föstudagur, september 30, 2005

Myndin rústar bókinni...

Það er ekki oft sem mynd sem gerð er eftir bók er betri en bókin, en í tilfelli The Notebook er myndin miklu miklu miklu betri, að mínu mati.
Rithöfundurinn má þakka sínum sæla fyrir góðan handritshöfund því ef hans hefði ekki notið við þá hefði myndin floppað algjörlega. Mér fannst bókin eiginlega bara hrikalega léleg, myndin finnst mér hinsvegar mega sæt og ofsa rómó.

Bókin er væmnisþvæla, sem kemur mér reyndar ekkert mikið á óvart þar sem þetta er sami rithöfundur og skrifaði Message in a bottle, sem ég hef þó ekki séð en hef heyrt að sé væmnisþvæla af verstu gerð. The Notebook, bókin, er skrifuð allt öðruvísi en myndin. Það er ekkert verið að breyta pent eins og í flestum myndum eftir bókum, heldur erum við að tala um að handritshöfundurinn styðst í meginatriðum við bókina en ekkert meira en það. Sem betur fer. Þetta er allt önnur saga, allt aðrar persónur sem einungis heita það sama, allt aðrar áherslur. Bókin fór í taugarnar á mér frá fyrstu blaðsíðu, þar sem allt líf persónanna virðist snúast eingöngu um tilfinningar og þá meina ég tilfinningar sem enginn nema heimsins tilfinningaríkasti maður myndi finna fyrir. Lýsingarnar á ástinni fóru í mig og þegar þau sofa saman í annað skipti, 14 árum eftir að þau hittast fyrst, er það að sjálfsögðu með tilheyrandi raðfullnægingum og látum. Öllu lýst að sjálfsögðu. Ég fékk kjánahroll við að lesa þetta og fannst ég vera að lesa ástarsögu í rauðu seríunni. Ég lýsi frati á bókina.

Myndin er ennþá æðisleg!

En hey, það er bara ég.