sunnudagur, febrúar 05, 2006

Íslendingakvöld og pirringur

Ég var búin að skrifa heillanga færslu um Íslendingakvöldið sem við héldum. Hún birtist inni á síðunni í gær en núna er hún horfin. Horfin af síðunni og af blogger. Ég er pirruð. Þetta var löng og góð færsla. Ég skal búa til smáfærslu í skaðabætur.

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag voru evrópskir þemadagar. Mest fjölluðu þeir um EU og við Íslendingarnir vorum alveg úti þekju. Á miðvikudaginn var svo ungverskt kvöld með kvöldverði og kynningu. Maturinn hjá þeim var góður en kynningin ekki.
Á fimmtudaginn var svo íslenskt kvöld. Við vorum búnar að vinna í kynningunni í rúma viku og búnar að fá sent íslenskt nammi, harðfisk og 101 Reykjavík af Amazon.
Matseðill íslenska kvöldsins samanstóð af grjónagraut, sem Danirnir voru flestir sammála um að væri betri en sá danski, skonsum, sem Dönunum fannst ótrúlega góðar en skrýtnar, og harðfisk, sem Dönunum fannst flestum ógeðslega vondur. Ungverjunum fannst hann hins vegar góður. Þau þekkja eitthvað svipað frá Rússlandi. Danirnir voru búnir að ákveða að þetta væri vont og maður er jú alltaf hræddur við það sem maður þekkir ekki. Þau um það.
Í eftirrétt var svo skyrkaka. Skyrkökugerðin var nú eitthvað skrautleg. Við höfðum farið nokkrum dögum áður og leitað að nógu þykkri vanillujógúrt til að nota í staðinn fyrir skyr. Við fundum eina sem var alveg fullkomin í kökuna. Þegar við ætluðum svo að fara að kaupa magnið sem við þurftum að nota þá var lagerinn að sjálfsögðu tómur og ekkert meira á leiðinni. Að sjálfsögðu. Við keyptum því allar fjórar dósirnar sem voru eftir og vanillusúrmjólk til að setja út í. Þegar við byrjuðum svo að malla þessu saman kom í ljós að þetta var engin venjuleg vanillusúrmjólk, þetta var eins þunnt og mjólk. Að sjálfsögðu. Við settum því hreina, þykka súrmjólk út í og flórsykur. En, þetta var allt of þunnt jógúrtsull. Eftir smá umhugsun ákváðum við að tvöfalda rjómamagnið í kökunni. Við hugsuðum sem svo að fyrst Danirnir hefðu aldrei smakkað þetta þá vissu þau ekkert hvernig þetta ætti að vera. Útkoman varð hins vegar hin besta skyrterta og slegist var um síðustu bitana. Það var gott.

Kynningin okkar gekk vonum framar. Við höfðum eytt góðum tíma af deginum í að bera sófa niður á kaffihúsið okkar, skreyta í fánalitunum, stilla upp fullt fullt af kertum og gera reglulega hyggeligt. Það borgaði sig því fólk nennti að sitja allt kvöldið og hlusta á okkur.
Við byrjuðum á að kynna náttúru og land. Kynntum alla helstu ferðamannastaði, fórum hringferð um Ísland á korti, sögðum frá íslenska hestinum, sundlaugunum, norðurljósum og auðvitað Reykjavík og heimabæunum okkar, Mosfellsbæ, Hafnarfirði og Seyðisfirði.
Eftir þessa kynningu heyrðum við marga segja hvað þá langaði rosalega að koma til Íslands.
Næst kynntum við íslenska tónlist. Við kynntum tónlistarmennina uppi á powerpoint með upplýsingum og myndum og spiluðum eitt lag eftir hvern. Þetta vakti mikla hrifningu og allir voru undrandi á allri þessari frábæru tónlist og af hverju þau hefðu ekki heyrt hana fyrr. Við erum búnar að fá fullt af bónum um að skrifa diska fyrir fólk og gerum það með glöðu geði.
Þegar öllu þessu var lokið sýndum við tvö brot úr 70 mínútum og þeir vöktu mikla lukku. Svo sýndum við Thule auglýsingarnar og þá fengu Danirnir skýringu á ,,Ísland, best í heimi!" brandaranum sem við erum búnar að nota á handboltaleikjunum og fleiru. Sýndum líka smá brot úr Silvíu Nótt, við hlógum og þau hlógu smá. Kannski aðeins of pró íslenskur húmor fyrir byrjendur.
Að lokum poppuðum við, skenktum gos og buðum upp á íslenskt nammi á meðan við sýndum 101 Reykjavík. Flestum fannst myndin frábær og allir fóru upp að sofa glaðir í bragði. Sérstaklega við því þetta gekk svo ofboðslega vel. Það voru glaðir Íslendingar sem héldu heim, að springa úr þjóðerniskennd. Einmitt það sem okkur vantaði.