sunnudagur, september 25, 2005

Skordýrastund

Ég hef heyrt því haldið fram oft og mörgum sinnum að skordýr séu svo heillandi, að enginn annar dýraflokkur sé fjölbreyttari og tegundaauðgin sé óþrjótandi og allt það en... Akkúratt núna finnst mér skordýr bara ekki par heillandi.

Ég er með tvær snargeðveikar húsflugur inni í herberginu mínu. Það væri svo auðvelt fyrir þær að hugsa: ,,Bíddu.. Ég er inni í herbergi, hvernig komst ég eiginlega hingað? Ég hlýt að hafa flogið hingað inn því þannig kemst ég jú á milli staða, með því að fljúga á vængjunum mínum. Hmm... Hvar komst ég inn? Ef ég finn hvar ég komst inn, þá hlýt ég að komast út sömu leið! Og þá er ég frjáls á ný." En það gera þær ekki. Það gera þær sko ekki. Ég þarf að bíða eftir að þær deyi úr ofþreytu af að fljúga á ljósaperuna aftur og aftur og aftur. Kannski brenna þær sig á endanum.

Í byrjun sumars spann lítil meinlaus köngurló vef í gluggann minn, úti sem betur fer. Eftir svolítinn tíma var köngurlóin litla orðin stór og feit, vefurinn hennar náði yfir hálfan gluggann. Þegar sólin skein á vefinn sá ég hvað hann var mikið listaverk. Fallegu spunavörtur... Kraftaverkatæki. Mér var hætt að lítast á blikuna þegar, í lok sumars, köngurlóin var orðin skuggalega stór og það var komin önnur köngurló í lítinn vef við hliðina á henni. Af einhverri ástæðu lét ég þær þó báðar vera. Af hverju að laga það sem er ekki bilað? Einn daginn var orðið of kalt fyrir þær svo þær hurfu. Ég var ekki alveg viss um hvert þær höfðu farið svo ég fór út á svalir og leitaði að þeim. Litlu vinkonur mínar máttu nú ekki bara hverfa án þess að kveðja. Ég sá þær hvergi, þar til loksins ég fann gráan knúbb (er það orð?) í horninu á glugganum. Þar var hlussan. Sú litla er enn ófundin. Þetta köngurlóarástand mitt er nú orðið þannig að ég þori ekki að sofa með opinn gluggann, ég er hrædd um að knúbburinn finni ylinn koma út og vilji kíkja í heimsókn. Bjakk.

Við bjuggum til geitungagildru í lok ágúst þegar geitungar þrír öngruðu okkur við morgunverð úti á palli. Geitungagildran var gerð úr pepsi max flösku með vatni í botninum og sykri og sultu ofan í vatninu. Ég var löngu búin að gleyma þessari gildru þangað til ég sá hana í dag. Sultan er orðin hvít, sykurinn að sjálfsögðu löngu farinn og ekki einn einasti geitungur ofan í. Bara húsflugur og aftur húsflugur. Ég er reyndar ekkert mikið sorrí yfir því, húsflugur eru jú með hættulegustu dýrum veraldar.

Skordýrastund með Önnu. Alltaf sígild, alltaf ljúf.