mánudagur, maí 22, 2006

Ný færsla!

Kominn tími á að blogga?? Jú, ætli það ekki.

Tíminn minn hér í Danmörku er farinn að styttast óþægilega hratt. Ég á bara tæpar 4 vikur eftir af skólanum, eftir tæpar 7 vikur verð ég komin heim. Ég vissi eiginlega ekki að tíminn gæti liðið svona hratt. Eins gott að njóta þessara seinustu vikna.

Lífið gengur annars sinn vanagang, þannig séð. Leikritið okkar er smátt og smátt að smella saman. Erum að verða búin að setja það allt saman og gengur bara ágætlega. Nú er frumsýning eftir tvær vikur svo við verðum víst að nýta tímann vel til að verða okkur ekki til skammar. Það hlýtur að ganga upp.
Ég kom svo frá London í gær, búin að vera í heimsókn hjá Röggu síðan á fimmtudaginn. Við höfðum það voða gott, fórum í tvö íslensk Eurovision partý, út að borða á mexíkanskan stað, röltum í Notting Hill og fórum á Portobello Road markaðinn. Auðvitað tókst manni líka að versla pínu. Óhjákvæmilegt alveg hreint. Ég flaug svo til baka til Danmerkur í gær. Að sjálfsögðu seinkaði fluginu sem gerði það að verkum að ég missti af síðustu lest heim frá Århus. Þar sem síminn minn hafði neitað að hlaða sig í London var ég símalaus og gat því ekki tekið lest áleiðis og hringt á leigubíl. Þetta allt saman gerði það að verkum að ferðin varð 5000 kr. dýrari en ella þar sem leigubíll frá Århus var eina leiðin heim. Heldurðu að það sé týpískt... Hvað sem því líður þá voru þetta frábærir 4 dagar. Takk fyrir mig Ragga!

Ég var annars voða glöð með úrslitin í Eurovision. Hélt voða mikið með Finnunum og fannst þeir virkilega töff. Fannst reyndar ferlega skrýtið að vera ekki stödd heima á Íslandi með Eurovision nördunum mínum, Bryndísi og Kristínu. En alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt!
Hér í skólanum var líka Eurovision partý. Af því frétti ég í gær. Þegar allur skólinn sat saman niðri á kaffihúsi að horfa á keppnina kom þjófur/þjófar upp á Bláa gang og var þaðan stolið úr ólæstum herbergjum 4 fartölvum, 5 símum, tveimur veskjum og einhverjum iPodum. Þar sem herbergin voru ólæst fá krakkarnir engar bætur frá tryggingunum og löggunni finnst þetta næstum ekki nógu merkilegt til að koma á staðinn. Alveg ótrúlegt.
Þetta finnst mér samt í rauninni svolítið merkilegt því alveg frá degi eitt hef ég læst herberginu mínu á eftir mér. Ekki af þeirri ástæðu að ég treysti ekki krökkunum heldur þeirri að það getur hver sem er labbað inn frá götunni þegar við erum í tímum eða öll saman. Ég þakka mínum sæla fyrir þetta núna. Þjófarnir komu ekki inn í húsið sem ég bý í en það hefði alveg eins getað gerst. Þá hefði ég verið fartölvu fátækari og um það bil 2000 myndum. Ég veit ekki hvað ég hefði gert!
Þetta atvik er búið að skekja skólann svolítið, fólk í sjokki og allir búnir að læsa herbergjunum sínum í dag. Vona bara að fólk haldi því áfram út tímann, hætt við að fólk hætti því eftir smá tíma. Mitt verður allavega læst áfram.

Núna er ég í Manuskript tíma, á að vera að skrifa enda á söguna mína, er bara eitthvað svo ferlega löt. Svaf svo lítið í nótt og gleymdi að fá mér kaffi í morgun. Þessi færsla ber þess kannski vitni.
Fyrirgefið mér bloggleti og léleg skrif.

P.s. Í morgun í morgensamling var indverskur maður að halda fyrirlestur og mig langaði ótrúlega mikið í indverskan mat allan tímann. Fann bragðið af karrýrétt og naanbrauði... Er ekki allt í lagi með mig???