þriðjudagur, júní 06, 2006

Af Satani og öðru betra fólki

Ég er búin að eiga ágætan dag Satans í dag. Ég las á mbl.is að kristið fólk væri hvatt til að biðja allan daginn til að hrekja dýrið burt. Djöfladýrkendur um víða veröld fagna þó þessum tímamótum og bíða spenntir eftir komu dýrsins. Mér finnst þetta svolítið fyndið, get aldrei skilið þessar öfgar í fólki. Þetta er nú eftir allt saman bara dagsetning. Ef dýrið ætlar að koma þá held ég sko ekki að það sé svo halló að fara að koma í dag þegar allir bíða eftir því. Það bíður betri tíma held ég nú. Það held ég nú heillin mín. Lifi Satan. Nei, djók skilurðu. Ég er ýkt ógeðslega kristin.

Ég er þreytt í dag. Við eyddum öllum morgninum í að klára að setja sviðið upp svo allt væri tilbúið fyrir frumsýningu á morgun. Það var sópað, sett upp tjöld, málað, límt og svo framvegis og svo framvegis. Svo lékum við leikritið einu sinni í dag, tveim manneskjum of fá. Ein stelpan hafði nefnilega gerst svo sniðug að snúa á sér fótinn í gær og þurfa að fara upp á slysó. Einn strákurinn er hreinn og beinn api og ákvað að mæta ekki á síðasta rennsli, mæta svo 40 mínútum of seint á generalprufu seinna í dag... Fullur í ofanálag. Náunginn er nýorðinn 20 ára gamall. Hann er alkóhólisti, drekkur tvær kaffikönnur á dag, er með magasár, þjáist af svefnleysi, gamall dópisti. Sumir lifa aðeins hraðar en aðrir. Hann er samt ágætur, svo lengi sem hann mætir á frumsýninguna á réttum tíma á morgun og gleymir ekki því sem hann á að segja.

Mér finnst spennandi að vera að fara að frumsýna. Mikið ótrúlega er gaman að taka þátt í svona flottri og stórri sýningu. Gaman að sjá texta vaxa frá engu upp í svo lifandi sýningu. Gaman að vinna svona mikið með svona frábæru fólki. Gaman að tíðarhringir 9 stelpna geti stillst saman á svona stuttum tíma. Gaman að leika. Gaman að vera stoltur af sjálfum sér.

Mamma mín minnti mig allhressilega á það í dag að ég ætti bara 8 skóladaga eftir. Ég vissi að það væri stutt eftir en... Ekki alveg svona stutt. Jeminn eini og einasti. Þetta þýðir það að eftir 11 daga hitti ég ömmu og co. í Kaupmannahöfn og fer að skoða Danmörku með þeim. Þetta þýðir líka að eftir 19 daga fer ég á Hróarskeldu. Einnig þýðir það að eftir rétt rúman mánuð verð ég komin heim í Mosfellsbæinn. Þá verð ég búin að vera úti í hálft ár. Mér finnst ég innst inni svolítið dugleg.
Ég hef það annars illilega á tilfinningunni að það verði erfitt að kveðja fólkið hérna. Mörg þeirra hitti ég ekki aftur í mörg ár, sum aldrei. Bara að ég nái að halda sambandi við bestu vinina, þá er ég sátt. Það eru líka mestar líkur á því.

Ég ætla að næla mér í smá svefn fyrir frumsýningardaginn. Góða nótt apalabbar nær og fjær.