þriðjudagur, apríl 10, 2007

Sveitt

Sviti. Nauðsynlegur hluti mannslíkamans býst ég við. Ekki viljum við nú vera eins og svínin. Onei. En, eigum við að minnast á pirringsgildi hans?
Ég fór í Smáralindina um daginn og keypti mér voða fínan kjól. Ljósbláan að lit. Ég hugsaði í búðinni: "Þessi ljósblái litur er afskaplega óhentugur svitablettalitur." Svo gleymdi ég því og keypti kjólinn. Á laugardaginn prufukeyrði ég kjólakjól. Stödd í fimmtugsafmæli þar sem var sitjandi stemning með rauðvín og góðum mat, svo ég tali nú ekki um góða ættingja. Ég fór á klósettið einhverntímann um kvöldið og þegar ég leit í spegilinn mundi ég eftir hugsun minni í búðinni. Ég hafði rétt fyrir mér, þetta var einstaklega óheppilega litaður kjóll. Við erum samt ekkert að tala um að svitinn hafi lekið af mér neitt, þetta var sitjandi veisla, heldur að ég hefði ekki mátt lyfta handleggjunum mikið. Ég ákvað að taka þetta á kúlinu, setti pappírsþurrku inn á kjólinn og fór fram, meðvituð um það að lyfta handleggjunum ekki mikið. Nú lyftir maður handleggjunum kannski ekki mikið svona almennt þegar maður situr og spjallar við fólk en það er samt heftandi að þurfa að hugsa um það að lyfta þeim ekki. Eftir nokkur rauðvínsglös í viðbót var ég alveg búin að gleyma þessu vandamáli og var það vel. Þegar ég fór aftur á klósettið fann ég ekki pappírsþurrkuna sem ég hafði sett inn á kjólinn. Ný pappírsþurrka, fram, drekka meira.

Til að gera langa svitasögu stutta: Þegar ég kom heim og fór úr kjólnum þá hrundu þónokkrar pappírsþurrkur niður úr kjólnum. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi tekið eftir svitablettavandamálinu mínu. Kannski er fólk ekkert almennt að segja frá þannig hlutum en ég kýs að halda að fólk hafi bara ekki séð þetta. Já.

Hvað getur maður gert í svona aðstöðu? Ég man eftir að hafa spurt leiklistarkennarann minn að þessu úti í Danmörku því það var alveg einstaklega heitt á sviðinu og við allar í ljósgrænum kjólum, þetta var viðvarandi vandamál hjá okkur öllum. Hann sagði að leikarar ættu stöðugt í vandræðum með þetta og hefðu komið með margar leiðir til að fela þetta, til dæmis með því að setja límband í handakrikana. Endaði þessi ráðlegging með því að við vorum nokkrar sem settum teip í handakrikana fyrir sýningu. Það leysti vandamálið en jeminn hvað það var vont að taka þessa lausn af. Mæli ekki með þessu, enda notaði ég ekki þessa lausn á laugardaginn.

Ef einhverjum fannst þessi færsla asnaleg, óþörf eða ógeðsleg getur sá hinn sami bitið í sig. Eftir mánaðarbloggpásu er erfitt að koma sér í gírinn aftur. Færslan varð að innihalda eitthvað djúsí eða krassandi, sbr. svitann.