt ástfangin af mér og ég var að fara að giftast pabba hennar. Obbobbobb. Eftir smá rifrildi og sorg var fólk í kringum okkur byrjað að hvísla og benda... Sumir byrjaðir að standa upp og horfa. Þetta var svo fyndið.
Valentínusardagskvöldi var svo eytt uppi í sófa með nammi og rómantíska mynd á skjánum. Næstbesti kosturinn!
Á miðvikudaginn voru svo ólympíuleikar Kaffi Somersol haldnir hátíðlegir. Mér var skellt í bjórdrykkjukeppnina og þegar ég spurði af hverju sagði húsgrúppan mín: Anna, við höfum séð þig. Obbobbobb. Það er þó ekki að spyrja að því að mitt lið vann bjórdrykkjukeppnina! Svo var keppt í allskonar skemmtilegum greinum; kjúklingakrullu, kókosbolluáti, stafa orð með rassinum og hitt og þetta. Mín húsgrúppa var í 4. sæti af fjórum og vorum við hæstánægð með árangurinn. Áfram Bakkehus.
Á fimmtudaginn fór ég svo í tónlistartíma og komumst við að því að við erum að fara að flytja afrakstur tímabilsins á litlum tónleikum fyrir restina af skólanum á fimmtudaginn næsta. Við æfðum því og fínpússuðum allan fimmtudaginn og allan föstudaginn. Þetta verður mega.
Nú er svo helgin bara að verða búin, enn ein fríhelgin þar sem lítið er af fólki. Við erum búin að hafa það reglulega notalegt. Í gær var myndataka af leiklistarstarfinu fyrir bæklinginn sem á að endurnýja. Það var alveg frábært! Atvinnuljósmyndari sem tók myndir af okkur við allskonar leiki og athafnir. Verður örugglega stórkostlega flott. Eftir það tók við gönguferð í skóginum. Fórum held ég bara langleiðina að Himmelbjerget. Einn daginn er það alla leið upp á topp!
Í dag fórum við svo í sund. Ég get nú ekki sagst vera hrifin af sundmenningu Dana. Sundlaugin var ísköld, einhversstaðar úti í sveit, 17 kílómetra í burtu frá mér. Í dag steig ég semsagt upp í bíl í fyrsta skipti í sex vikur. Það var spes.

Mér finnst ótrúlegt hvað ég get blaðrað mikið á þessu bloggi. Ég þarf að fara að þjálfa hæfileikann í að örblogga. Kannski skrifa ég bara fyrstu og síðustu stafina í orðunum næst. Reyna að stytta þetta aðeins.
Bs, bs Aa.