föstudagur, júlí 01, 2005

Vinnudagasaga

Mér finnst gaman í vinnunni. Þetta er í fyrsta skipti sem ég skemmti mér, oftast, vel í vinnunni á hverjum degi. Börnin eru frábær og starfsfólkið skemmtilegt. Mér finnst gaman að tala við krakkana, þau hafa svo mikið að segja.
Fyrir nokkrum dögum var ég nýmætt í vinnuna og tók á móti einum stráknum. Hann fór beint út í glugga til að vinka pabba sínum bless. Þegar hann var sestur í gluggakistuna sneri hann sér allt í einu við og sagði: ,,Pabbi minn og ég fórum á salatbar og ég átti að vera í skottinu á bílnum."
Ég: ,,Já, en gaman." Mér fannst pínu skrýtið að hann hefði setið í skottinu en hugsaði með mér að þau ættu kannski jeppa með sætum í skottinu.
Strákur: ,,Veistu af hverju?"
Ég: ,,Nei, af hverju sastu eiginlega í skottinu?"
Strákur: ,,Nú af því að ég var að breytast í risastóran hund!"

Svo sneri hann sér við og hélt áfram að bíða eftir að vinka pabba.

Eftir þessar vikur í vinnunni hefur mér lærst að taka ekki mark á öllu sem börnin segja og gerði það ekki heldur í þetta skipti. En hver veit, kannski er hann strákurinn í þættinum þar sem aðalpersónan breyttist í hund alltaf þegar hann klóraði sér??!