laugardagur, apríl 09, 2005

Bíógaman

Á fimmtudaginn fór ég í bíó á myndina Life and death of Peter Sellers. Hana átti ég að sjá fyrir kvikmyndagerð í skólanum því við erum búin að vera að kynna okkur myndir Sellers síðustu vikur. Myndin var svosem ágæt, ekkert minnistæð en samt sem áður fyndin og skemmtileg heimild. Uppáhalds Peter Sellers myndin mín hingað til er Being there. Pink panther er líka skemmtileg, Doctor Strangelove alveg mögnuð. Alltaf gaman að sjá myndir sem maður hefur heyrt svo mikið um og komast að því hvað þær eru í raun góðar.

Í gær fór ég hins vegar að sjá mörgum sinnum betri mynd, Diarios de motocicleta. Ég fór á hana og vissi samasem ekkert um hana. Hafði reyndar séð Antonio Banderas syngja titillagið, Al otro lado del río, á Óskarnum. Ég vil ekki að Banderas verði söngvari. Myndin var samt í alla staði alveg frábær, kom mér á óvart að ég var að horfa á líf Che Guevara, hafði ekki hugmynd um að hann væri annar höfundur dagbókarinnar. Myndirnar frá Suður-Ameríku voru gullfallegar, reynslusögur fátæka fólksins svo átakanlegar og erfiðleikar þeirra félaga svo raunverulegir. Tónlistin var alveg hreint mögnuð. Ég vona að allir fari að sjá hana.

Ég ætla að fara í langa ferð um Suður-Ameríku einhverntímann. Áfangastaðir mínir verða allavega: Mexíkóborg, ferð um náttúru Chile, Machu Picchu, Lima og Buenos Aires. Svo ætla ég að sjálfsöðgu líka til Ríó de Janeiro og láta taka mynd af mér við fætur Jesú.
Hver kemur með?