föstudagur, maí 26, 2006

Hættið nú alveg!

Í kvöld var í síðasta skipti sem ég sýni Dönunum kvikmynd sem mér finnst frábær. Ég enda greinilega alltaf með brostið hjarta, með engan til að tala um myndina við.

Stelpurnar voru semsagt ekki í partýstuði í kvöld og fengu þær að koma upp á herbergið mitt til að sjá hvaða myndir ég ætti. Þær höfðu séð margar af þeim en eina hafði engin þeirra séð og þar sem ég mælti hiklaust með henni tókum við The Notebook úr hillunni og komum okkur fyrir uppi í sjónvarpsherbergi. Eftir hálftíma af myndinni fór ein að tala um hvað þetta væri fáránlega langdregin mynd. Hinar voru allar sammála. Svo fóru þær að gera grín að öllum atriðunum. Ég varð án gríns móðguð. Eftir smástund sofnaði svo ein og önnur fór upp í herbergi að sofa í miðri mynd. Þegar myndin var búin voru þær allar sammála um hvað þetta hefði verið ömurlega leiðinleg kellingamynd.

Afsakið fyrirgefðu... Nú vita flestir sem þekkja mig að ég ætti að vinna sem umbi fyrir þessa mynd. Falleg ástarsaga um fullkomna ást sem við flest okkar eigum aldrei eftir að kynnast. Dönsku stelpunum fannst hún svo væmin og asnaleg, fannst ekki nógu mikið gerast í henni. Það er stundum eins og fólk þoli ekki smá ást og rómantík á skjánum án þess að það fari að tala um væmni. Hvar er ástarþráin stelpur?? Oft eins og ef það er ekki stanslaus hasar í myndinni haldi fólk ekki út að sitja og horfa, eins og það geti þá ekki gert sér grein fyrir söguþræðinum.

Iss piss... Þó þeir dagar séu taldir að ég sýni dönsku stelpunum eina af mínum stórkostlegu kvikmyndum, hefði átt að segja stopp eftir hörð viðbrögð gegn aumingja Napoleon Dynamite, þá held ég áfram að gráta yfir endinum á Notebook sko... Ég er sko ekkert hrædd við væmni. Þoriði í mig eða???